Graeme Souness
Graeme fæddist í Edinborg 6. maí 1953. Hann lék ekkert í Skotlandi og árið 1968 gekk Souness til liðs við Tottenham og vakti mikla athygli tveim árum síðar er hann lék með Tottenham í úrslitum bikarkeppni unglingaliða. Úrslitaleikirnir voru fjórir; hann skoraði í fyrsta og fjórða en var rekinn útaf í þriðja leiknum og fékk enga gullmedalíu fyrir vikið. Þegar Souness var 17 ára gamall knúði hann dyra á skrifstofu Bill Nicholson framkvæmdastjóra Tottenham og sagðist vera orðinn nógu góður fyrir aðalliðið. Nicholson var ekki á sama máli og Souness stormaði út, tók saman föggur sínar og fór heim til Skotlands! Eini leikur sem Graeme lék með aðalliði Tottenham var Evrópuleikur gegn Keflvíkingum á Íslandi. Tottenham losaði sig við hann til Middlesbrough árið 1973 fyrir 30.000 pund. Þegar Jack Charlton tók við liðinu skömmu eftir Souness gekk til félagsins fékk hann að heyra frá þjálfurum félagsins að Souness líkaði ljúfa lífið. Charlton settist niður með Souness og jú honum líkaði að skemmta sér og dufla við kvenmenn en hann hefði vit á því að gera það á viðeigandi tíma sem myndi ekki trufla framgang hans hjá félaginu. Charlton minnti hann á að annaðhvort gæti hann þróast í mjög góðan knattspyrnumann og þénað ágætis pening eða dottið út úr boltanum eftir eitt ár. Souness tók vel og vandlega eftir orðum hans.. í bili.
Í ársbyrjun 1978 fór hann útaf sporinu og lenti saman við John Neal þáverandi framkvæmdastjóra vegna þess að hann hafði brotið agareglur félagsins. Souness var orðinn þreyttur á þessu ástandi og hótaði að hætta að leika knattspyrnu. Hann snéri loks aftur til æfinga og þá fékk hann símtal þar sem hann var beðinn um að mæta á hótel í Leeds og ekki gefin nein vísbending um hvaða klúbbur hefði áhuga en Souness vonaði innst inni að það væru Evrópumeistararar Liverpool. Souness var ekki seinn á sér að skrifa undir og var keyrður í limósínu aftur heim á leið og sagt að gera sig reiðubúinn fyrir næsta leik Liverpool gegn WBA. Kaupverðið var 352.000 pund sem var metfé í sölu milli enskra félaga og sáu aðdáendur Boro á eftir kappanum en fyrirliði Boro taldi þetta vera bestu lausnina: "Graeme er án efa frábær leikmaður en öll fjölmiðlathyglin í kjölfar óánægju Souness hefur haft slæm árif á hina leikmennina."
Fyrsta mark Souness fyrir Liverpool var ekki af verra taginu. Stórglæsilegt skot gegn Man Utd var valið mark ársins. Að loknu fyrsta tímabili sínu með Liverpool var Souness himinlifandi. Hann hafði verið inni og úti í byrjunarliðinu en hápunktinum var náð þegar hann lagði upp sigurmark Kenny Dalglish í úrslitaleik Evrópukeppni Meistaraliða gegn FC Bruges á Wembley. Souness var auðvitað í sjöunda himni: "Ég er algjörlega í öðrum heimi. Allt sem gæti hafa gerst hefur gerst, verðlaun fyrir mark ársins, Wembley [Evrópubikarinn] og Argentína [Skotland tryggði sér þátttöku á HM í Argentínu]. Liverpool er stórkostlegur og vinalegur klúbbur. Þetta hlýtur að vera besta lið í Bretlandi. Atvinnumennskan er á háu stigi og þú verður alltaf að vera á tánum með svo marga toppklassaleikmenn í sama liði. Þegar HM er lokið ætla ég að leggjast á strönd í Mallorca og hugleiða hvort allt þetta hafi virkilega gerst."