Tommy Smith

Í mars 1970 var Tommy skipaður fyrirliði liðsins í stað Ron Yeats sem var að enda ferilinn og bar fyrirliðabandið um þriggja ára skeið. Leiktíðina 1972-73 leiddi Tommy Liverpool til Englandsmeistaratitils og sigurs í Evrópukeppni félagsliða. Hann varð þar með fyrsti fyrirliði Liverpool til að taka við tveimur bikurum á sömu sparktíðinni. Í nóvember 1973 setti Bill Shankly Tommy út úr liðinu. Tommy tók því ekki þegjandi og hljóðalaust frekar en öðru en mótmæli hans urðu til þess að hann missti fyrirliðastöðuna til Emlyn Hughes. Um tíma var talið að hann færi frá félaginu en Tommy vildi að sjálfsögðu hvergi vera nema á Anfield Road og vann sér aftur sæti í liðinu. Árið 1976 varð Liverpool Englandsmeistari og vann Evrópukeppni félagsliða. Eftir það tímabil sagði Tommy að hann ætlaði að leika eitt tímabil í viðbót og hætta að því loknu. Framan af leiktíðinni 1976-77 lék Tommy lítið en í mars 1977 meiddist Phil Thompson og lék ekki meira á leiktíðinni. Tommy fékk miðvarðarstöðuna og varð enskur meistari um vorið.


Eftir tap í bikarúrslitunum gegn Manchester United hélt Liverpool til Rómar og lék til úrslita í Evrópukeppni Meistaraliða við Borussia Mönchengladbach þann 25. maí.  Tommy ætlaði að enda ferilinn með sínum 600. leik en þessi leikur var án efa hápunkturinn á ferli hans. Terry McDermott kom Liverpool yfir en Daninn Allan Simonsen jafnaði. Staðan var 1-1 þegar  Liverpool fékk hornspyrnu á 64. mínútu og Tommy Smith skallaði boltann með þvílíkum krafti og glæsibrag í markið og þulurinn á breska ríkissjónvarpinu gat ekki leynt undrun sinni: "It's Tommy Smith!!" og kappanum leiddist greinilega ekki þetta augnablik. Phil Neal gulltryggði sigurinn 3:1 úr víti undir lok leiksins en markið hans Tommy skipti sköpum. Fræg mynd var tekin af blaðaljósmyndara Liverpool Echo af faðmlögum Tommy og Ronnie Moran. Það lítur út fyrir að Tommy sé brosandi útaf eyrum en raunin er önnur: "Ég er með lítinn falskan góm sem ég hef jafnan upp í mér en ég lét Ronnie alltaf geyma hann fyrir mig á meðan leik stóð. Ronnie var alltaf fyrsti maðurinn sem ég leitaði að eftir hvern leik og það sem ég er raunverulega að segja við hann á þessari mynd er: "Láttu mig niður greyið mitt og komdu með helvítis tennurnar mínar."


 Tommy hætti við að hætta vorið 1977 og ákvað að leika eina sparktíð í viðbót. Hann lék vel og undir vor var hann búinn að vinna sér fast sæti í liðinu. Allt stefndi í að hann léki í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða gegn Brugge á Wembley. En í lok apríl var Tommy að vinna í garðinum heima hjá sér og missti exi á fótinn á sér og lék ekki oftar með Liverpool. Þrátt fyrir að Tommy hefði meiðst vildi Liverpool halda honum lengur en hann ákvað að enda ferilinn í Wales, ásamt Ian Callaghan, með Swansea hjá sínum gamla félaga John Toshack. Eftir að hann lagði skóna á hilluna kom hann aftur til Anfield og þjálfaði fyrir félagið. Hann fær þau ummæli að fáir eru sannari og meiri Liverpoolmenn en hann. Fæddur í nágrenni Anfield, vallarstarfsmaður, leikmaður, fyrirliði, þjálfari og einn leikjahæsti og virtasti leikmaður sem félagið hefur alið. Árið 1998 var hann einn af þeim 100 goðsögnum (Legends of Football) sem fengu inngöngu í Heiðurshöll ensku deildarinnar og segir það meira en mörg orð.

Bob Paisley minnist hörkutólsins: "Tommy þoldi ekki að tapa og var reiðbúinn að vaða í gegnum eld og brennistein til þess að forðast það. Hann var alls óhræddur og það hvatti samherja hans til dáða. Það var eins og hafa stóra bróður hjá sér sem myndi redda málunum ef þú lentir í vandræðum. Þegar þeir sáu Tommy hlaupa aftur inná völlinn þrátt fyrir að nokkur spor höfðu verið saumuð í hausinn á honum gat blásið hugrekki í janfvel huglausustu menn svo framarlega sem hann var í þínu liði".

TIL BAKA