Jamie Redknapp
Stuðningsmenn Liverpool munu minnast Redders sem fyrirliðans sem leiddi liðið sitt, síðustu árin, oftar utan vallar en innan vegna mikilla og þrálátra meiðsla. Jamie var reyndasti og leikjahæsti maður liðsins og líklega einn ef ekki virtasti leikmaður Liverpool. Hann var vinsæll og vel liðinn innan vallar sem utan og margir sjá eftir honum. Sérstaklega vegna þess að enn áttu menn von á því besta frá honum. Fáir leikmenn Liverpool hafa yfirgefið Anfield Road félagið með hlýrri kveðjum frá öllum sem tengjast félaginu.
Jamie kom í þennan heim þann 25. júní 1973 í Barton-on-Sea. Hann er sonur Harry Redknapp sem var atvinnumaður í knattspyrnu til dæmis með West Ham. Það var því ekkert skrýtið þótt pilturinn myndi feta í fótspor pabba. Hann fékk snemma dálæti á knattspyrnu og var mikill stuðningsmaður West Ham. Jamie æfði sem unglingur með Tottenham en hann hóf atvinnuferilinn undir stjórn föður síns hjá Bournemouth. Þar komst hann í aðalliðið kornungur. Hann hafði leikið nítján leiki, án marka, með liðinu áður er tilboð barst sem ekki var hægt að hafna. Maður segir ekki nei þegar Kenny Dalglish vill fá mann til liðs við sig. Ekki síst þegar umræddur maður er búinn að vera í miklu dálæti hjá manni. Einu ári áður en hann kom til Liverpool og hafði ekki leikið einn einasta leik fyrir Bournemouth fylgdist Dalglish grannt með Jamie. Harry tekur upp þráðinn: "Kenny vildi fá hann en ég vildi ekki að strákurinn færi svo ungur að heiman aðeins 16 ára gamall. En ég samþykkti að leyfa Jamie að æfa í hálfan mánuð með Liverpool svo að hann gæti virt aðstæður fyrir sér. Dvöl hans var mjög ánægjuleg þar og það var einungis tímaspursmál áður en hann myndi ganga til liðs við þá." Jamie snéri aftur til Bournemouth og lék fyrsta leik sinn með aðalliði Bournemouth gegn Hull 13. janúar 1990. Hann lék 13 leiki með aðalliðinu áður en hann varð dýrasti 17 ára unglingur í enska boltanum þegar hann var seldur til Liverpool 15. janúar 1991 fyrir 350.000 pund sem myndi hækka upp í 500.000 ef hann léki vissan fjölda með liðinu og kæmist í landsliðið. Liverpool sló sitt eigið met en þeir borguðu 250.000 pund fimm árum áður fyrir Wayne Harrison frá Oldham. Dalglish vildi passa vel upp á Jamie og bannaði fjölmiðlum að taka myndir af honum í Liverpoolbúningnum og tala opinberlega um sölu sína til Liverpool. Harry var ekki hræddur um strákinn: "Nú verður Jamie að sanna að hann sé nógu góður. Sagan sýnir að það er auðvelt að ganga til liðs við Liverpool en að það er erfitt að verða þar um kyrrt. Jamie veit alveg að hverju hann gengur. Hann vill verða leikmaður í toppklassa og er reiðubúinn að ná langt með einu sterkasta liði í heimi. Ef hann er nógu góður þá eigum við eftir að heyra meira frá honum ef ekki þá er alltaf laust pláss fyrir hann hér hjá Bournemouth. En innst inni þá trúi ég því að honum muni vegna vel hjá Liverpool. Ég myndi ekki hafa látið hann fara þangað ef ég væri ekki viss um að hann myndi spjara sig."
Jamie lék aldrei undir stjórn Kenny en var einu sinni á varamannabekknum í 1:1 jafntefli gegn Wimbledon aðeins fjórum dögum eftir að hann kom til Liverpool. Rúmum mánuði eftir komu Jamie var maðurinn sem keypti hann á braut. Knattspyrnuheimurinn skalf og nötraði þann 22. febrúar þegar Kenny sagði starfi sínu lausu. Það var því ekki skrýtið að stráknum væri órótt. Hann sagði pabba sínum þegar eftirmaður Kenny Dalglish, Graeme Souness, tók við Liverpool: "Hann veit ekki einu sinni hvað ég heiti."
En Jamie þurfti ekki að örvænta. Graeme hafði tröllatrú á honum. Hann lék fyrst undir stjórn Souness þá um haustið, 23. október, þegar Liverpool tapaði 2:0 á útivelli gegn Auxerre í Evrópukeppni félagsliða. Strákurinn fékk peysuna heilögu, númer sjö, og var sagt að drífa sig inná. Þá var hann 18 ára og fjögurra mánaða gamall og yngsti leikmaður Liverpool til að leika Evrópuleik í sögu félagsins.
Leikurinn var Jamie mjög minnisstæður eins og hann rifjaði upp seinna í leikskrá Liverpool. "Það kom mér algjörlega í opna skjöldu þegar Graeme Souness sagði mér að ég ætti að spila í byrjunarliðinu. Ég einbeitti mér að því að gera eins vel og ég gat og ekki bregðast neinum. Ég var mjög taugaóstyrkur en félagar mínir hjálpuðu mér og leiðbeindu út leikinn. Ég vissi ekki á hverju ég átti von. Af því að ég hafði ekki leikið fyrir aðalliðið áður hafði ég ef til vill efasemdir um að ég væri nógu góður til að standa mig meðal þeirra bestu. Ég hafði alltaf haft trú á að ég gæti staðið mig en það kom ekki í veg fyrir að ég væri taugaóstyrkur áður en leikurinn hófst. Við vorum að spila við mjög gott lið og stemmningin á leikvanginum var mikil. Þetta var því erfiður leikur til að leika sinn fyrsta leik.
Ég ákvað að byrja með því að reyna að koma mér inn í leikinn og ekki reyna neitt of flókið. Fyrsta snertingin var einföld og öryggið sett ofar öllu. Eftir að á leikinn leið varð ég rólegri og sjálfstraustið fór vaxandi. Ég átti ekki neinn stórleik en mér fannst að ég hefði sloppið þokkalega frá leiknum og ég naut þess að spila. Þegar um 20 mínútur voru eftir fékk ég krampa í báða kálfana og gat varla hlaupið en ég þraukaði áfram til loka leiksins. Í leikslok var ég ánægður með að hafa spilað minn fyrsta leik og ég mun ætíð minnast hans."
Á þessum tíma var Phil Thompson þjálfari varaliðs Liverpool. Í leikskrá Liverpool, stuttu eftir að Jamie lék sinn fyrsta leik, fjallaði hann um strákinn. "Fyrsti leikur, hvar sem hann er leikinn, er alltaf blanda af tilhlökkun, spennu og kvöl. En að byrja í Evrópuleik er sannarlega ekki það auðveldasta. Ég er ánægður með að Jamie stóð fyrir sínu og hann er jú bara 18 ára. Hann hefur góða tækni, er stór og sterkur og reynir að framkvæma hlutina á einfaldan hátt."