Ray Clemence

Í ágúst 1981 gekk hann öllum að óvörum til liðs við Tottenham Hotspur fyrir 300.000 sterlingspund. Ray sagðist vilja breyta til en samt skildu fáir hvers vegna hann vildi yfirgefa Liverpool. Ray segist iðrast einskis og hafa yfirgefið félagið á réttum tíma. Áhangendur Liverpool hafa ætíð verið þekktir fyrir að hafa tekið vel á móti fyrrum leikmönnum félagsins en fáir hafa fengið aðrar eins móttökur þegar þeir hafa snúið aftur eins og Ray. Áhangendur Liverpool tóku honum sem hetju þegar hann lék sinn fyrsta leik á Anfield Road í maí 1982 eftir að hann yfirgaf Liverpool. Allt trylltist og hver einasti maður klappaði fyrir hetjunni þegar Ray hljóp inn á völlinn og tók sér stöðu fyrir framan The Kop í upphafi síðari hálfleiks. Þó var Tottenham með 0:1 forystu og titillinn var í húfi. En þeir Mark Lawrenson, Kenny Dalglish og Ronnie Whelan skoruðu hjá Ray og Liverpool tryggði sér Englandsmeistaratitilinn. Ray var langt frá því búinn að vera og lék með Tottenham til þar til hann var fertugur og setti nýtt met er hann lék vel yfir 1000 leiki í efstu deild. Hann bætti einum titli í safnið þegar Tottenham lagði Q.P.R. í úrslitum F.A. bikarsins 1982.

Ray var stór og þrátt fyrir að hann væri grannvaxinn var hann sterkur. Hann var eldsnöggur og mjög liðugur. Ray hafði gott grip og stjórnaði vörninni með ákveðnum skipunum til varnarmanna sinna. Hann hafði alltaf frábæra vörn fyrir framan sig en einbeiting hans var ef til vill hans helsti styrkur. Liverpool yfirspilaði andstæðinga sína oft og vörnin gaf fá færi á sér en Ray var alltaf einbeittur og þó hann þyrfti ekki að verja nema einu sinni í leik var hann ætíð viðbúinn. Hann hélt marki sínu ótrúlega oft hreinu. Hann var í raun meira en markvörður því hann var líka hluti af vörninni sem aftasti varnarmaður. Fyrirrennari hans Tommy Lawrence var fyrstur markvarða til að grípa inn í og stöðva sóknir andstæðinga eins og varnarmaður og Ray fullkomnaði listina. Ray hélt sér ætíð í frábærri þjálfun og meiddist því sjaldan, sem dæmi lék hann 337 leiki í röð frá september 1972 og fram í mars 1978. Frá því hann vann sér fast sæti í marki Liverpool missti hann úr innan við tíu leiki í deildinni. Tommy Lawrence lék einn leik, Frank Lane einn og Steve Ogrizovic fjóra á meðan Ray var við völd í markinu á Anfield Road.

Ray lék 61 landsleik fyrir Englendinga á árunum 1972 til 1983. Áhangendur Liverpool töldu að hann hefði átt að leika mun fleiri. Það eina sem kom í veg fyrir að hann léki langt yfir 100 landsleiki var sú staðreynd að á sama tíma og Ray var upp á sitt besta var Peter Shilton það líka. Þeir Ray og Peter voru keppinautar um markmannsstöðuna hjá landsliðinu um árabil en jafnframt bestu vinir og voru herbergisfélagar hjá landsliðinu. Landsliðsþjálfarar Englendinga gátu hver af öðrum ekki ákveðið hvor væri betri og oft léku þeir landsleikina til skiptis. Það var ekki fyrr en að Bobby Robson tók við landsliðinu 1982 að hann tók af skarið. Peter var gerður að aðalmarkmanni landsliðsins og Ray lék ekki nema í forföllum Peter eftir það. Peter lék í heild 125 landsleiki og setti heimsmet í landsleikjafjölda. En Ray var þrátt fyrir það talinn á tímabili besti markvörður heims en Peter var líka frábær. Ian St John, fyrrum samherji Ray, var ekki í vafa um hvor væri betri: "Að mínu áliti var Ray besti markvörður í Englandi á sínum tíma og ef ég hefði verið enski landsliðsþjálfarinn þá hefði ég tekið hann umfram alla aðra jafnvel Peter Shilton og sett hann í markið".

Bob Paisley er kannski manna dómbærastur á Ray Clemence: "Náttúrulegir hæfileikar héldu honum svo lengi á toppnum. Hann hefur þá náðargjöf að láta allt líta svo einfalt út, hreinræktaðir hæfileikar".

TIL BAKA