Hefndum náð á suðurströndinni
Liverpool náði hefndum á suðurströndinni og sló Portsmouth út úr F.A. bikarkeppninni í kvöld. Evrópumeistararnir máttu hafa sig alla við gegn grimmum heimamönnum. En allt fór vel að lokum og Liverpool vann 2:1. Liverpool náði þar með að hefna fyrir tap gegn Portsmouth á sama stað í keppninni fyrir tveimur árum. Liverpool er því komið áfram í keppninni og á morgun kemur í ljós í hverju næsta hindrun felst.
Líklega áttu margir von á því að Liverpool myndi ekki eiga í miklum erfiðleikum með heimamenn en annað kom á daginn. Leikmenn Portsmouth byrjuðu af miklum krafti og virtust ákveðnir í að bæta sig eftir að hafa tapað 5:0 fyrir Birmingham í síðasta deildarleik. Sem dæmi um grimmd þeirra og ákveðni þá voru tveir þeirra búnir að fá gul spjöld eftir stundarfjórðungs leik. Litlu síðar kastaðist í kekki milli þeirra fyrrum félaga Steven Gerrard og Gregory Vignal. Frakkinn fór þá með olnbogann af krafti aftan á háls fyrirliðans sem brást reiður við. Atgangur leikmanna var slíkur að engin friður gafst til að byggja upp almennilegar sóknir. Fyrsta markskotið kom ekki fyrr en eftir tæplega hálftíma. Jose Reina varði þá langskot Pedro Mendes sem fór beint á hann. Liverpool hafði ekki átt skot á mark þegar liðið fékk hornspyrnu á 37. mínútu. Þegar boltinn kom fyrir eftir hornspyrnuna, sem Steven Gerrard tók, fór hann í hendina á Dejan Stefanovic. Dómarinn dæmdi vítaspyrnu án þess að hugsa sig um. Steven tók spyrnuna og skoraði með nákvæmu skoti neðst í hornið. Fjórum mínútum seinna tvöfölduðu Evrópumeistararnir forystu sína. Fernando Morientes framlengdi þá sendingu inn fyrir vörn heimamanna. John Arne Riise var snöggur að átta sig og komst á auðan sjó upp vinstri kantinn. Frá vítateig skaut hann hnitmiðuðu skoti neðst í fjarhornið. Markið minnti mjög á mark sem hann skoraði gegn Everton á Goodison Park á fyrstu leiktíð sinni með Liverpool. Markvörður Portsmouth varði svo á síðustu stundu frá Fernando Morientes sem var kominn inn á teiginn. Allt leit út fyrir öruggan sigur Liverpool þegar flautað var til leikhlés.
En heimamenn komu sér inn í leikinn á 54. mínútu. Aukaspyrna frá vinstri var send inn á teiginn þar sem Sean Davis náði að fleyta boltanum aftur fyrir sig og í markið óverjandi fyrir Jose Reina. Í næstu sókn var John Arne Riise næstum búinn að auka forystu Liverpool en hann skaut yfir úr dauðafæri af stuttu færi. Fá færi sköpuðust það sem eftir lifði leiks en hart var barist úti um allan völl. Dejan Stefanovic átti gott skot úr aukaspyrnu sem fór rétt yfir þegar fimmtánmínútur voru eftir. Hinu megin á vellinum komst Fernando í gott færi en missti boltann frá sér. Á lokakafla leiksins mátti Jose Reina vera vel á verði og tvívegis náði hann boltanum á síðustu stundu eftir baráttu í teignum. En Liverpool hélt forystunni og landaði sigri á suðurströndinni. Liðið lék vissulega ekki vel en þó nógu vel til að vinna sigur. Það var fyrir mestu í þetta skiptið.
Portsmouth: Kiely, Primus (Priske 88. mín.), Stefanovic, O´Brien, Vignal (Todorov 45. mín.), O´Neil, Davis, Mendes, Hughes, Taylor og Pericard (Karadas 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Ashdown og Cisse.
Mark Portsmouth: Sean Davis (54. mín.)
Gul spjöld: Vincent Pericard, Richard Hughes og Sean Davis.
Liverpool: Reina, Kromkamp, Hyypia, Carragher, Warnock, Gerrard (Finnan 80. mín.), Alonso, Sissoko, Riise, Cissé (Kewell 83. mín.) og Morientes (Crouch 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson og Traore.
Mörk Liverpool: Steven Gerrard, víti (37. mín.) og John Arne Riise (41. mín.)
Gult spjald: Mohamed Sissoko.
Áhorfendur á Fratton Park: 17.247.
Rafael Benítez var ánægður með að sleppa með sigur úr leiknum. ,,Við stóðum okkur mjög vel gegn erfiðum andstæðingum. Þetta var erfiður leikur fyrir okkur og Portsmouth setti mikla pressu á okkur í síðari hálfleik. En ég er ánægður með að komast áfram í næstu umferð."
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!