Ron Yeats
Frá stofnun Liverpool hafa margir höfðingjar gegnt stöðu fyrirliða félagsins. Fáir hafa gert það lengur en Skotinn Ron Yeats. Hann var fyrirliði liðsins í níu leiktíðir, frá 1961/62 til 1969/70, og missti örfáa leiki úr á þeim tíma. Ron Yeats fæddist í Aberdeen þann 15. nóvember 1937. Hann var úr fjölskyldu þar sem sem slátraraiðn kom við sögu. Það stefndi því vel hvað þá iðn varðaði því strákurinn óx og dafnaði vel. Hann varð stór og nautsterkur svo orð fór af. En Ron lét slátraraiðnina að mestu eiga sig og fór að reyna fyrir sér í knattspyrnu. Hann komst á atvinnumannasamning hjá Dundee United og var hjá því ágæta félagi til sumarsins 1961.
Þá víkur sögunni til Liverpool. Bill Shankly tók við liðinu í desember 1959 og var búinn að stýra því í tvær og hálfa leiktíð. Aðaltakmark hans með liðið hafði ekki nást því Liverpool var enn í annari deild. En nú skyldi bæta úr því og það strax. Í maí 1961 hafði Bill keypt landa sinn sóknarmanninn Ian St. John frá Motherwell fyrir metupphæð 37.500 sterlingspund. Bill taldi sóknina vel nú mannaða og næst var horft eftir varnarmanni. Maðurinn sem hann hafði í sigtinu var Ron Yeats. Bill hafði vitað af þessum risavaxna landa sínum um nokkurt skeið, reyndar frá því hann var stjóri hjá Huddersfield Town. Þá hafði hann ekki fengið fjármagn til kaupanna. Í júlímánuði lét Bill til skarar skríða. Bill og forráðamenn Liverpool hittu Ron og stjórnarmenn Dundee United á hóteli í Edinborg þar sem gengið var til samninga. Bill undraðist stærð Ron og fékk sér gönguferð í kringum hann og sagði: "Jesús, þú hlýtur að vera sjö fet (um það bil 2,10 m.) gæskur." Ron svaraði": Nei, ég er nú bara rúmlega sex fet." (Ron var og er líklega enn 1.88 m. Að auki var hann rúmlega 90 kíló.) Bill svaraði að bragði: "Ja, það er nógu nærri sjö fetum fyrir minn smekk!" Fleiri orðaskipti þeirra á þessum fundi komust í þjóðsagnasöfn. Ron var ekki alveg viss um hvar Liverpool væri á landakortinu og spurði hvar Liverpool væri. Bill svaraði: "Liverpool er í fyrstu deild." Ron var á báðum áttum en sagði loks. "Ég hélt að liðið væri í annari deild." Ekki stóð á svari frá Bill: "Jú, en með þig í liðinu verðum við fljótlega komnir í fyrstu deild!" Hafi Ron verið í vafa um þessi félagaskipti þá hefur sá vafi eflaust gufað upp á þessum fundi. Enda gengu samningar fljótt og Dundee United fékk 30.000 sterlingspund í sinn hlut.
Bill boðaði til blaðamannafundar í Liverpool og sagði við blaðamennina sem komu. "Ég er nýbúinn að kaupa risa. Gerið svo vel að koma inn, ganga í kringum hann og skoða kappann!" Ian St. John og Ron voru þeir tveir leikmenn sem Bill taldi sig vanta til að geta komið Liverpool aftur upp í fyrstu deild. Hann sagði síðar um þessi kaup. "Þeir tveir voru besti kaup félagsins. Þeir voru byrjunin. Ron var stórfenglegur. Hann var eins og óvinnandi turnvirki, sterkur sem naut og eldfljótur." Sumir sögðu reyndar að Ron væri ekki mjög fljótur að hlaupa. Bill svaraði því til að það reyndi lítið á hvort sóknarmenn gætu hlaupið Ron af sér. Þeir kæmust einfaldlega aldrei framhjá honum til að reyna spretthlaup við hann! Bill hafði rétt fyrir sér. Liverpool rúllaði annari deildinni upp. Sóknarmenn liðsins röðuðu inn mörkum og vörnin var gríðarlega sterk. Skotarnir tveir unnu hug og hjörtu stuðningsmanna Liverpool og allt gekk að óskum. Leiðtogahlutverk Ron kom fljótlega í ljós. Hann var gerður að fyrirliða um miðja leiktíðina og því hlutverki gegndi hann út áratuginn. Vorið 1962 var meistaratitli í 2. deild fagnað í Liverpool og sæti í 1. deild sem hafði tapast vorið 1954.
Liverpool hafnaði í áttunda sæti í 1. deild leiktíðina 1962/63 og komst í undanúrslit F.A. bikarsins þar sem liðið tapaði fyrir Leicester City. En liðið hans Bill var komið í 1. deild til að láta til sín taka. Enski meistaratitillinn vannst vorið 1964 í sjötta sinn í sögu félagsins. Voru þá sautján ár liðin frá síðasta meistaratitli félagsins 1947. Sjöundi meistaratitillinn vannst svo tveimur árum síðar. Vorið 1965 rættist áralangur draumur stuðningsmanna Liverpool. Loksins tókst Liverpool að vinna F.A. bikarinn eftir sjötíu og þriggja ára bið. "Rowdy" eins og Ron var kallaður af stuðningsmönnum Liverpool leiddi Liverpool til leiks gegn Leeds United á Wembley. Viðurnefnið fékk Ron af vígalegum kúreka sem Clint Eastwood lék í sjónvarpsþáttunum Rawhide á þessum árum. Leikurinn gegn Leeds var mikil rimma. Ekkert var skorað í venjulegum leiktíma en Roger Hunt kom Liverpool yfir. Billy Bremner jafnaði áður en Ian St John skoraði sigurmarkið. Af mörgum glæstum stundum í sögu Liverpool er þessi sigur einn sá sætasti. Þetta hef ég sannreynt í samtölum við marga stuðningsmenn Liverpool í borginni góðu. Þeir sem voru á Wembley þennan dag telja flestir að fyrsti F.A. bikarsigurinn rísi hæst í minningum sínum af sigrum Liverpool. Það spilaði nokkuð inn í þessa miklu gleði að nú gátu stuðningmenn Everton ekki lengur strítt aðdáendum Liverpool á því að liðið hefði aldrei unnið F.A. bikarinn! Loksins hafði Liverpool tekist að vinna þennan goðsagnakennda verðlaunagrip eftir tvö töp í úrslitum 1914 og 1950. Ron tók við bikarnum úr hendi Elisabetar Bretadrottningar eftir leik. Sjaldan hefur honum verið haldið hærra á loft. Ron sagði síðar um þessa glæstu sigurstund: "Þetta var ógleymanleg stund. Það var ólýsanlegt að sjá gleðina á meðal stuðningsmanna okkar. Mest langaði mig til að henda bikarnum út í hóp aðdáenda okkar. Mér fannst að við höfðum unnið bikarinn saman." Með bikarsigrinum rættist enn einn spádómur Bill varðandi Ron Yeats. Hann sagði forráðamönnum Liverpol þegar Ron var keyptur að með Skotann í liðinu myndi liðið vinna F.A. bikarinn innan fárra ára!