Jamie Redknapp
Fyrsti deildarleikur Jamie var gegn Southampton 7. desember 1991. Hann kom inná sem varamaður og skoraði jöfnunarmark Liverpool 15 mínútum fyrir leikslok eftir að Alan Shearer hafði náð forystunni. Markið var ekki það allra glæsilegasta á ferlinum. Boltinn datt fyrir fætur hans á marklínunni og Redknapp var sneggri en Ian Rush að moka boltanum yfir línuna sem er nú afrek útaf fyrir sig: "Þetta var auðveldasta mark sögunnar. David Burrows gaf fyrir og ég sendi boltann í markið af innan við metra færi." Á þessum tíma gaf Graeme Souness mörgum ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri svo sem: Jamie, Steve McManaman, Robbie Fowler, David James, Steve Harkness, Rob Jones, Mike Marsh, Nick Tanner og Don Hutchison. Graeme sýndi strákunum mikið traust og þeir stóðu sig vissulega vel. Liðið á hinn bóginn náði ekki að uppfylla væntingar. Annar deildarleikur Redknapp kom ekki fyrr en 28. febrúar er hann kom inn í byrjunarliðið í treyju nr. 10 vegna meiðsla Jan Mölby. Hann hélt sæti sínu þrátt fyrir endurkomu Molby en þegar Ronnie Whelan snéri tilbaka eftir langvarandi meiðsli tóku Whelan og Molby upp þráðinn þar sem frá var horfið á miðjunni og Redknapp þurfti að víkja. Jamie lék alls sex deildarleiki og fjóra í bikarkeppnunum fyrsta leiktímabilið sitt. Strákur var kominn á blað og hann var kominn til að vera.
Jamie varð einn lykilmanna liðsins eftir að Roy Evans tók við af Graeme í janúar 1994. Evans gaf honum til að byrja með dágóða hvíld enda mikið búið að mæða á þessum unga leikmanni. Form hans var óstöðugt og var hann jafnvel settur bekkinn í febrúar 1995. En Redknapp komst aftur í liðið og myndaði öflulegt miðjupar með John Barnes. Um vorið var hann kosinn leikmaður leiktíðarinnar af alþjóðlega aðdáendaklúbbi Liverpool.
Jamie var í sviðsljósinu í lokaleik leiktíðarinnar þegar hann skoraði sigurmarkið 2:1 gegn Blackburn Rovers. Hann rifjaði þetta eftirminnilega mark síðar upp í leikskrá Liverpool. "Þetta var furðulegur dagur. Ef Blackburn tapaði fyrir okkur og Manchester United næði að leggja West Ham United þýddi það að United yrði meistari. Ég er viss um að flestir stuðningsmenn okkar vildu það ekki Það var furðulegt andrúmsloft á Anfield Road en við undirbjuggum okkur eins og atvinnumenn og stefndum á sigur. Staðan var jöfn 1:1 á lokamínútunni þegar við fengum aukaspyrnu. Ég sendi boltann efst í markhornið en vissi ekki hvað ég átti að gera. Þetta var fallegasta mark sem ég hafði skorað en ég vissi varla hvort ég ætti að fagna eða ekki. Það voru örugglega margir stuðningsmenn Liverpool sem voru ekki yfir sig hrifnir þegar boltinn hafnaði í markinu. En þegar upp var staðið skipti þetta ekki máli fyrir stuðningsmenn okkar. Úrslitin í leik okkar réðu ekki því hvert titillinn fór því Manchester United tókst ekki að vinna West Ham United."
Redknapp var fyrirliði enska u-21 landsliðsins sem sigraði í Evrópukeppni u-21 landsliða í Frakklandi sumarið 1994. Hann lék fyrsta aðallandsleik sinn 6. september 1995 þegar Englendingar gerðu markalaust jafntefli við Kólumbíu á Wembley. Hann lék við hlið Dennis Wise og Paul Gascoigne og var skipt útaf fyrir John Barnes í síðari hálfleik. Jamie átti þátt í einu frægasta atviki knattspyrnusögunnar. Hann skaut að marki af löngu færi en Rene Huigita markvörður varði með "sporðdrekasparkinu" ódauðlega. Redders var í miklum ham með Liverpool og skoraði með eftirminnilegum þrumufleygum í tveim leikjum í röð gegn Spartak Vladikavkaz og Blackburn. Redders var síðan valinn til að mæta Sviss 15. nóvember. Eftir aðeins sjö mínútna leik fór hnésbótarsinin.
Jamie steig upp úr meiðslunum í apríl 1996 og lék hinn illræmda "Hvítfataúrslitaleik" gegn Manchester United. Jamie og félagar máttu þola 1:0 tap og misstu af F.A. bikarnum. Leikmenn Liverpool stóðu ekki undir væntingum í leiknum og kryddrengjaviðurnefnið festist við liðið. Vonbrigði tveggja næstu leiktíða festu nafngiftina í sessi. Nokkrir leikmenn liðsins svo sem: Jamie, Steve McManaman, Robbie Fowler, David James, Jason McAteer og Phil Babb lágu kannski vel við höggi. Í hnotskurn þóttu þeir ungir, myndarlegir og kærulausir. Þessi fjölmiðlaherferð átti varla rétt á sér. En hún viðhélst vegna þess að liðið stóð ekki undir væntingum á þessum tíma. Líklega átti Jamie síst skilið að liggja undir þessu ámæli. Hann lagði ætíð hart að sér og fáir leikmenn voru honum samviskusamari. Jamie giftist á þessum tíma söngkonunni Louise og ólíkt öðrum hjónakornum af þessari sömu samsetningu for lítið fyrir þeim Jamie og Louise í fjölmiðlum. Jamie var með enska landsliðinu á EM í Englandi en meiddist í leik gegn Skotum eftir að hafa komið inná í hálfleik. Þriggja mánaða fjarvera frá fótbolta var framundan.