Gary McAllister
- Fæðingardagur:
- 25. desember 1964
- Fæðingarstaður:
- Motherwell, Skotlandi
- Fyrri félög:
- Motherwell, Leicester, Leeds, Coventry
- Kaupverð:
- £ 0
- Byrjaði / keyptur:
- 25. maí 2000
- Upplýsingar á LFChistory.net
- Skoða
Gary tók örlagaríkasta skref ferils síns sumarið 1990 er hann gekk til liðs við Leeds fyrir eina milljón punda. Það tók Gary dálítinn tíma að aðlagast Leeds-liðinu og var hann stundum mjög gagnrýninn á samherja sína, fannst þeir ekki nógu teknískir fyrir sinn smekk. En McAllister, Batty, Strachan og Speed náðu um síðir vel saman á miðjunni og með Cantona frammi sköpuðu þeir sterkan kjarna sem tryggði Leeds titilinn leiktíðina 1991-92. McAllister var um tíma fyrirliði liðsins og var kjörinn leikmaður ársins hjá Leeds tímabilið 1993-94. 1995-1996 reyndist síðasta leiktíð hans með Leeds. Liðið var á niðurleið og orðrómur var á kreiki um að Leeds væri ekki reiðubúið að ganga að launakröfum McAllister sem hljóðuðu uppá um 20.000 pund á viku. Gary fannst þá tími til kominn að fara á nýjar slóðir og fór til Coventry fyrir þrjár milljónir sterlingspunda sem þótti há upphæð fyrir 31 árs gamlan leikmann en gamli samherjinn hans Gordon Strachan þekkti sinn mann. Gary var fyrirliði Coventry og skoska landsliðsins um tíma og var leikstjórnandi þeirra á miðjunni.
Gary var valinn leikmaður ársins hjá Coventry á síðasta tímabili. Hann lék 36 leiki og skoraði alls 13 mörk en hann hefur aldrei skorað fleiri mörk á einu tímabili í efstu deild. Skotinn er auðvitað kominn af léttasta skeiði en hvað reynsluna varðar hafa fáir hana meiri en Gary og það á eftir að koma til góða. Hann er að auki sterkur persónuleiki, kraftmikill, skorar þó nokkuð af miðjumanni að vera og sendingar hans eru annálaðar.
"Ég mun hjálpa ungu leikmönnunum. Liverpool þarf að leika í þrem bikarkeppnum á næsta ári auk þess er erfiður vetur framundan í úrvalsdeildinni. Meðalaldur liðsins á síðasta tímabili voru um 25 ár og það er mjög ungt fyrir lið í toppbaráttu. Framkvæmdastjórinn útskýrði fyrir mér að það þyrfti að hafa einhvern reynslumikinn með þeim. Ég varð að grípa þetta tækifæri. Þetta er ótrúlegt, ævintýri líkast. Liverpool er eitt stærsta félag í heimi. Raunhæft séð þá verður þetta líklega síðasti samningurinn sem ég mun skrifa undir sem leikmaður svo að ég er því enn ákveðnari að mæta grimmur til leiks. Það eru þvílíkir klassaleikmenn með mér í liði svo hver veit, kannski eru 1-2 ár ennþá eftir í mér. Þetta er gríðarleg áskorun fyrir mig og eitthvað sem ég bjóst alls ekki við á þessu stigi ferils míns en ég ætla að grípa tækifærið."
Gary Mac sló heldur betur í gegn hjá Liverpool og frammistaða hans í úrslitaleiknum gegn Alaves og fleiri leikjum á þrennutímabilinu er mönnum í fersku minni. Gary Macca-söngurinn gerir hann ódauðlegan.
Tölfræðin fyrir Gary McAllister
Tímabil | Deild | Bikar | Deildarbikar | Evrópa | Annað | Alls |
---|---|---|---|---|---|---|
2000/2001 | 30 - 5 | 5 - 0 | 5 - 0 | 9 - 2 | 0 - 0 | 49 - 7 |
2001/2002 | 25 - 0 | 0 - 0 | 1 - 1 | 10 - 0 | 2 - 1 | 38 - 2 |
Samtals | 55 - 5 | 5 - 0 | 6 - 1 | 19 - 2 | 2 - 1 | 87 - 9 |