Bob Paisley
Aðdáendur Liverpool höfðu áhyggjur af næsta tímabili. Keegan fór til Hamburger SV á 500.000 pund. Kóngurinn farinn, hvað átti nú til bragðs að taka? Pressan var á Paisley svo skömmu eftir glæstasta sigur Liverpool í sögu félagsins. Paisley sýndi snilli sína er hann reiddi fram 440.000 pund, metupphæð fyrir leikmann á Bretlandseyjum, fyrir Kenny Dalglish frá Celtic. Alan Hansen hafði verið keyptur í janúar þetta ár og í janúarbyrjun 1978 var Graeme Souness keyptur frá Middlesbrough. Sigur í Evrópukeppni Meistaraliða annað árið í röð var framundan. Paisley var búinn að leggja grunninn að sigursælasta liði í Evrópu.
Fyrir leiktíðina 1982-83 sagði Bob að hann myndi hætta að henni lokinni sem hann og gerði. Eftirminnilegasta stundin á síðasta tímabili Paisley kom eftir að Liverpool hafði unnið sigur í deildarbikarnum með því að leggja Man Utd 2-1 á Wembley. Leikmenn Liverpool bjuggu sig undir að fara upp í heiðursstúkuna og taka við bikarnum. En þeir höfðu undirbúið óvæntan atburð. Graeme Souness fyrirliði sem hefði að öllu jöfnu tekið við bikarnum, tók af skarið. Hann lét Paisley fara fyrir liðinu og taka við bikarnum. Það lá við að Souness þurfti að ýta Bob á stað enda hafði þessi hógværi maður annað í huga en að trana sér fram. Þarna var Bob loksins í sviðsljósinu með bikar á lofti á Wembley og honum var vel fagnað.
Bob kvaddi aðdáendur Liverpool í leikskránni í síðasta heimaleik sínum: "Ég sagði í upphafi að ég vonaðist til að leikmennirnir myndu tala fyrir mig inni á vellinum. Ég held að ég geti með réttu sagt að þeir leikmenn sem hafa klæðst rauða búningnum á meðan ég hef verið framkvæmdastjóri hafi gert það. Oft hefur mér fundist að leikmennirnir og starfsliðið hér hafi gert mér starfið ótrúlega auðvelt, og ég verð líka að segja að aðdáendur Liverpool hafa verið mér gífurleg hjálp." Eftir að Bob lét af störfum sem framkvæmdastjóri tók hann sæti í stjórn Liverpool og gaf eftirmanni sínum Joe Fagan góð ráð þegar með þurfti. Fyrstu leiktíðina sem Kenny Dalglish stjórnaði liðinu var Bob gerður að sérlegum ráðgjafa hans. Í febrúar 1992 lét Paisley af störfum sem stjórnarmaður. Hann tók þessa ákvörðun vegna þess að taldi sig ekki geta sinn störfum sínum sem skyldi vegna veikinda. Bob hafði verið starfsmaður Liverpool í 53 ár í meira en helming af þeim árum sem Liverpool hafði starfað.
David Moores stjórnarformaður Liverpool kvaddi Bob með nokkrum orðum af þessu tilefni: "Í rúmlega 50 ár hefur hann þjónað Liverpool í næstum því öllum stöðum innan félagsins frá leikmanni til stjórnarmanns. Knattspyrnan hefur aldrei þekkt jafnoka hans sem sigursæls framkvæmdastjóra. En Bob var meira en bara methafi í söfnun titla. Hin ákveðna en samt góðlega framkoma hans ávann honum virðingu allra. Nafn hans verður ætíð samofið nafni Liverpool. Þekking hans á leikmönnum og knattspyrnunni var óviðjafnanleg. Þó voru það lítillæti og reisn sem voru hans stærstu mannkostir þegar hann leiddi liðið frá einum titli til annars."
Paisley var valinn framkvæmdastjóri ársins sex sinnum sem er met og það er óumdeilanleg staðreynd að Bob Paisley er einn af bestu framkvæmdastjórum sem uppi hafa verið. Hann var ekki eins áberandi persónuleiki og Shankly og fannst mjög vandræðalegt að fást við fjölmiðla en árangur hans sem framkvæmdastjóri Liverpool segir meira en mörg orð.
1974-75: 2. sæti
1975-76: Meistarar – UEFA Cup
1976-77: Meistarar – úrslit í FA Cup – Evrópukeppni Meistaraliða
1977-78: 2. sæti – úrslit deildarbikarsins – Evrópukeppni Meistaraliða
1978-79: Meistarar – undanúrslit FA Cup
1979-80: Meistarar – undanúrslit FA Cup
1980-81: 5. sæti – deildarbikarinn – Evrópukeppni Meistaraliða
1981-82: Meistarar – deildarbikarinn
1982-83: Meistarar – deildarbikarinn
Framkvæmdastjóri ársins:
1976 1977 1979
1980 1982 1983
Ian Rush sem Paisley keypti frá Chester minnist stjóra síns: "Ég hafði verið settur út úr liðinu snemma ferils míns hjá Liverpool og ég fór til Paisley til að ræða málin. Paisley sagði að ég skoraði ekki nógu mikið af mörkum, ég væri ekki nógu eigingjarn. Ég varð eitthvað fúll og heimtaði að vera settur á sölulista. Paisley gekkst við því og ég fór að spila með varaliðinu. Ég reyndi að skora eins og ég gat með varaliðinu til þess að sýna mig fyrir væntanlegum kaupendum. Ég skoraði 6 mörk á tiltölulega skömmum tíma og Paisley valdi mig aftur í aðalliðið. Hann reyndist svo aldrei hafa sett mig á sölulista. Paisley hefði ekki verið hrifinn af allri þessari athygli sem honum er veitt núna en hann á hana svo sannarlega skilið. Hann var ótrúlegur persónuleiki."
Hlið til heiðurs Bob Paisley "Paisley Gateway" var reist á Anfield árið 1999. Allir kannast við hið fræga "Shankly Gates" og vissulega var tími til kominn og virðingar vert að heiðra Bob Paisley á sama hátt. Hliðið er þeim megin sem inngangurinn að "Kop" er og gegnt Shankly-styttunni og Liverpoolbúðinni. Paisleyhliðið er skreytt merki Liverpool, merki fæðingarstaðar Paisley og þeim þrem Evrópumeistaratitlum Liverpool sem þeir unnu undir stjórn hans. Varastjórnarformaður Liverpool Peter Robinson sagði við þetta tækifæri að "þetta sé verðugt minnismerki um afrek Paisley hjá Liverpool. Hann er sigursælasti framkvæmdastjóri í sögu Liverpool og ekki má gleyma að hann vann einnig titla áður sem aðstoðarmaður Bill Shankly."
Gefum Paisley lokaorðið: "Gleymið ekki að ég hef einnig þurft að ganga í gegnum erfiðleika hjá þessu félagi, eitt árið lentum við í öðru sæti."