| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur Liverpool er á útivelli eins og sá síðasti. Úlfarnir verða heimsóttir laugardaginn 4. desember og hefst leikurinn klukkan 15:00.

Leikirnir koma með stuttu millibili og það verður fróðlegt að sjá hvernig Jürgen Klopp stillir upp liðinu í þessum leik. Á blaðamannafundi sagði stjórinn að Joe Gomez og Naby Keita væru byrjaðir að æfa að fullu á ný sem er ánægjulegt og þeir tveir koma til greina í liðsvali eftir helgina. Hann sagði einnig að þrátt fyrir mikið leikjaálag í desember væri ekki stór ástæða til að hvíla menn á þessum tímapunkti. Frekar yrði það gert um miðjan mánuðinn eða í lok hans. Það má því gera ráð fyrir ekki svo mikið breyttu liði gegn Úlfunum og Klopp sér kannski frekar tækifæri til að hvíla í næstu viku þegar AC Milan verða heimsóttir á Ítalíu. Meiðslalistinn styttist því áfram hjá okkar mönnum en þeir Firmino, Jones og Elliott eru sem fyrr ekki tiltækir. Fleiri skörð eru hoggin í raðir Úlfanna en alls eru sjö leikmenn meiddir og Ruben Neves er í leikbanni. Við látum það vera að telja þessa sjö leikmenn upp hér en eftir því sem næst verður komist er aðeins Daniel Podence með möguleika á því að ná leik helgarinnar, reyndar lítur það ekki vel út fyrir hann.

Að þessu sögðu geri ég ekki ráð fyrir stórum breytingum á byrjunarliðinu og gerist svo djarfur að spá óbreyttu liði frá leiknum gegn Everton. Við sjáum hvað setur í þeim efnum.

Molineux leikvangurinn hefur hingað til reynst Liverpool vel í úrvalsdeildinni. Í síðustu sjö leikjum liðanna þar hafa okkar menn unnið fimm og tveir leikir endað jafnir. Liðin mættust síðast á þessum velli í mars og vannst þar 0-1 sigur með marki frá Diogo Jota gegn sínum gömlu félögum og við vonum innilega að þetta góða gengi haldi áfram á þessum velli. Úlfarnir hafa þurft að aðlagast nýjum stjóra, Bruno Lage, sem tók við í sumar og leikaðferðin hefur eitthvað breyst frá því þegar Nuno Espirito Santo stýrði þeim. Gengi þeirra hefur verið alveg með ágætum það sem af er tímabils, þeir fá ekki mörg mörk á sig en á móti kemur þá skora þeir ekki svo mikið heldur. Markatala þeirra er 12-12, síðustu tveir leikir hafa endað með markalausu jafntefli og í síðustu fimm leikjum hafa þeir aðeins fengið á sig þrjú mörk. Við getum því kannski ekki reiknað með mörgum mörkum í þessum leik en höfum þó í huga að Úlfarnir hafa ekki enn mætt neinum af toppliðunum þremur það sem af er.

Spáin að þessu sinni er sú að Liverpool vinnur leikinn 0-2 og mörkin koma bæði í seinni hálfleik. Það verður erfitt að brjóta Úlfana á bak aftur með Scouserinn Conor Coady í hjarta varnarinnar en það tekst að lokum.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur Liverpool manna með 13 mörk í deildinni.

- Hwang Hee-Chan er markahæstur hjá Úlfunum með fjögur mörk það sem af er.

- Salah spilar líklega deildarleik númer 160 fyrir Liverpool.

- Virgil van Dijk gæti spilað deildarleik númer 110 fyrir félagið.

- Liverpool eru í þriðja sæti deildarinnar með 31 stig eftir 14 leiki.

- Úlfarnir eru í 8. sæti með 21 stig eftir jafnmarga leiki.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan