HM og Liverpool

Spánn 1982

Árið 1982 var úrslitakeppni HM á Spáni. Liverpool vann meistaratitilinn og deildarbikarinn eftir glæsilegan endasprett á tímabilinu. Englendingar tryggðu sér sæti naumlega í lokakeppninni í fyrsta skipti í tuttugu ár. Árið 1966 voru þeir gestgjafar og 1970 fengu þeir keppnisrétt sem meistarar. Phil Neal, Phil Thompson og Terry McDermott voru valdir í liðið. Skotar komust í úrslit og þar var tríóið fræga Kenny Dalglish, Graeme Souness og Alan Hansen. Norður Írar komust í úrslit en þar átti Liverpool ekki fulltrúa. Reyndar hefur Liverpool aðeins átt þrjá landsliðsmenn frá Norður Írlandi og léku þeir allir á fyrri hluta aldarinnar. Nú á seinni árum komst Jim Magilton næst því. Hann lék með Norður Írum stuttu eftir að hann fór frá Liverpool til Oxford. Hann lék lengi með varaliði Liverpool.

Englendingar undirbjuggu sig meðal annars með því að leika gegn Íslendingum. HM hópnum var skipt í tvennt og hinn hluti hópsins fór til Finnlands og lék þar. Ísland gerði 1:1 jafntefli við enska á Laugardalsvellinum. Arnór Guðjohnsen kom Íslendingum yfir en Paul Goddard jafnaði í sínum eina landsleik. Phil Neal var fyrirliði og Terry McDermott lék sinn síðasta landsleik. Hann lék ekkert á Spáni þótt hann væri í hópnum.

Úrslitakeppnin sjálf var frábær. Munar þar sérstaklega um hið stórkostlega lið Brasilíu sem þó datt út. Eflaust var það besta liðið í sögu keppninnar sem ekki tókst að vinna. Skotar lentu í riðli með Brasilíu, Nýja Sjálandi og Rússum.

Liverpool þrenningin var í byrjunarliði Skota í fyrsta leik gegn Nýja Sjálandi. Skotar unnu 5:2 og Kenny Dalglish skoraði fallegt mark. John Wark sem síðar lék með Liverpool skoraði tvisvar. Kenny var þarna að leika í sinni þriðju úrslitakeppni sem var þá met hjá breskum leikmanni. En mörkin tvö sem Skotar fengu klaufalega á sig urðu þeim dýrkeypt. Í næsta leik gegn Brasilíu var Kenny settur á bekkinn og þótti það furðuleg ráðstöfun. Hann kom inná þegar leikurinn var tapaður. Skotar komust yfir en þá settu Brassar undir stjórn Zico sýningu á svið og unnu 4:1. Mörk Sjálendinga þýddu nú að Skotar urðu að vinna Rússa í síðasta leik til að komast áfram. Kenny var aftur á bekknum og kom ekki við sögu en Graeme og Alan léku frá byrjun eins og gegn Brasilíu. Skotar komust yfir en lentu 1:2 undir þrátt fyrir að ráða öllu á vellinum. Graeme Souness jafnaði 2:2 seint í leiknum með bylmingsskoti í stöng og inn. En það dugði ekki. Enn einu sinni voru Skotar úr á markahlutfalli. Liðið var sem fyrr mjög gott en það dugði ekki.

Englendingar áttu góða keppni. Í fyrsta leik unnu þeir Frakka 3:1. Bryan Robson setti met þegar hann skoraði fyrsta markið í leiknum eftir 27 sekúndur. Phil Thompson var í byrjunarliðinu og lék alla leikina. Phil Neal kom inn sem varamaður gegn Frökkum og tók eitt innkast. Einn allra stysti landsleikur sögunnar hjá honum. Næst unnu enskir Tékka 2:0 og riðlakeppnin endaði á 1:0 sigri á Kuwait. Phil Neal var í byrjunarliðinu í þeim leik en lék þó ekki meira í keppninni.

England léku gegn Vestur-Þýskalandi og Spáni í milliriðli. Fyrst varð markalaust jafntefli gegn Þjóðverjum í jöfnum leik. Þjóðverjar unnu Spán 2:1 og því urðu Englendingar að leggja heimamenn í síðasta leik til að komast í undanúrslit. Englendingar sóttu án afláts en tókst ekki að skora. Kevin Keegan kom inná í sínum síðasta landsleik ásamt Trevor Brooking frá West Ham en ekkert dugði. Kevin komst þarna loksins í úrslit HM en lék aðeins þennan leik vegna meiðsla. Enskir héldu heim vonsviknir eftir að hafa aðeins fengið á sig eitt mark. Phil Thompson átti frábæra keppni sem miðvörður með Terry Butcher sér við hlið og var Phil einn besti maður Englands í HM. Ítalir hömpuðu titlinum eftir 3:1 sigur gegn Vestur Þjóðverjum. Flestir höfðu þó óskað Brasilíu sigri.

TIL BAKA