| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Eftir skellinn í Napolí er komið að næsta leik. Eins og allir vita átti Liverpool leik á laugardaginn við Wolverhampton Wanderes á Anfield Road en honum var frestað vegna fráfalls Elísabetar Bretadrottningar. Leikmenn og þjálfaralið Liverpool hafa því fengið tækifæri til að hugsa sinn gang.

Fram til dagsins í dag var svo sem ekki alveg víst um hvernig leikjadagskrá yrði háttað. Öllum knattspyrnuleikjum á Bretlandi var frestað um helgina og sumir töldu að svo yrði líka um alla leiki fram að útför drottningarinnar. En nú er komið í ljós að Liverpool spila sinn leik við Ajax. Reyndar er búið að fresta leik Liverpool við Chelsea næsta sunnudag vegna útfararinnar en það er önnur saga.

Ajax byrjaði sína Evrópuvegferð í síðustu viku eins og best varð á kosið. Hollensku meistararnir unnu stórsigur 4:0 á Rangers í Amsterdam. Liðið verður því ekki auðveldur andstæðingur og leikmenn Liverpool þurfa að taka sig saman í andlitinu eins og skot. Tap fyrir Ajax myndi þýða að Liverpool væri sex stigum á eftir þeim. Eins má reikna með að Napolí vinni Rangers og þá væri Liverpool líka sex stigum á eftir ítalska liðinu. Það er því algjörlega nauðsynlegt að vinna sigur annað kvöld.


Liverpool þarf að ná vopnum sínum frá því að hafa verið algjörlega afvopnaðir á Ítalíu. Trúlega verður liðið nær því að geta talist sterkasta lið en hingað til á leiktíðinni. Reyndar getur Andrew Robertson ekki leikið vegna meiðsla. Liverpool og Ajax voru saman í riðli á leiktíðinni 2020/21. Liverpool vann þá báða leikina 1:0. Ég spái því að núna verði sömu úrslit Liverpool í vil. Valdatíð Karls þriðja Bretakonungs verður að hefjast með sigri.

YNWA!  


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan