Liverpool - Blackburn í nóvember 1998

Lagt af stað snemma föstudagsmorguns í Leifsstöð. 115 stykki mætt á staðinn. Hópurinn dreifður um flugstöðina en hefur sameinast að mestu leyti við barinn. Ég og Kiddi Eyjamaður komum fljótlega auga á "samfararstjóra" okkar frá Úrval-Útsýn hann Lúðvík Arnarson umvafinn kvenfólki að venju. Ekki fór svo að allt gengi áfallalaust fyrir sig vegna þess að klukkutíma seinkun varð á fluginu vegna hvassviðrisins sem olli skemmdum á landganginum sem vélin átti að nota. Menn tóku það misjafnlega nærri sér en nokkrir glaseygðir eygðu þar gullið tækifæri á nokkrum ferðum í viðbót á barinn. Kl. 10 var svo lagt af stað í tveggja og hálfs tíma flug til Liverpool. Menn fleygðu töskunum upp á herbergi á Britannia Adelphi og fóru ýmist í jólaverslunarleiðangur í miðbænum enda ódýrt að versla í Liverpool eða beint í búðina á Anfield Road til þess að losna við biðröð upp á hundruðir metra á leikdegi. Menn versluðu grimmt fatnað vandlega merktum Liverpool og greinilegt að heilu fjölskyldurnar á Íslandi munu líta út eins og sértrúarsöfnuðir eftir þessar aðfarir. Um kvöldmatarleytið stökk tæplega helmingur hópsins upp í rútu til Manchester til þess að hlýða á Elton John í Nymex Stadium, íshokkýhöll sem tekur um 17.000 manns. Keflvíkingarnir tveir buðu upp á hluta af snuffinu sem þeir höfðu komist yfir í kjörbúð steinsnar frá hótelinu. "Skammturinn á 600 kall í Keflavík enda ólöglegt", sögðu þeir og sugu upp í nefið. Watfordeigandinn spilaði allt að því sleitulaust í tvo og hálfan tíma og gaf sig greinilega að lífi og sál. Einn Íslendinga merktur Elton bak og fyrir í sérhönnuðum stuttermabol rauk upp í tíma og ótíma og þrumaði yfir svæðið: "I love you Elton, vúúúúhúú, old song, old song!". Komnir til Liverpool um miðnætti, beint á pöbbarölt. Fórum inná bar sem minnti helst á að einhver hafði komið fyrir barborði í Kolaportinu. Eldgamall kall lífs eða liðinn í horninu, sjötug kerling hálfnakinn með appelsínuhúðina út um allt og einhver latínó 1.10 á hæð hristist og skalf og horfði í gaupnir í sér. Kíktum svo á diskótekið á hótelinu sem var þaulsetið 66 flugfreyjum frá Dublin og var greinilegt að sumir Íslendinganna voru að fá sér meiri skerf af þjónustunni um borð en góðu hófu gegndi. Börum lokað á slaginu kl. 2, óguðlegur tími en mönnum til hughreystingar var einn hótelbarinn opinn til 4.30 en hann varð brátt það þaulsetinn að hann minnti frekar á "minibar", eins og Kiddi Eyjamaður orðaði það. Snuffurunum frá Keflavík og greinarhöfundi fannst svo tími til kominn um þrjúleytið að fara í smá sightseeing um borgina enda margt að skoða. Kíkti inn um gluggann á fremsta leigubílnum en hann sagðist vera að bíða eftir einhverjum. Litum aftur fyrir bílinn: 300 metra biðröð minnti á ástandið heima, röltum aftast í röðina en gáfumst fljótt upp og ákváðum að labba þetta bara. Labbaði aftur framhjá fremsta leigubílnum, bílstjórinn hóaði í mig og spurði hvert við ætluðum að fara. "Bara í smá sightseeing", "hoppið inn", sagði kallinn og við stigum inn og veifuðum um leið glaðlega til fjöldans sem beið ennþá. Leigubílstjórinn spurði okkur hvort við vildum skoða bítlaslóðir: "Strawberry Fields and all that shit", Strawberry Fields reyndust vera 8 mílur fyrir utan borgina svo að við létum okkur nægja að halda okkur miðsvæðis. Skoðunarferðin reyndist samanstanda af hringsóli um hafnarsvæðið, Albert docks þar sem sáum m.a. hurðina á Bítlasafninu og heyrðum mikið af þeim undursamlega "you know what I mean" frasa sem virðist loða við heimamenn til að leggja áherslu á þann fróðleik sem bunar út úr þeim hverju sinni. Við sögðumst vera frá Íslandi en skömmu síðar keyrði hann framhjá dómshúsinu og sagði að þar þyrftum við að fara ef okkur yrði á að drepa einhvern á meðan dvöl okkar í Liverpool stæði yfir. Það er greinilegt að misjafnt orðspor Íslendinga hefur borist víða.

Laugardagurinn 28. nóv. Knattspyrnuleikur gegn liði aðdáendaklúbbs Liverpool á Merseyside (þ.e.a.s. liði heimamanna) og skoðunarferð um Anfield á dagskránni. Við hóuðum saman í lið byggt á þeim sem voru ekki of slappir til að vakna um tíu um morguninn. Mættir á pöbbinn, liðið þeirra um og yfir tvítugt hraustlegir að sjá með gatorade og aðra heilsudrykki í hendi. Þeir horfðu svo furðu lostnir á þegar helmingur okkar manna rauk beint á barinn og pöntuðu Guiness! Menn fengu alklæðnað frá Liverpool-alþjóðaklúbbnum og voru til í slaginn. 12 talsins+Ebbi Evans andlegur leiðtogi og framkvæmdastjóri liðsins. Völlurinn nokkuð illa farinn, rennblautur og útlit fyrir hálfgerðan leðjuslag. Kom auga á Jon Newby leikmann varaliðs Liverpool og einn markaskorara Liverpool í úrslitaleik FA Cup unglingaliða. Hann reyndist einungis ætla að horfa á leikinn sem mönnum létti talsvert við, reyndist vera þjálfari liðsins. Yngri bróðir hans að leika með liðinu og af tilburðum hans að dæma ekki ólíklegur að feta í fótspor stóra bróður. Dómarinn kom vaskur til leiks og tilkynnti að leiktíminn væri 2x45 mínútur, menn örvæntu og heimtuðu startkapla á staðinn og nokkra sjúkrabíla til taks. Sömdum við dómararann um 2x30 mínútur. Nokkrum mínútum fyrir upphaf leiks fórum við að huga að liðsskipan. Arngrímur (nafni) "Kennedy" að sjálfsögðu vinstri bakk, tveim stærstu mönnunum skipað að halda sig nálægt miðju vallarins, greinarhöfundur í fremstu víglínu, Kiddi Eyjamaður markvörður og Héðinn Jónsson línuvörður og skilaði hlutverki sínu ágætlega, veifaði flaggi sínu ótt og títt til merkis um rangstöðu þegar heimamenn skoruðu fyrsta markið en dómarinn veifaði með vanþóknunarsvip og dæmdi markið gilt. Fyrsta markið kom eftir 25 mínútur og voru heimamenn farnir að ókyrrast enda liðið leikið 6 leiki á tímabilinu og unnið þá alla með miklum mun. Frammmistaða okkar manna kom þeim og ekki síður okkur í opna skjöldu. Fyrri hálfleikurinn mjög lengi að líða. Pétur "Sammy Lee" (eitthvað með lærin hans að gera) Wilhelm Jónasson miðjumótor liðsins brákaði á sér handlegginn en þrátt fyrir mikinn sársauka fór hann aftur inná en það mátti þó helst rekja til þess að eini varamaðurinn okkar neitaði að koma inná! Vorum sterkari aðilinn í fyrri hálfleik þrátt fyrir að vera 2-0 undir. Áttum að fá vítaspyrnu í seinni hálfleik er ég var felldur, meira að segja bakvörðurinn þeirra viðurkenndi að þetta hefði verið víti, fjöldi góðra færa í súginn. Vorum andlega sterkari í seinni hálfleik en heppnin ekki með okkur og fjögur mörk bættust í hópinn. Dómarinn farinn að ókyrrast um miðjan síðari hálfleik vegna þess að hann átti stefnumót við konuna sína til að sinna jólainnkaupunum. Mínútu fyrir leikslok lagðist einn heimamanna ofan á "Sammy Lee" og greinarhöfundur óð að dómaranum og heimtaði gula spjaldið og varð dómarinn við þeirri beiðni við mikinn fögnuð okkar manna. Það má fullyrða að ef Kidda Eyjamanns hefði ekki notið við í markinu þá hefðum við ekki fengið okkur á svo mörg mörk. Tvö mörk algjörlega á hans reikning. David James virtist mun sterkari markmaður í huga flestra eftir að hafa orðið vitni að tilburðum hans í markinu. Dómarinn þótti helst til of hreinlegur meðan aðrir voru forugir upp fyrir haus en heimamenn bættu fljótlega úr því. Kiddi Eyjamaður tolleraður og stauluðust svo menn í sturtu, snittur og bjór sem biðu okkar á pöbbnum. Í leigubílnum á leiðinni á hótelið varð mér að orði að þessar 2x30 mínútur verið helst til of lengi að líða, þeir sem höfðu veitt okkur andlegan stuðning af hliðarlínunni hváðu: "60 mínútur?!, leikurinn var 90 mínútur, meira að segja 5 mínútur í meiðslatíma í seinni hálfleik!" Klukkutíma síðar 40 manns mættir upp á Anfield til þess að fara í skoðunarferðina. Allir létu taka mynd af sér með hendina á "This is Anfield" skiltinu í ganginum út á völl. Leiðsögustúlkan útskýrði fyrir okkur vandlega að ekki mætti snerta grasið á Anfield undir nokkrum kringumstæðum og bað mig síðan að ítreka það við hópinn, ég hafði ekki svo sleppt orðinu þegar einn okkar kemur inn um dyrnar neðan við "This is Anfield"-skiltið, veifandi afleggjara af Anfield sigri hrósandi. Ég brosti vandræðalega til leiðsögustúlkunnar og sagðist ekki hafa séð hann laumast út. Túrinn um klukkutíma langur, liðið fór síðan í minjasafnið þar sem m.a. má finna eintak af fréttablaði voru sem og aðra stórmerkilega hluti sem tengjast sögu Liverpool. Liverpoolbúðarinnar vitjað enn og aftur og síðan komið sér fyrir á pöbb hinum megin götunnar og fylgst með Sky-úrslitaþjónustunni og fögnuðu menn er Arnar Gunnlaugss skoraði tvö á fjórum mínútum en svo skemmtilega vildi til að Arnar Björnss og félaga á Stöð Tvö voru á staðnum til að gera þátt um Arnar en Gunnlaugsson hafði einmitt lofað Björnssyni að hann myndi skora tvö mörk í leiknum.

TIL BAKA