| Grétar Magnússon

Stórleikur á Anfield

Stærsti leikur tímabilsins til þessa fer fram á sunnudaginn klukkan 16:30 þegar Manchester United mæta í heimsókn. Gestirnir eru fullir sjálfstrausts eftir gott gengi að undanförnu í deildinni.

Montrétturinn hefur verið réttu megin undanfarin ár hjá okkur Liverpool mönnum enda hefur gengi liðsins verið mun betra en hjá erkifjendunum í United. Sú staða er hinsvegar uppi núna að mótherjinn mætir til leiks á Anfield í stöðu sem við þekkjum því miður of vel, á toppi deildarinnar og á góðu skriði. Á meðan hafa okkar menn verið að hiksta undanfarið og spilamennskan alls ekki verið nógu góð. Ekki er hægt að segja að bjartsýnin sé í botni ákkúrat núna, sem fyrr er fámennt í miðvarðastöðunum hjá Liverpool vegna meiðsla og alls ekki líklegt að Joel Matip muni ná þessum leik. Naby Keita er sömuleiðis mjög tæpur, sem fyrr eru svo þeir Diogo Jota, Kostas Tsimikas, Joe Gomez og Virgil van Dijk fjarverandi. Hjá United eru svosem smá meiðslavandræði líka en eftir síðasta leik þeirra eru Anthony Martial og Nemanja Matic tæpir en þó er líklegra en ekki að þeir nái sér góðum fyrir leikinn. Sömu sögu er að segja af Victor Lindelöf en fjarvera hans ætti ekki að koma að sök þar sem United menn eru ágætlega settir í miðvarðastöðunum ákkúrat núna. Að lokum má svo nefna að þeir Marcos Rojo og Phil Jones verða ekki með en það hefði hvort sem er verið ansi ólíklegt að þeir ættu eitthvert tilkall til þess að spila þennan leik þó þeir væru heilir heilsu.

Sem fyrr eru því vangavelturnar tengdar því hver mun spila miðvörð með Fabinho. Ég sé ekki að Jürgen Klopp treysti annaðhvort Nat Phillips eða Rhys Williams í þennan leik og því verður að teljast líklegt að Jordan Henderson spili í vörninni. Það hefur svo þær afleiðingar að ákveðið flæði vantar á miðjuna þegar fyrirliðinn er ekki þar, eitthvað sem við sáum ágætlega gegn Southampton í síðasta deildarleik. Thiago mun líklega spila í fyrsta sinn á Anfield (ótrúlegt en satt þá hafa þessir fimm leikir hans til þessa allir verið á útivöllum) og það er nú jákvætt að þessi gæðaleikmaður verði með. Gini Wijnaldum hlýtur svo einnig að spila en þá er spurningin hver verður þriðja hjólið á miðjunni ? Það er ansi erfitt að spá fyrir um hver af þessum fjórum byrjar, James Milner, Alex Oxlade-Chamberlain, Curtis Jones eða Xerdan Shaqiri og ætla ég ekkert að segja til um það hver fær kallið frá Klopp, látum það bara koma í ljós. Ekkert þarf að ræða um hverjir skipa svo fremstu þrjár stöðurnar á vellinum eða hver verður í markinu.

Líklegt byrjunarlið United manna er eitthvað sem mér finnst óþarfi að spá í hér. Stjóri þeirra hlýtur að stilla upp sterkasta liði sem völ er á til að reyna að knýja fram sigur. Talandi um sigur United á Anfield þá kom sá síðasti í janúar 2016 þegar Wayne Rooney skoraði eina mark leiksins, síðan þá hafa liðin mæst fjórum sinnum í Musterinu, tveir leikir endað 0-0 og síðustu tveir leikir með sigri okkar manna. Það hefur aðeins einu sinni gerst áður í sögu þessara deildarleikja á Anfield að Liverpool hafi unnið þrjá heimaleiki í röð og nú er lag að jafna það "met" og um leið koma höggi á þetta United lið sem við elskum að hata. Sælar minningar eru frá síðasta leik liðanna í deildinni á Anfield, okkar menn unnu 2-0 sigur og kannski fyrst þar, kom virkilega fram trúin um að liðið myndi loksins vinna deildina, enda ómaði um allan völl hinn fagri söngur um að nú loksins þyrfti fólk að trúa því að Liverpool væri að fara að vinna deildina. Það er mikið eftir af tímabilinu og hver veit hvernig þetta fer alltsaman á þessum Covid tímum. En við getum svo sannarlega farið að hlakka til, eða kvíða fyrir sunnudeginum.

Spáin að þessu sinni er sú að okkar menn vinna þessa baráttu 2-1. Eigum við ekki að segja að heimamenn skori fyrst, United jafni metin og staðan verði þannig í hálfleik. Í seinni hálfleik verður hart barist en sigurmarkið kemur á síðustu 20 mínútum leiksins, jafnvel úr óvæntri átt. Þetta er þó birt með fyrirvara um að VAR skipti sér ekki of mikið af málum. Það verður að segjast að gestaliðið hefur hagnast töluvert á skrýtnum ákvörðunum þar það sem af er tímabils á meðan Liverpool hafa alls ekki hagnast neitt á myndbandsdómgæslu. En nóg um það ! Sunnudagurinn verður spennuþrunginn dagur og við vonum svo sannarlega að Klopp nái að berja sína menn í gang og að liðið sýni almennilega hvað í því býr eftir lélega leiki að undanförnu.

Fróðleikur:

- Þetta verður í 175. skipti sem liðin leiða saman hesta sína í enskri deildarkeppni.

- Mohamed Salah er markahæstur leikmanna Liverpool í deildinni með 13 mörk.

- Bruno Fernandes er markahæstur United manna með 11 mörk í deildinni.

- Þrír leikmenn Liverpool hafa tekið þátt í öllum deildarleikjunum 17 til þessa, Roberto Firmino, Gini Wijnaldum og Andy Robertson.

- Liverpool eru í öðru sæti deildarinnar með 33 stig eftir 17 leiki.

- Manchester United eru í efsta sæti deildarinnar með 36 stig eftir 17 leiki.

- Mohamed Salah spilar líklega sinn 125. deildarleik fyrir félagið.

- Xerdan Shaqiri gæti spilað sinn 50. leik fyrir félagið í öllum keppnum.










 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan