Evrópumeistararnir unnu riðilinn!
Evrópumeistararnir unnu sinn riðil í Meistaradeildinni. Jafntefli í Englandsrimmunni við Chelsea, á Stamford Bridge í kvöld, tryggði sigur í riðlinum. Í þeirri rimmu var ekkert gefið eftir frekar en í þeim sex hólmgöngum sem undan eru gengnar á þessu ári. Leikurinn í kvöld minnti um margt á Englandsorrustuna á sama stað í vor. Þá var fátt um færi líkt og í kvöld.
Heimamenn byrjuðu þennan meistaraslag af meiri krafti og Jose Reina varði frábærlega gott langskot frá Frank Lampard snemma leiks. Eftir því sem leið á hálfleikinn náðu Evrópumeistararnir betri tökum á leiknum og Steven Gerrard átti skot sem fór rétt framhjá. Um miðjan hálfleikinn hitnaði í kolunum þegar Michael Essien braut á Dietmar Hamann. Þjóðverjinn var heppinn að slasast ekki alvarlega þegar skósóli Michael hafnaði á hnéi hans. Það vakti undrun og reiði manna í herbúðum Liverpool að Michael skyldi ekki vera refsað fyrir þetta hroðalega brot. Í raun hefði átt að reka hann af velli án frekari málalenginga. Trúlegast verður að telja að dómarinn hafi einfaldlega ekki séð þetta atvik. Leikurinn harnaði eftir þetta og nokkrar harðar tæklingar komu í kjölfarið. John Arne Riise fékk gullið færi eftir um hálftíma leik. Steven Gerrard gaf á hann. Norðmaðurinn komst í gegn og í gott skotfæri en Petr Cech varði með góðu úthlaupi.
Arjen Robben átti skot í hliðarnetið snemma í síðari hálfleik. Eftir þetta gaf hvorugt lið færi á sér. Englands- og Deildarbikarmeistararnir reyndu að herja á Evrópu- og Stórbikarmeistarana en þeir léku af skynsemi og öryggi. Þeir Sami Hyypia og Jamie Carragher voru frábærir í hjarta varnarinnar og liðsheildin var gríðarlega sterk. Í markinu stóð Jose Reina vaktina og hélt markinu hreinu níunda leikinn í röð. Það þurfti því ekki að koma á óvart að hvorugt liðið hafði náð marki þegar flautað var til leiksloka. Það voru úrslit sem dugðu til að halda efsta sæti riðilsins. Þjóðsögnurinn hljómaði úr áhorfendastæðum gestanna þessu til staðfestingar!
Þetta var fjórða Evrópuhólmganga liðanna á þessu ári. Enn hafa leikmenn Liverpool ekki lotið í gras og markið hans Luis Garcia er það eina sem hefur verið skorað í leikjunum fjórum! Það mark verður ekki aftur tekið! Jafnteflið þýddi að Evrópumeistararnir unnu riðilinn! Segja menn svo að Liverpool séu ekki verðugir Evrópumeistarar?
Chelsea: Cech, Paulo Ferreira (Del Horno 45. mín.), Ricardo Carvalho, Terry, Gallas, Essien, Robben (Carlton Cole 73. mín.), Lampard, Duff (Wright-Phillips 73. mín), Gudjohnsen og Drogba. Ónotaðir varamenn: Cudicini, Geremi, Diarra og Huth.
Gul spjöld: Frank Lampard og Ricardo Carvalho.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Traore, Gerrard, Hamann, Sissoko, Riise (Kewell 60. mín.), Crouch (Morientes 68. mín.) og Garcia ( Pongolle 80.mín.). Ónotaðir varamenn: Carson, Cisse, Josemi og Warnock.
Gult spjald: Djimi Traore.
Áhorfendur á Stamford Bridge: 41.598.
Rafael Benítez var auðvitað stoltur af liðinu sínu eftir leikinn. "Já, við verðskulduðum að hafna í efsta sæti riðilsins því við fengum fleiri stig en hin liðin. Við unnum gott verk, héldum markinu enn einu sinni hreinu og sköpuðum okkur nokkur færi eftir skyndisóknir. Það var mikilvægt fyrir okkur að ná stjórn á miðjunni. Það var erfiðara eftir leikhlé þegar Chelsea fór að senda langar sendingar fram völlinn. En menn léku vörnina vel og við verðum að njóta þessarar stundar."
Hér er svo, stuðningsmönnum Evrópumeistaranna um víða veröld til skemmtunnar, lokastaðan í riðlinum!
G riðill.
Liverpool 6. 3. 3. 0. 6:1 12
Chelsea 6. 3. 2. 1. 7:1 11
Real Betis 6. 2. 1. 3. 3:7 7
Anderlecht 6.1. 0. 5. 1:8 3
Liverpool vinnur riðilinn. Chelsea fylgir þeim í sextán liða úrslit. Real Betis fær sæti í Evrópukeppni félagsliða. Anderlecht, sem vann Real Betis 1:0 á Spáni í kvöld, hefur lokið keppni á Evrópumótunum á þessari leiktíð.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!