Rob Jones

Endalok knattspyrnuferilsins…..aðeins 27 ára að aldri.
Þetta hófst allt á móti Ryan Giggs fyrir fullu húsi á Old Trafford, með augu milljóna sjónvarpsáhorfenda á sér. En þetta endaði allt fyrir framan örfáa áhorfendur á litlum velli í Essex á móti áhugamönnum.

 Rob Jones fæddist 5. nóvember 1971. Piltur studdi Liverpool frá barnæsku. Það var mjög eðlilegt þar sem afi hans Bill Jones lék með Liverpool. Bill þótti mjög fjölhæfur leikmaður og var leikmaður Liverpool frá 1946 til 1954. Hann lék 278 leiki og skoraði 17 sinnum. Rob hóf ferilinn með 4. deildarliðinu Crewe Alexandra og lék fyrst 16 ára í liðinu. Haustið 1991 var mikið meiðslafargan hjá Liverpool og Graeme Souness leitaði hægri bakvarðar. Hann spurðist fyrir hjá Dario Gradi stjóra Crewe og hann benti þeim á efnilegan hægri bakvörð í liðinu hjá sér. Souness fór ásamt Tom Saunders yfirnjósnara Liverpool til þess að fylgjast með kauða í leik í 4. deildinni en þeir urðu ekkert sérstaklega spenntir fyrir hægri bakverðinum. Vinstri bakvörðurinn vakti hins vegar mikla athygli hjá þeim fyrir hraða sinn og hve yfirvegaður hann var á boltanum. Souness tekur upp þráðinn. "Þegar Rob var færður yfir í stöðu hægri bakvarðar í seinni hálfleik og gaf frábæra sendingu inn í teiginn, þá litum við Ron hvorn á annan og vorum sama sinnis." Þeir höfðu fundið rétta manninn.

Sunnudaginn 6. október 1991 átti Liverpool að leika á Old Trafford gegn heimamönnum. Graeme spurði Dario hvort hann teldi Rob geta farið beint í byrjunarliðið. Dario taldi strákinn sem þá var nítján ára valda því hlutverki. Tveimur sólarhringum fyrir leik var gengið frá félagsskiptum Jones fyrir 300.000 pund. Jones byrjaði inná í toppslagnum á móti Manchester United aðeins 48 stundum eftir að hann kom til Anfield. Frábær frammistaða hans í leiknum varð til þess að Ryan Giggs lýsir honum sem erfiðasta andstæðingi sem hann hefur mætt. Önnur frábær frammistaða í frumraun sinni fylgdi fljótlega í kjölfarið fyrir enska landsliðið á móti Frökkum. Framtíðin var björt.

Rob átti erfitt með að átta sig á hversu stór stökk ferill hans hafði tekið á svo stuttum tíma: "Mig grunaði vart þegar ég var að undirbúa mig fyrir leiktíðina hjá Crewe í 4. deild að eftir jólin væri ég kominn í enska landsliðið. Stjórinn tilkynnti mér um val mitt í landsliðið eftir æfingu og ég fór heim enn í hálfgerðu losti. Síminn hætti ekki að hringja um kvöldið og ég þurfti að taka hann úr sambandi. Það var alltaf draumur minn síðan ég var smástrákur á the Kop að leika fyrir Liverpool. Stundum þarf ég að klípa mig í handlegginn og nú er búið að velja mig í landsliðið!" Souness átti erfitt með að halda aftur hrifningu sinni af hæfileikum drengsins: "Hann er algjör gimsteinn en ég vil helst ekki nota of mörg lýsingarorð um getu hans. Rob átti þátt í báðum mörkunum sem Englendingar skoruðu gegn Frökkum á Wembley en það eru hæfileikar hans sem varnarmanns sem hrífa mig helst. Það fer enginn framhjá honum. Ég held að hann muni halda jafnaðargeði sínu þrátt fyrir allt sem er að gerast í kringum hann. Hann er skynsamur piltur utan þess þegar hann spurði mig hvenær góðgerðarleikurinn hans yrði eftir að hann hafði lokið áttunda leik sínum hjá félaginu!"

Rob lýsti þeirri lífsreynslu að leika gegn Manchester United skömmu síðar í viðtali við Shoot!: "Þessi dagur var erfiðasti dagur lífs míns. Leikurinn var mjög hraður og ég var taugaóstyrkur. En ég vissi að þetta var gullið tækifæri til að láta ljós mitt skína fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar."

Rob var spurður árum síðar í leikskrá Liverpool um eftirminnilegasta leik sinn á ferlinum og hann var ekki í vafa: "Það er alltaf stór stund að leika sinn fyrsta leik með nýju félagi. Að leika á Old Trafford gegn Manchester United gerði leikinn enn markverðari. Leikir þessara liða eru alltaf stórleikir. Það kom á óvart að ég yrði í byrjunarliðinu. Ég varð að vera fljótur að átta mig á aðstæðum því gengið var frá kaupunum tveimur sólarhringum fyrir leik. Ég var ekki mjög taugaóstyrkur og það hjálpaði mér mikið. Ég vissi þó að áhangendur Liverpool myndu fylgjast vel með mér. Þetta var gullið tækifæri til að sýna þeim hvað ég gæti. Ég var ungur og líklega bjuggust margir við að ég mundi lenda í vandræðum þar sem mótherji minn í leiknum var Ryan Giggs. Hann var á vinstri kantinum og ég sem hægri bakvörður lék gegn honum. Mitt hlutverk var að halda honum í skefjum. Ryan var á þessum tíma orðinn allþekktur sem skeinuhættur útherji. Ég lét það ekki koma mér úr jafnvægi og var ákveðinn að gera mitt besta og sem betur fer gekk mér mjög vel í leiknum. Það var gaman eftir leikinn að heyra Ryan gefa mér góða dóma. Eftir á að hyggja lærði ég mikið í þessum leik. Ég hefði ekki viljað hafa hann öðruvísi. Ég minnist þess að leikurinn leið fljótt og allt gekk hratt fyrir sig. Það var því ekki mikið tóm til að njóta leiksins. Sem knattspyrnumaður vill maður ætíð reyna sig gegn þeim bestu. Mér fannst að leik loknum að ég hefði sýnt að ég ætti erindi meðal þeirra. Þetta var óskabyrjun á ferli mínum með Liverpool. Leikurinn endaði með markalausu jafntefli og ég var ánægður með að eiga þátt í því að vörnin stóð sig vel. Liðið lék vel og sigurinn hefði getað orðið okkar. Stig á Old Trafford telst þó alltaf gott. Ég hef leikið í mörgum stórleikjum með Liverpool eftir þennan en sem fyrsti leikur minn fyrir félagið stendur hann þó alltaf upp úr."

TIL BAKA