Brottför Djimi Traore staðfest
Nú hefur verið staðfest að Djimi Traore hafi gengið til liðs við Charlton Athletic. Franski varnarmaðurinn hefur gert samning sem gildir í fjögur ár. Samkvæmt vefsíðu BBC borgar Charlton Liverpool tvær milljónir sterlingspunda fyrir Djimi. Charlton gerði gott betur því félagið festi líka kaup á Amdy Faye frá Newcastle United í dag. Djimi hefur í sumar verið orðaður við nokkur félög. Fyrir ári var hann næstum farinn til Everton en þau kaup gengu til baka á síðustu stundu. En nú eru vistaskipti orðin að staðreynd.
Þótt ótrúlegt megi virðast þá hefur aðeins Jamie Carragher leikið lengur með Liverpool en Djimi. Hann er nefnilega búinn að vera á mála hjá Liverpool frá því í byrjun árs 1999. Liverpool keypti hann þá fá Laval fyrir 550.000 sterlingspund og var hann þá talinn einn efnilegasti varnarmaður í Evrópu. Djimi lék sinn fyrsta leik með Liverpool gegn Hull í Deildarbikarnum haustið 1999 í leik sem Liverpool vann 5:1 sigur á útivelli. Líklega var besta leiktíð hans 2002/2003 en þá lék hann 49 leiki. Hann lék 24 leiki á síðustu leiktíð.
Þó svo Djimi næði því aldrei að vera fastamaður í liði Liverpool þá átti hann góða kafla í liðinu. Kannski hamlaði það honum að hann fékk sjaldan að leika stöðu miðvarðar en í þeirri stöðu á hann að vera sterkastur. Hann var oftast látinn leika vinstri bakvörð og sú staða hentaði honum ekki hvað best. Hann átti það líka til að að gera klaufaleg mistök sem vel var eftir tekið. Vissulega átti hann góða leiki og það var erfitt að komast framhjá honum á góðum degi því hann var nokkuð fljótur og átti oft góðar tæklingar. Hápunkturinn á ferli Djimi hjá Liverpool var þegar hann varð Evrópumeistari í Istanbúl. Hann lék mjög vel sem vinstri bakvörður á Evrópuvegferð Liverpool sem leiddi til Istanbúl.
Djimi lék 141 leik með Liverpool og skoraði eitt mark. Djimi hefur leikið nokkra landsleiki fyrir Malí og hann var valinn í landsliðshóp þeirra nú á dögunum fyrir komandi landsleiki. Sem fyrr segir þá varð Djimi Evrópumeistari með Liverpool og var það eini titillinn sem hann vann á ferli sínum með félaginu.
Við óskum Djimi Traore góðs gengis hjá Charlton Athletic.
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni