Ferð á Anfield 14 - 17 mars 1996
Tíminn líður hratt. Það er komið ár síðan er Liverpooklúbburinn stóð fyrir ferð á Anfield Road og það á sínu fyrsta starfsári. Nú er annað árið sem klúbburinn starfar og við erum á leið til Anfield Road í annað sinn. í þetta sinn sjáum við Liverpool - Chelsea og Leeds - Everton.
Fimmtudagurinn 14. mars
Hópurinn hittist í Ölveri til að sýna sig og sjá aðra. Ferðaáætlunin kynnt lauslega. Fararstjóri í ferðinni var Magnús V. Pétursson og á hann þakkir fyrir að gera klúbbnum kleift að komast á leikinn. Horft á leik Liverpool - Man Utd frá því í fyrra er klúbburinn var á vellinum. Frábær leikur sem Liverpool vann með mörkum frá Jamie Redknapp og Steve McManaman. En það er önnur saga. Menn fengu sér öl og spjölluðu saman um leikmenn og gengi okkar manna. Er klukkan nálgaðist 23:05.34 fóru menn heim til að pakka niður Liverpoolfötunum.
Föstudagurinn 15. mars
Mæting út á flugstöð Leifs Eiríkssonar var klukkan 7:00. Farið var í loftið klukkan 8:05. En á meðan voru menn að versla í fríhöfninni eða að æfa sig í ensku til að geta sagt: "One Carlsberg" en eins og í fyrra þá var Carlsberg ekki til á barnum. Og ef mig misminnir ekki þá sýndist mér að það vera sami barþjónn og í fyrra sem afgreiddi liðið. Hann hló og setti Holsten á borðið. Nú er ég pottþéttur um að hann sé Tottenhamaðdáandi. Hópurinn gengur um borð í flugvélina. Við erum að leggja í hann. Við erum komnir til Glasgow. Klukkan er 10:25:13 er við göngum um borð i LANGFERÐARBÍLINN. Því miður er enginn mini bar en það er klósett svo að það bjargar mörgum bjórdrykkjumönnum. Við stoppum í Makro, heildverslun, þar var hægt að kaupa allt á milli himins og jarðar. Þar kaupa menn ekki kippu af bjór heldur er minnsta einingin kassi. Eins og við sögðum: "Kassi á dag kemur skapinu í lag." Ég veit að menn versluðu þar þó nokkuð enda stórskemmtileg búð. Næsti áfangastaður er rétt við landamæri Skotlands og Englands það sem er hér átt við er veitingastaður, menn voru orðnir hungraðir. Eftir klukkutíma stopp er haldið áfram, næsti áfangastaður er LIVERPOOL. Er við komum til LIVERPOOL á hótel sem heitir Moat house er byrjað á því að skoða miðbæinn en hann er við næsta horn. menn skiptu sér í hópa og röltu um miðbæinn og fengu sér eitthvað að borða. Á hótelinu voru margir Liverpoolaðdáendur frá ýmsum löndum. Við töluðum við Dani, Svía, Norðmenn, Íra og Hollendinga. Allt þetta fólk var að fara á leikinn daginn eftir. Barinn á hótelinu var vinsæll hjá leikmönnum Liverpool, Ian Rush á það til að líta við en við sáum hann ekki þetta kvöld. Þegar tók að nálgast miðnætti fóru menn á næturklúbba t.d. Paradox og Buzz þvílíkir staðir. Er menn komu frá næturklúbbunum var kíkt inn á hótelbarinn þar sem voru nokkrar hræður enn að drekka Carlsberg Ice (sannir Liverpool menn drekka ekkert annað). Þegar klukkuna vantaði 4 og 1/2 mínútu í þrjú var kominn háttatími því að stóri dagurinn var á morgun.
Laugardagurinn 16. mars
Menn vöknuðu snemma og fóru í bæinn til að versla. Rútan sem fór með okkur á Anfield Road lagði á stað frá Moat house klukkan tólf á hadegi. Það var gríðarleg stemmning í hópnum. Veðmálið um hver skoraði fyrsta markið og hvernig leikurinn myndi enda var dregið upp og menn kláruðu að fylla út sínar spár. Allir lögðu 5 pund undir. Þetta var stór pottur eða um 170 pund. Við erum lagðir á stað og við stoppum við hliðina á Goodison park. En eins og flestir vita þá er stutt á milli valla hjá Liverpool og Everton. Við erum komnir á Anfield Road. Magnús V. Pétursson nær í miðana og við höfum góðan tíma til að skoða okkur um. Sumir fóru beint í minjagripaverslunina og keyptu gífurlega mikið. Aðrir fóru á röltið í leit að næsta pöbb. Hver og ein einasta krá var þéttsetin en menn létu það ekki aftra sér. Hópurinn er mættur aftur á Anfield tímanlega til að koma sér fyrir í sínum sætum. Við erum við hliðina á THE KOP og það sem er svo skemmtilegt við þennan dag er að það er fánadagur. Allir komu með fána litla, stóra og hrikalega stóra, þetta er stórkostleg sjón. Klukkan er orðin þrjú og leikurinn er að hefjast en áður en leikurinn hófst var mínútu þögn í minningu um þau börn sem létust í hrikalegum harmleik í Skotlandi nokkrum dögum áður. Leikurinn hefst. Ruud Gullit er ekki með. Á varamannabekknum hjá Liverpool eru Tony Warner markmaður, Ian Rush og Jamie Redknapp. Steve Harkness lék í stað Phil Babb sem var meiddur. Leikurinn var þrælgóður. Liverpool menn voru rólegir í fyrri hálfleik. "Stan the Man" átti stórkostlegt skot í slá, það tekst bara næst. í hálfleik var staðan ennþá 0-0. Seinni hálfleikur byrjaði með látum hjá Liverpool sem endaði með því að Mark Wright skoraði frábært skallamark eftir góðan undir búning hjá Steve McManaman. Þetta var hans dagur engin spurning, maður leiksins. Robbie Fowler bætti svo öðru marki við um miðjan síðari hálfleik og staðan orðin 2-0 fyrir Liverpool. Þannig endaði frábær leikur. Það má segja að þegar Liverpoolklúbburinn er á staðnum þá vinnur Liverpool alltaf 2-0 eins og síðast er Liverpool vann Man Utd einmitt með sömu markatölu. Félagar í Liverpoolklúbbnum sáu frábæran leik. Þvílík stemming hjá okkar mönnum og stemmingin í THE KOP var stórkostleg þeir sungu og veifuðu öllum sínum fánum í gríð og erg. Þetta var einstök tilfinning. Eftir leik fórum við í bikaraherbergið og þar hittum við ýmsa toppa. Við hittum formann Liverpool Football Club David Moores og aðalritarann (general secetary) Peter Robinson. En hann útvegaði okkur miðum á leikinn með hjálp Magnúsar. Ég veit að sumir náðu mynd af sér með John Barnes fyrirliða Liverpool en hann ásamt nokkrum leikmönnum var á hæðinni fyrir neðan bikaraherbergið. Þetta er búinn að vera frábær dagur. Þetta er einn af þessum dögum sem maður gleymir aldrei.
Er við komum út úr bikaraherberginu hjá Liverpool var stigið upp í rútuna og lagt af stað til Leeds en á morgun ætlum við að sjá Leeds taka á móti Everton. Á leiðinni til Leeds keyrðum við yfir "Hellisheiði" þeirra Breta því að það snjóaði úti og umferðin gekk hægt og örugglega. Á meðan við keyrðum í gegnum snjókomuna var farið yfir veðbankann. Eins og allir muna var potturinn 170 pund. Hann skiptist á milli fjögurra aðila, 42 pund á mann. Þar á meðal var fararstjórinn Magnús V. Pétursson með rétta markatölu eins og Heiðar og Hjörleifur en Jóhannes var sá eini sem var með rétt hver skoraði fyrsta markið en það var Mark Wright. Hjörleifur átti eftir að koma meira við sögu í veðbankanum. Eftir smá keyrslu um Leeds fannst hótelið, klassahótel. Menn komu sér fyrir á herbergjunum og skelltu sér í önnur föt því nú átti að kíkja á lífið í Leeds. Allstaðar í Leeds voru borðar og fánar til að minna Leedsaðdáendur á úrslitaleikinn í CC Cup, sem Liverpool vann á síðasta keppnistímabili. Leeds lék til úrslita við Aston Villa en Leeds reið ekki feitum hesti frá þeirri viðureign því þeir töpuðu. En hverfum frá þessum staðreyndum og komum okkur aftur í ferðasöguna. Hópurinn skipti liði og dreifði sér um alla Leeds borg. Leitandi að góðum veitingahúsum, skemmtistöðum og stað þar sem hægt var væri að horfa á viðureign Bruno og Tyson. Menn skemmtu sér og öðrum langt fram eftir kvöldi. Á morgun er Sunnudagur.