| Sf. Gutt

Öruggur stórsigur Liverpool!



Liverpool vann öruggan 4:0 stórsigur á Southampton á Anfield í dag. Liverpool lék frábærlega á köflum og hefði getað unnið stærri sigur. 

Líkt og í síðstu leikjum voru gerðar nokkrar breytingar á byrjunarliðinu. Það er stíf dagskrá framundan næstu vikur og því þarf að reyna að nýta liðshópinn sem best. Diogo Jota kom í sóknina eftir að hafa verið hvíldur á móti Porto. 

Fyrstu andartök leiksins voru sannarlega fjörug. Southampton fékk horn eftir tæpar 15 sekúndur. Liverpool varðist horninu og rauk fram í sókn. Diogo Jota komst í vænlega stöðu með félögum sínum en hann var of seinn að ákveða sig og hættan leið hjá í augnablik. Liverpool náði boltanum aftur. Andrew Robertson og Sadio Mané léku saman vinstra megin. Sá samleikur endaði með því að Andrew gaf fyrir markið og þar var Diogo réttur maður á réttum stað og skoraði örugglega af markteig. Óskabyrjun Rauða hersins í kuldanæðingnum!

Rétt á eftir var Thiago Alcântara of öruggur með sig rétt utan við vítateiginn. Hann missti boltann til leikmanns Southampton sem lék inn í vítateiginn. En Alisson Becker var vel vakandi, kom út úr markinu, henti sér fyrir fætur leikmannsins og bjargaði málinu. Kæruleysi hjá Thiago. Ekki leið á löngu þar til Liverpool skoraði. Sadio skallaði í mark eftir aukaspyrnu en sjónvarpsskoðararnir fóru í millimetrastríð og dæmdu Sadio rangstæðan. Rugl því hann var samsíða varnarmanni. Annan leikinn í röð er Sadio rændur marki í einhverju biluðu millimetrastríði!

Um miðjan hálfleikinn komst  Armando Broja inn í vítateiginn. Ibrahima Konaté þrengdi að honum og Alisson varði svo skotið sem hann náði. Liverpool refsaði á 32. mínútu þegar Diogo skoraði í annað sinn af stuttu færi og nú eftir að Mohamed Salah hafði sent fyrir frá hægri eftir undirbúning Jordan Henderson.  Fimm mínútum seinna gerði Liverpool út um leikinn. Thiago Alcântara sem skorar ekki oft skoraði annan leikinn í röð. Hann fékk boltann fyrir utan vítateiginn vinstra megin, lék inn í vítateiginn og skaut að marki. Boltinn fór í varnarmann og steinlá svo í markinu! Liverpool hefði átt að bæta við á lokaandartökum hálfleiksins þegar þrír leikmenn komust í gegn í skyndisókn en síðasta sending Mohamed var ónákvæm og ekkert varð úr.

Boltinn lá í fjórða sinn í marki gestanna á 52. mínútu. Trent Alexander-Arnold tók hornspyrnu frá hægri. Spyrna hans féll beint fyrir Virgil van Dijk sem tók boltann viðstöðulaust á lofti og þrumaði í markið. Hollendingurinn hefði eins getað verið að taka vítaspyrnu því hann skaut af vítapunktinum! 

Eftir þetta má segja að Liverpool hafi leikið í hægagangi til leiksloka. Öruggur stórsigur var í höfn þegar dómarinn flautaði til leiksloka í kuldanæðingnum. Southampton fékk kannski óþarflega mörg færi en Liverpool spilaði á köflum frábærlega, átti margar glæsilegar sóknir og hefði vel getað unnið stærri sigur!

Liverpool:
 Alisson, Alexander-Arnold, Konaté, van Dijk, Robertson, Henderson Milner (67. mín.), Fabinho, Thiago (Oxlade-Chamberlain 59. mín.), Salah, Jota (Minamino 81. mín.) og Mané. Ónotaðir varamenn: Kelleher, Tsimikas, Origi, Matip, N. Williams og Morton. 

Mörk Liverpool: Diogo Jota (2. og 32.), Thiago Alcântara (37. mín.) og Virgil van Dijk (52. mín.).

Southampton: McCarthy, Bednarek, (Redmond 45. mín.), Lyanco, Salisu, Livramento, Ward-Prowse, Romeu, Perraud (Walker-Peters 88. mín.), Broja, Adams (Tella 45. mín) og A. Armstrong. Ónotaðir varamenn: Forster, Long, Smallbone, Diallo, Walcott og Valery.

Gul spjöld: Jan Bednarek.

Áhorfendur á Anfield Road: 53.040.

Maður leiksins: Diogo Jota. Portúgalinn er búinn að standa sig stórvel eftir að Liverpool keypti hann. Hann skilaði sínu í dag með tveimur góðum mörkum og var að auki mjög líflegur í sókninni. 

Jürgen Klopp: Við verðum að vera eins stöðugir, einbeittir og miskunnarlausir í vörninni og við mögulega getum. Ef það tekst gefur það okkur grunn til að spila knattspyrnu. Takist það getum við skapað færi og skorað.

Fróðleikur

- Diogo Jota er nú kominn með átta mörk á keppnistímabilinu. 

- Thiago Alcântara skoraði annað mark sitt á sparktíðinni. 

- Virgil van Dijk skoraði fyrsta mark sitt á leiktíðinni. 

- Þeir Thiago Alcântara og Takumi Minamino léku sína 40. leiki með Liverpool. Thiago er búinn að skora þjú mörk og Takumi átta. 

- Seinna mark Diogo var 700. markið sem Liverpool skorar á valdatíð Jürgen Klopp.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan