Ron Yeats

Fréttaritarar Rauða Hersins lögðu leið sína á Melwood 11. október 2001 (2 dögum fyrir Leeds-leikinn þegar Houllier féll næstum því í valinn - ber að hafa í huga þegar viðtalið er lesið.) og voru með spurningar í farteski sínu, sem þeir vonuðust til að geta lagt fyrir goðsögnina Ron Yeats. Hann er jafnan á Melwood-æfingasvæðinu enda starfar han nenn hjá Liverpool sem aðalnjósnari félagsins á Bretlandseyjum. Yeats hefur jafnan verið lítt áberandi í tímaritum tengdum Liverpool undanfarin ár ólíkt öðrum fyrrverandi leikmönnum og virtist ekki gjarn á yfirborðinu að veita blaðaviðtöl. Maður hafði séð hann rifja upp gamla og góða tíma á myndbandsspólum helguðum Liverpool og hann virtist af því að dæma vera hinn hressasti karakter. Með þetta í huga lögðumst við til atlögu er við sáum Stóra manninum bregða loks fyrir. Jú, hann skyldi veita okkur viðtal og væri ekkert ljúfara.

AB: Hafði Shankly mikil áhrif á þig strax í upphafi?
Ég vissi eftir fyrstu fimm mínúturnar að þetta væri stórmerkilegur maður. Þetta var svo sannarlega ótrúleg atburðarás. Við vorum á leiðinni í Rolls Royce bifreið varaformanns Liverpool, Sidney Meaks, niður M6-hraðbrautina. Ég og Bill sátum í aftursætinu og ég var frekar fámáll. Ég var bara 22 ára gamall og hafði komið aðeins nokkrum sinnum til Englands. Ég var ekki einu sinni búinn að skrifa undir samninginn. Hann sagði við mig: "Ég vil að þú verðir fyrirliðinn minn. Þú verður augu mín, eyru og rödd á vellinum". Ég hugsaði með mér, "andskotinn sjálfur". Þetta var mikil ábyrgð fyrir 22 ára gamlan strák sem hafði ekki einu sinni komið til Liverpoolborgar áður. Ég var fyrirliði Shankly í 10 ár hjá Liverpool og þetta voru bestu ár ævi minnar. Shankly var yndislegur maður. Auðvitað hafa allir mismunandi skoðanir á honum en ég trúi því statt og stöðugt að ef hann hefði ekki komið til Liverpool tímabilið 1959-60 þá væri glæst saga Liverpool ekki raunveruleiki. Á þessum tíma var félagið í óreiðu. Leikvangurinn var að hrynja og liðið var búið að vera í 2. deild í 8 ár. Bill Shankly tók við og allt gjörbreyttist til betri vegar.

AB: 5 árum eftir að hann tók við lyfti Liverpool meistaratitlinum…
Já, en mesta afrek okkar var að vinna 2. deildina. Ef okkur hefði ekki tekist það hefði ekkert annað gerst. Við unnum 2. deildina nokkuð auðveldlega og það var grunnurinn að velgengni okkar.

AB: Hvað eru helstu minningar þínar frá fyrsta Evrópuleik félagsins gegn Reykjavík? (eins og Púllarar kalla vesturbæjarfélagið almennt ). Ég man að ég minntist á þennan leik við þig er ég hitti þig einu sinni áður og þá bættir þú nokkrum mörkum við markatöluna.
Ég geri það alltaf [skellihlær]. Ef við skoruðum 3 mörk þá segi ég að við höfum skorað 5 [hlær ennþá meira]. Við vorum með sterkt lið og drógumst á móti Reykjavík sem við vissum nákvæmlega ekkert um. Þetta vara bara eins og að fá farseðil í næstu umferð. Mér er einna minnisstæðast að þegar við fórum þangað þá tóku þeir á móti okkur á glæsilegan máta. Þeir komu fram við okkur líkt og við værum guðir holdi klæddir. Við settum á svið smásýningu í seinni leiknum en ég held að ef þú ræðir við einhvern þeirra leikmanna sem lék fyrir þeirra hönd þá mun viðkomandi segja að þetta hafi verið skemmtileg reynsla.

AB: Já, ég þekki einn þeirra nokkuð vel og hann man helst eftir Peter Thompson sem fór illa með þá...
Peter Thompson var mjög góður leikmaður. Ég hefði ekki viljað mæta Thompson í liði andstæðinganna. Hann var mjög leikinn. Nú orðið sérðu kantmenn afar sjaldan reyna að leika á bakvörðinn. Nú eru bakverðirnir orðnir jafnfljótir og kantmennirnir. Við vorum svo heppnir á þessum árum að eiga tvo kantmenn, Peter Thompson og Ian Callaghan sem gátu brunað upp kantana og skapað færi sem gáfu okkur mörg mörk.

AB: Nú höfum við ekki ekta kantmann lengur. Þörfnumst við einhvers kantmanns?
Málið er að þeir eru varla til lengur. Ef þú ætlar að leika þessa stöðu í dag þá verður þú að leggja rosalega mikla vinnu að baki í hverjum leik. Kantmaðurinn verður að passa upp á bakvörðinn og leika sem hálfgerður bakvörður sjálfur og aðstoða miðjuna. Fótboltinn hefur breyst svo mikið að ég tel það ekki lengur eftirsóknarvert að leika þessa stöðu því að hún er svo erfið. Þú verður að fara upp og niður kantinn sem varnar- og sóknarmaður og strákar á unga aldri nú á dögum leggja ekki út í það að leika þessa stöðu. En ef það er hægt að fá einhvern þá er sá hinn sami ómetanlegur fyrir liðið, það get ég sagt ykkur.

AB: Ég sá nýlega viðtal við Joe Royle (sem var miðframherji Man City og síðar framkvæmdastjóri) og hann var spurður hver erfiðasti andstæðingur hans hefði verið og hann svaraði "Án efa, Ron Yeats. Hann hljóp bara í beinni línu [Yeats hlær] og maður þurfti að sjá til þess að lenda ekki í kjölsoginu á honum. Jafnvel þegar boltinn var ekki í leik þá hélt ég mér ennþá á hreyfingu til að forðast hann". Joe Royle gefur augljóslega í skyn að þú hafir verið harður í horn að taka. Varstu hörkutól á vellinum?
Ég meina ég er 1,88 metrar á hæð og var rúmlega 90 kíló svo að þegar ég tæklaði einhvern þá hlýtur hann að hafa fundið fyrir því. Þegar ég stökk upp i skallabolta þá var alltaf hætta á að ég myndi stugga við einhverjum. Ég myndi ekki segja að ég hafi verið tuddi en ég sá til þess að andstæðingarnir vissu af mér. Það voru margir kraftframherjar í boltanum þá og ég vissi ávallt að það var góð barátta framundan og ég vissi ennfremur að ég myndi hafa betur í þessari baráttu því að ég taldi mig vera ósigrandi. Það voru litlu flinku framherjarnir sem voru að valda mér stundum vandræðum. Ég var harður af mér en aldrei grófur. Ég sparkaði aldrei í einhvern bara til að sparka í hann. Ég fór alltaf í boltann.
 
AB: Þú gegndir svipuðu hlutverki hjá Shanks og Hyypia gegnir nú hjá Houllier. Þú varst leiðtogi varnarinnar. Hvað finnst þér um Hyypia?
Sami er frábær leikmaður og við vorum mjög lánsamir að fá hann. Ég sá hann í leik með Willem II og hann klikkaði aldrei. Ég trúði þessu varla. Ég fór heim og fékk Houllier og Thompson með mér að horfa á hann og hann skrifaði undir hjá okkur sama kvöld. Hann er besti leikmaður sem hefur verið keyptur til félagsins um langt skeið. Ég meina að jafnvel þó að við hefðum borgað 40 milljónir punda fyrir hann eða hvaða verð sem er þá væri hann samt góð kaup fyrir félagið. Þú finnur ekki marga miðverði sem geta skallað boltann, sent boltann og lesið leikinn vel. Það er engin spurning að hann er kjölfestan í vörninni.

AB: Þegar þú varst að leika þá var Tommy Smith félagi þinn í miðri vörninni...
Tommy Smith og ég lékum sjö leiktíðir saman. Stundum fór boltinn framhjá okkur en aldrei bæði andstæðingurinn og boltinn. Tommy var hörkutól en var líka góður spilari. Hann hafði eins og Sami góða boltatækni og var betri að því leyti en ég. Ég var góður tæklari, sterkur skallamaður og las leikinn vel en þegar ég vann boltann þá sendi ég hann á einhvern sem sá svo um að spila honum áfram. Ég þekkti mín takmörk. En þú verður líka að þekkja takmörk félaga þíns í vörninni. Ég vissi hverjar voru sterku hliðar Tommy og jafnframt veikleikar og hann vissi um kosti mína og galla.

TIL BAKA