Liverpool - Alaves, maí 2001

Nafn Houllier var allsráðandi í herópum Púllara. "Hou let The Reds out? Hou-Houllier" sýnilega langvinsælast. Kráareigendur létu ekki sitt eftir liggja og spiluðu "Who let the Dogs out?" og allir tóku þéttingsfast undir. Einn hópur sem hafði greinilega dvalið þarna lengi, söng við raust: "Ég er búinn að syngja svo lengi að ég er búinn að týna röddinni." Þegar um rúmur klukkutími var í leik fóru menn að týnast í áttina að vellinum og við ákváðum að slást í för fótgangandi að Westfalenleikvangnum. Menn gengu hnarreistir um götur og stöðvuðu umferð ótrauðir. Sumir brugðu sér í gosbrunn, klifruðu á styttuna sem var í miðjum brunninum og sungu þar veifandi Liverpoolfána og alveg hjartanlega sama þó að þeir væru orðnir hundblautir. Það jók á gleði þeirra er fór að hellirigna í þokkabót. Aðrir veifuðu flaggi sem á stóð: "Ef Houllier hefði tekið þátt í orrustunni við Waterloo þá myndu allir Bretar tala frönsku." Enn og aftur var öskrað "Hou let the Reds out", og allir svöruðu "Hou-Houllier" en þá barst tilbaka flissið í Spánverjum sem voru að gera sér að leik að spæna Englendingana upp. Loksins kom þetta glæsilega mannvirki í ljós sem rúmaði jafnan 68.000 áhorfendur. Það var löng biðröð inn og brást þar staðföst trú manns á þýskt skipulag. Ég og Matthew hittum Evert fyrir utan og hvað haldið þið? Íslendingarnir tveir sem höfðu farið í lestina til Amsterdam, höfðu fleygt af sér farangrinum í íbúð vinar síns í Hollandi og hringt síðan í fararstjórann og ætla að taka miðanna á völlinn ef þeim stæði þeir ennþá til boða. Þeir skelltu sér síðan í lest rakleiðis til Dortmund og beint á völlinn. Þeir höfðu enga gistingu en ætluðu tilbaka klukkan sex um nóttina með fyrstu lest. Þangað til ætluðu þeir að hanga niður í miðbæ á þeim bar sem myndi loka allra síðastur. Svona á að gera þetta, með stæl!

Við komum okkur fyrir í 27. sætaröð í austurstúkunni nálægt miðju vallarins og ríkti mikil ánægja með þessi vel staðsettu sæti. Það vakti furðu margra í upphafi að Fowler sat á bekknum og Heskey sem hafði virkað heldur þreyttur að undanförnu skyldi byrja inná. En maður treystir Houllier og lét sér þetta lynda. Nú brutust fram á sjónarsviðið þrír þýskir tenórar sem var búið að vara við á Liverpoolsíðum á internetinu. Þar var dagsskipunin að forðast þá í lengstu lög en lítið gat maður að gert, innikróaður á vellinum og þessir snillingar komnir með míkrófóna. Þá kom að herbragði Púllara því að um leið og þeir hófu raust sína þá sungu Púllarar allir sem einn sína eigin söngva til þess að yfirgnæfa tenórana. Þessir þýsku voru bara eins og látbragðsleikarar inná vellinum.

Leikurinn byrjaði eins og leikir eiga að byrja og Babbel gaf tóninn. Spánverjarnir virkuðu mjög taugaóstyrkir og vissu ekki hvort þeir væru að koma eða fara. Gerrard bætti öðru marki og maður bjóst við að þessi leikur myndi enda 4-0 eða 5-0. Alaves sótti í sig veðrið og alveg greinilegt að þeir voru ekki dauðir úr öllum æðum þó að staðan væri 3-1 í hálfleik. Fyrri reynsla sýndi að Alaves er mikið stemmningslið og hættan var ef þeir kæmust inn í leikinn að þeir yrðu óstöðvandi. Fimm mínútur búnar af seinni hálfleik: 3-3. Takk fyrir mig - góða nótt.

Robbie Fowler gerði sig reiðubúinn að koma inná og var dauðaþögn á vellinum. Ég stökk á fætur og öskraði ótt og títt nafn hans og benti í áttina að honum, greinilega of mikil átök sem fylgdu þessu því að mig svimaði, svo mikill var æsingurinn. Hávaði magnaðist í kringum mig, jú goðið var að koma inná. Tæpum tíu mínútum eftir innkomu hans leitaði Fowler að rétta augnablikinu að láta vaða á markið og það virtist taka heila eilífð þegar hann fór meðfram vörninni, búmm 4-3!

Aðdáendur Liverpool byrjuðu að kyrja sigursöngva er leið að leikslokum og ég hugsaði með sjálfum mér: "nei, ekki núna!! Alltof snemmt ef miðað er við þessi ósköp sem voru búin að ganga á áður. Boltinn fór útaf, hornspyrna, ég leit niður á stéttina fyrir framan mig og leit ekki upp fyrr en ég heyrði spænsk fagnaðaróp koma úr suðurátt. Mér var öllum lokið og vítaspyrnukeppni vildi ég forðast í lengstu lög. Það var undursamlegt þegar Geli skallaði hann í markið og faðmlög afvelta á áhorfendapöllunum við ókunnugt fólk hófust að nýju og nú sem aldrei fyrr.

 

TIL BAKA