Liverpool - Alaves, maí 2001
Evert kom á volvóinum sínum og náði í mig og síðan Matthew, sem var greinilega búinn að vaka hálfa nóttina til að missa ekki af okkur. Matthew hefur átt ársmiða í The Kop í sex ár en góð laun í boði Decode drógu hann hingað á klakann. Manni dettur djöfullinn ósjálfrátt í hug þess er freistaði náungans sem naut lífsins í aldingarðinum Eden en hvað um það..
Við vorum mættir tímanlega til að taka á móti samferðarlöngum okkar og merktum okkur vel og vandlega til að enginn færi á mis við okkur. Margir glottu við tönn er þeir sáu okkur og ekki veit ég hvort frelsaðir menn (Púllarar) eða heiðingjar áttu þar í hlut. Við vorum komnir kortér yfir sjö út í vél og brottför eftir fimmtán mínútur. Ljóst var að við vorum tæpir á tíma því að leikurinn átti að hefjast klukkan 20.45 að þýskum tíma þetta sama kvöld og við gerðum ráð fyrir að verða komnir í stemmninguna í Dortmund um sexleytið. Við biðum eftir að rellan færi á loft og biðum svo aðeins lengur. Þegar klukkan var orðin tíu mínútur í átta var okkur tilkynnt að vegna mikillar flugumferðar í Evrópu (ég sem hélt að Hringbrautin væri slæm) var gert ráð fyrir um 25 mínútna seinkun til viðbótar. Nú svitnaði maður! Gömul skólasystir mín sem var að þjóna um borð, hélt okkur upp á snakki og kætti okkur með sögu af 4 Unitedmönnum sem héldu af stað miðalausir til Manchester með loforð upp á vasann frá einhverjum braskara að þeirra biði miði á besta stað á Old Trafford. Þegar komið var á áfangastað reyndist sá náungi hvergi sjáanlegur en vegna ótrúlegrar tilviljunar þá rákust þeir á kappann síðar um daginn og þá hafði hann í fórum sér aðeins tvo miða og strákarnir ákváðu því að sleppa þessu alfarið. Þeir fygldust með leiknum svo á pöbb í Manchester með því að hringja í félaga sína sem voru að horfa á leikinn beint á Sýn á Íslandi... Maður var ennþá í krampaflogum enda ófarir utdmanna alltaf ástæða til kæti þegar okkur var sagt að vélin þyrfti að fara að flugstöðinni vegna þess að útlit væri fyrir að frekari 45 mínútna seinkun væri í vændum. Vélin myndi aldrei fara á loft fyrr en níuleytið. Á þessu augnabliki sá ég úrslitaleikinn renna úr greipum mér og langaði mann helst bara að hætta við þetta allt saman.
Við vorum nýbúnir að parkera fyrir framan flugstöðina og allir á leið inn í stöð, þegar okkur var vísað aftur til sætis. Grænt ljós hafði fengist á flugtak og maður þurfti ekki að láta segja sér það tvisvar að spenna beltin. Þegar vélin þaut út á flugbrautina með tilheyrandi drunum eins og villt fílahjörð væri á ferð þá setti maður loks sig í spor varnarmanns sem sæi Emile Heskey koma æðandi á móti sér.
Matthew stytti okkur stundir í vélinni með gamansögum úr Liverpoolborg og sagði m.a. frá kokhraustum náunga sem lagði bílnum í nágrenni Anfield er hann var á leiðinni á völlinn. Eins og lög virðast gera ráð fyrir og maður hefur séð sjálfur þá var þar á vappi einhver strákahópur og buðust þeir til að gæta bílsins á meðan leik stæði. Karlinn benti inn í bílinn á Rottweilerhund sem þar lá illvígur og hann skyldi sjá til þess að allir þjófar fengu makleg málagjöld. "Nú?", sögðu strákarnir, "kann hann að slökkva eld? ".
Þremur og hálfum tíma síðar vorum við komnir til Frankfurt. Hótelpláss var allt upppantað í Dortmund þannið að bækistöð okkar var í nágrannaborginni Bochum. Við hittum Púllara á flugvellinum sem voru að heimsækja vin sinn í Amsterdam og fararstjórinn okkar bauð þeim tvo afgangsmiða á völlinn sem hann hafði á sér. Þeir sögðust hugsa málið en ruku síðan upp í lest til Hollands. Meira um þá síðar… Þriggja tíma rútuferð til Dortmund með viðkomu í Bochum var framundan hjá okkur. Maður vonaðist eftir því að annar hvor Schumacher-bræðranna væri við stýrið en bílstjórinn reyndist þó allavegna fyrirtaks náungi og lofaði að koma okkur sem fyrst á áfangastað. Við myndum vera komnir rúmlega sjö eftir að hafa seinkað um klukkutíma. Það tókst loksins að koma öllum hópnum í rútuna og taldist okkur til að við værum 23 talsins. Ég skellti Liverpoolspólum í tækið og glæsileg mörk úr sögu Liverpool og upprifjun á síðasta tímabili fengu að fljóta yfir mannskapinn sem kunnu þetta að meta og enn betur þegar bílstjórinn hafði opnað barinn í rútunni. Barinn reyndist vel byrgur og greinilega hafa hýst Íslendinga áður. Evert fararstjóri sýndi svo snilldartilþrif í gemsann er hann fékk því framgegnt við hótelmóttökuna í Bochum að nóg væri að tékka okkur inn um nóttina eftir að við kæmum af leiknum. Þetta sparaði okkur um klukkutíma og var mikill fögnuður hafður í frammi, allavegna í mínu sæti. Við myndum vera komnir til Dortmund um sexleytið eftir sem áður.
Veðurútlitið var hins vegar ekki það vænsta og skullu á þrumur og eldingar. Maður bað þess heitt að veðrið væri ekki svona í Dortmund og reyndist það sem betur fer rétt ágiskun. Rútunni var lagt innan um allan þann ógnarfjölda af rútum sem staðsettar voru þarna eftir að hafa flutt tugþúsundir Breta í skjóli nætur til Dortmund. Bretarnir höfðu langflestir setið að sumbli í miðbænum síðan átta um morguninn. Maður hafði ekki fyrr stigið út úr rútunni en sölumenn þyrptust að manni eins og hrægammar og buðu manni trefla og leikskrár til sölu. Leikskráin var nú ekki beysin að sjá og greinilegt að einhver hafði ljósritað og heftað sjálfur einhvern ófögnuð fyrir sem minnstan tilkostnað til þess að græða sem mest á þeim sem keyptu þessar falsanir. Allt var til minningar og ég ákvað að skella mér á eina. Treflarnir voru seldir á á 20 mörk stykkið eða um 900 kall. Ég og Matthew ákváðum að labba áleiðis til að finna betri kjör og um mínútu síðar keyptum við tvo trefla á alls 30 mörk. Við settum stefnuna á gamla markaðstorgið í miðbænum enda hafði maður frétt að þar væri helst stemmninguna að finna. Við leituðum okkur að leigubíl og þutu þeir framhjá hver á fætur öðrum troðfullir af brjáluðum Púllurum sem öskruðu heróp í áttina að okkur, enda við vel merktir og við öskruðum tilbaka. Loksins stöðvaði hugrakkur bílstjóri fyrir okkur og ferjaði okkur í gleðina. Hann andvarpaði er við spurðum hann út í stemmninguna í bænum og hann sagði að hún hafði staðið nú yfir í einn og hálfan sólarhring og nóg væri að gera. Eftir um tíu mínútna akstur blasti við okkur mannhafið þar sem Spánverjar spangóluðu í kapp við sveitta Púllara. Við óðum inní þvöguna og gerðum okkur heimakomna. Maður dró að sjálfsögðu upp gemsann til að leyfa þeim sem heima sátu að njóta stemmningunnar sem mældist misvel fyrir og góðvinur minn bað mig vinsamlegast um að kvelja sig ekki lengur. Ég reyndi að finna félaga mína úr Liverpoolborg sem væru staddir þarna en svo illa vildi til að gemsi þess sem ég ætlaði að vera í sambandi við, klikkaði á ögurstundu og var því ekki hægt að ná í hann. Maður reyndi því bara að stofna til nýrra vinasambanda. Spánverjarnir höfðu sig mikið í frammi og virtust þeir mun fjölmennari en raun bar vitni þegar á völlinn var komið. Þeir voru mun háværari en Púllararnir enda stærsti dagur í sögu þessa litla félags og allir ákveðnir í að njóta dagsins eins og mögulegt var. Maður heilsaði upp á þá með bros á vör og þeir endurguldu það og var virkilega gaman að umgangast þá. Þarna var ekki rígur ríkjandi og óvild.