Billy Liddell

William Beveridge Liddell fæddist í Townhill við Dunfermline í Skotlandi 10. janúar 1922. Faðir hans var námuverkamaður og fjölskyldan í litlum efnum. Billy lék fyrst með staðarliðunum Kingseat Juvenlies og Lochgelly Violet og vakti mikla athygli. Sagan segir að Matt Busby síðar framkvæmdastjóri Manchester United, þá leikmaður Liverpool, hafi bent forráðamönnum Liverpool á piltinn. Billy kom fyrst til Liverpool í júlí 1938 og tæpu ári síðar skrifaði hann undir atvinnumannasamning. Foreldrar hans gerðu það að skilyrði við samningsgerðina að Billy fengi að halda áfram námi sínu sem endurskoðandi. Forráðamenn Liverpool féllust á það: "Áður en ég kom til Liverpool sem unglingur þá brýndu foreldrar mínir því fyrir mér að ég þyrfti að hafa eitthvað starf í bakhöndinni ef ég myndi ekki ná frama í knattspyrnunni. Þannig að áður en ég lagði í hann þá var búið að ráða mig sem endurskoðanda hjá Simon Jude & Webb í Liverpoolborg. Þegar ég komst í aðalliðið þá gekk ég úr skugga um að ég fengi að halda starfi mínu. Ég æfði að kappi fyrir tímabilið en síðan aðeins tvisvar í viku er tímabilið fór á fullt. Á meðan hinir leikmennirnir æfðu þá var ég að vinna." Billy var eini leikmaður Liverpool sem taldi sig hafa tíma til þess að sinna öðru starfi utan fótboltans sem var jú skiljanlega afar sjaldgæft.

En Skotinn var vart búinn að átta sig á aðstæðum þegar seinni heimsstyrjöldin skall á og hann lék því ekki sinn fyrsta opinbera leik fyrr en sex árum seinna. Billy reyndi að ganga til liðs við Heimavarnarlið Breta eins og aðrir leikmenn Liverpool en var neitað vegna þess að hann var aðeins 17 ára gamall. Hann skráði sig þá í flugherinn og fór í æfingabúðir í Cambridge og síðan til Manitobafylkis í Kanada. Í flughernum var Billy siglingafræðingur. Eins og allir atvinnumenn í knattspyrnumenn þá reyndi hann að leika eins marga leiki og hann gat á meðan stríðinu stóð. Hann lék þó nokkuð marga leiki með Liverpool á styrjaldarárunum og eins lék hann sem gestaleikmaður hjá Chelsea, Linfield, Cambridge Town og liði heimaborgar sinnar Dunfermline. Fyrsta leik sinn með Liverpool lék hann gegn Crewe á nýársdag 1940. Liverpool vann 7:1 og Billy skoraði eitt mark.

Billy lék sinn fyrsta landsleik fyrir Skota gegn Englendingum árið 1942, fjórum árum áður en hann þreytti opinbera frumraun sína fyrir aðallið Liverpool!! Samherjar Liddell í 5-4 sigri Skota voru m.a. Bill Shankly og Matt Busby. Hann lék oftar með skoska landsliðinu á meðan á hildarleiknum stóð en þeir leikir teljast ekki í opinberum leikjaskrám. Billy lék 28 landsleiki fyrir Skota og skoraði sex mörk. Líklega hefði hann leikið enn fleiri landsleiki ef hann hefði leikið í Skotlandi því leikmenn sem léku þar gengu oft fyrir í landsliðið á þessum árum. Hann lék tvisvar með úrvalsliði Stóra Bretlands gegn úrvalsliði Evrópu. Fyrra skiptið var 1947 en það síðara 1955 en þá var Liverpool í annari deild. Sýnir val hans í þann leik hversu góður hann var. Aðeins snillingurinn Stanley Matthews lék báða þessa leiki auk hans.

Billy lék sinn fyrsta "opinbera" leik fyrir Liverpool 5. janúar 1946 í bikarnum á Anfield Road gegn Chester. Liverpool vann 2:0 og Billy skoraði 1 mark. Leiktíðin 1946/47 var eftirminnileg. Billy var enn skráður í flugherinn þegar leiktíðin hófst og missti af undirbúningstímabilinu. Hann kom til leiks í þriðja deildarleik Liverpool og skoraði tvisvar þegar Chelsea var tekið í gegn 7:4. Annað mark hans kom beint úr hornspyrnu. Billy lék stórt hlutverk á vinstri kantinum á leiktíðinni, lék 35 leiki og skoraði 7 mörk. Liverpool gekk allt í haginn og varð enskur meistari í fimmta sinn. Liverpool átti sterku liði á að skipa næstu ár og 1950 komst liðið í annað skipti í úrslit F.A. bikarins. Í undanúrslitunum lék Liverpool gegn nágrönnunum í Everton. Bob Paisley og Billy skoruðu mörk Liverpool í 2:0 sigri og tryggðu Liverpool sína fyrstu ferð á Wembleyleikvanginn. En fyrsti leikur Liverpool á Wembley fór ekki vel og Arsenal vann 2:0. Varnarmenn Arsenal þóttu leika af mikilli hörku gegn Billy í leiknum og þótti mörgum nóg um. En Billy kvartaði ekki enda ekki líkt honum.

Á næstu leiktíð fékk Billy óvenjulegt atvinnutilboð frá kólumbíska félaginu Bogota. En Billy sýndi tryggð sína við Liverpool og var um kyrrt. Á næstu árum var Billy lang, lang, langbesti maður liðsins en því miður hallaði undan fæti hjá Liverpool og vorið 1954 féll liðið í aðra deild. Bill lék framan af ferlinum á vinstri kantinum og reyndar gat hann líka leikið á þeim hægri. Á 2. deildar árum Liverpool lék hann meira í sókninni og raðaði inn mörkum. Billy varð átta sinnum markakóngur Liverpool á árunum 1950 til 1958. Flest mörk á einni leiktíð skoraði hann 1954-55 en þá skoraði hann 30 mörk í 40 leikjum. Annarardeildar árin reyndust Liverpool erfið. Liðið var oft við það að komast upp en lokatakmarkið reyndist torsótt. En á þessum erfiðu árum leiddi Billy liðið. Hann var gerður að fyrirliða leiktíðina 1955/56. 

9. nóvember árið 1957 sló Bill leikjamet Elisha Scott fyrir Liverpool þegar hann lék sinn 430. leik fyrir félagið. Af því tilefni birtist þessi umsögn í staðarblaðinu Echo skrifuð af íþróttafréttastjóra blaðsins: "Það eru forréttindi að fá að hylla einn besta knattspyrnumann sögunnar.  Hann er þekktur og virtur um allt Stóra Bretland. Í gegnum árin hef ég fylgst með og dáð vaxandi snilld hans á knattspynuvellinum. Ég virði líka takmarkalausa tryggð hans við eina félagið sem hann hefur leikið með sem atvinnumaður. Ekki síst hefur hann áunnið sér virðingu með fyrirmyndarhegðun sinni innan vallar sem utan. Hann er reglumaður í hvívetna og sannkallað valmenni. Hann er trúmaður án þess að bera trú sína á torg og hefur gert sér far um að vera sjálfum sér, félaginu sínu og starfi sínu til sóma."

Leiktíðina eftir var Billy í fyrsta skipti ekki valinn í lið Liverpool eftir að hann komst fyrst í það. Billy lék sinn síðasta leik sinn með Liverpool í ágúst 1960. Liddell keypti sér hús fyrir peninginn sem hann þénaði á ágóðaleiknum sínum sem 38,789 áhorfendur sáu á votu septemberkvöldi árið 1960. Liverpool vann andstæðinga sína 4-2 en lið þeirra var skipað alþjóðastjörnum. Liddell lék aldrei þessu vant gegn Liverpool og skoraði eitt mark í leiknum. Billy var orðinn 39 ára gamall og tuttugu og tveggja ára veru hjá félaginu var lokið rétt þegar bylting Bill Shankly var að skila tilætluðum árangri. Þegar upp var staðið hafði Billy leikið 537 leiki og skorað 229 mörk fyrir Liverpool. Þær tölur hefðu orðið mun hærri ef síðari heimsstyrjöldin hefði ekki orðið. Billy var jú að verða 24 ára þegar hann lék sinn fyrsta leik með Liverpool.

TIL BAKA