Evrópubikarinn fór til Mílanó
Langri og strangri Evrópuvegferð Rauða hersins lauk með tapi í Aþenu í kvöld. AC Milan vann Evrópubikarinn í sjöunda sinn og hefndi fyrir tapið í Istanbúl fyrir tveimur árum. AC Milan vann 2:1 í leik sem Liverpool hefði allt eins getað unnið en Milan skoraði mörkin. Leikmenn Liverpool hafa oft leikið betur og létu gott færi sér úr greipum ganga.
Liverpool hóf leikinn vel og það var greinilegt að leikmenn liðsins ætluðu að ná forystu í leiknum. Leikmenn voru mjög duglegir og pressuðu mótherja sína stíft. Varnarmenn Milan voru óöruggir og leikmenn Liverpool voru líklegir til að komast yfir. Eftir tíu mínútur slapp Jermaine Pennant inn á vítateig en Dida varði skot hans. Hann hélt þó ekki boltanum en enginn leikmaður Liverpool var á svæðinu til að ná frákastinu. Litlu síðar slapp Jermaine aftur upp hægra megin. Hann sendi fyrir en sendingin var of há og Steven Gerrard náði ekki að hitta boltann. Kaka átti fyrstu marktilraun Milan en Jose Reina varði langskot hans af öryggi. Um miðjan hálfleikinn átti Xabi Alonso skot utan vítateigs sem fór rétt framhjá. John Arne Riise átti svo langskot yfir. Liverpool hélt undirtökunum fram á lokamínútu fyrri hálfleiks. Xabi braut þá klaufalega á Kaka rétt utan vítateigs. Pirlo tók aukaspyrnuna. Boltinn virtist stefna beint á Jose Reina en á leiðinni fór hann í Filippo Inzaghi. Boltinn breytti um stefnu af honum og fór í markið án þess að Jose kæmi nokkrum vörnum við. Þetta var algjört heppnismark og það versta var að boltinn virtist fara í aðra hendi Fillipo og af henni í markið. Þetta mark var algjört kjaftshögg fyrir leikmenn Liverpool og reyndist vendipunktur í leiknum.
Leikmenn Liverpool hófu síðari hálfleikinn eins og þann fyrri með því að sækja meira en leikmönnum liðsins gekk illa að opna vörn Milan. Reyndar náði liðið aldrei að leika eins vel og í fyrri hálfleik. Rafael Benítez reyndi að styrkja sóknarleikinn með því að skipta Boudewijn Zenden af leikvelli. Í hans stað kom Harry Kewell. Harry átti eftir að eiga góða spretti. Liverpool fékk gullið færi til að jafna á 62. mínútu. Steven Gerrard náði þá boltanum eftir mistök í vörn ítalska liðsins. Hann lék inn að markteig vinstra megin og skaut að marki. Hann vandaði sig þó of mikið við að miða og því varð skotið of laust þannig að Dida varði. Þetta var algert dauðafæri og Steven hefði átt að gera betur. Vörn Liverpool var óörugg á köflum og markið slapp nokkrum sinnum eftir að varnarmenn Liverpool misstu boltann klaufalega. Peter Crouch kom loks inn á þegar tólf mínútur voru eftir. Hefði hann að ósekju mátt koma fyrr inn á og margir hefðu viljað sjá hann í byrjunarliðinu. Átta mínútum fyrir leikslok svaf vörn Liverpool á verðinum. Kaka læddi þá boltanum inn fyrir vörn Liverpool. Fillipo stakk sér inn fyrir, lék á Jose Reina og renndi boltanum í markið af miklu öryggi. Leikmenn Liverpool reyndu hvað þeir gátu til að snúa blaðinu við. Peter átti gott skot utan teigs sem Dida sló yfir. Mínútu fyrir leikslok fyrir leikslok fékk Liverpool hornspyrnu frá vinstri. Jermaine sendi fyrir, Daniel Agger fleytti boltanum inn á markteig þar sem Dirk Kuyt skallaði í mark. Nú var stutt eftir. Of stutt fyrir endurkomu og ekki hjálpaði til að dómarinn flautaði til leiksloka áður en viðbótartíminn rann út. Vonbrigði stuðningsmanna Liverpool, sem voru frábærir, voru mikil en þeir sungu samt You´ll Never Walk Alone í leikslok. Evrópubikarinn fór til Mílanó og þar við situr.
AC Milan: Dida, Oddo, Nesta, Maldini, Jankulovski (Kaladze 79. mín.), Gattuso, Pirlo, Ambrosini, Seedorf (Favalli 90. mín.), Kaka og Inzaghi (Gilardino 88. mín). Ónotaðir varamenn: Kalac, Cafu, Serginho og Brocchi.
Mörk AC Milan: Fillipo Inzaghi (45. og 82. mín.).
Gul spjöld: Genaro Gattuso og Marek Jankulovski.
Liverpool: Reina, Finnan (Arbeloa 88. mín.), Carragher, Agger, Riise, Pennant, Alonso, Mascherano (Crouch 78. mín.), Zenden (Kewell 59. mín.), Gerrard og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Dudek, Hyypia, Gonzalez og Bellamy.
Mark Liverpool: Dirk Kuyt (89. mín.).
Gul spjöld: Javier Mascherano og Jamie Carragher.
Maður leiksins: Jermaine Pennant. Jermaine var gríðarlega duglegur og var sífellt ógnandi á hægri kantinum. Varnarmönnum AC Milan gekk oft illa að fást við hann.
Rafael Benítez hafði þetta að segja í leikslok. "Til að byrja með vil ég óska AC Milan til hamingju. Þeir eru með gott lið. Mér fannst við stjórna leiknum í fyrri hálfleik. Við vorum að sækja og skapa markttækifæri. Svo fegnum við slæmt mark á okkur. Reyndar eru nú öll mörk sem maður fær á sig slæm. Vandamálið við markið var að við urðum að breyta hugsun okkar í síðari hálfleik. Við sóttum í síðari hálfleik en við þurftum að nota færin okkar. Mig langar að þakka stuðningsmönnum okkar, starfsfólki og leikmönnunum. Þeir lögðu hart að sér og verðskulduðu aðeins meira."
Það hafðist ekki að vinna Evrópubikarinn í sjötta sinn í kvöld. Vonbrigðin eru mikil. Mest eru vonbrigðin fyrir þá sök að Liverpool átti að refsa liði AC Milan, sem var lengst af óöruggt. Helsti veikleiki Liverpool lét á sér kræla í Aþenu og það á versta tíma. Sá er að Liverpool hefur oft átt við þann vanda að etja, síðustu árin, að gera út um leiki sem liðið hefur haft yfirhöndina í. Liverpool hafði lengi vel öll tök á leiknum í kvöld. Það átti að vera hægt að vinna í Aþenu. En það tókst ekki. Við stuðningsmenn Liverpool getum þó verið stoltir af okkur og liðinu okkar eftir magnaða Evrópuvegferð!
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!