Phil Thompson
Phil lék til að byrja með á sparktíðinni 1982-83 en um haustið meiddist hann og komst ekki aftur í liðið utan nokkur skipti um vorið. Mark Lawrenson og Alan Hansen mynduðu öflugt miðvarðarpar og Thompson var út úr myndinni. Meistaratitillinn bættist þó í safnið.
Stuttu fyrir jólin 1984 fékk Phil tilboð frá Sheffield United. Þar lék hann í átján mánuði alls 37 leiki. En þá kom óvænt tilboð. Sumarið 1986 bauð Kenny Dalglish honum stöðu þjálfara varaliðsins. Phil lýsti þeirri gleðistund sem samsafni af afmælisdögum og jólum. Hann var aðeins 32 ára og hnémeiðsli voru búin að binda endanlega enda á leikferilinn. Phil var nú orðinn einn af skóherbergisdrengjunum "Boot Room boys". Honum gekk vel með varaliðið og varaliðsdeildin vannst. Phil átti stóran þátt í knattspyrnulegu uppeldi leikmanna eins og Steve Staunton, Steve McManaman, Jamie Redknapp, Robbie Fowler og Dominic Matteo svo einhverjir séu nefndir. Phil hélt áfram með varaliðið þegar Graeme Souness tók við. En sumarið 1992 rak Graeme Phil og sagði síðar að ástæðan hefði verið sú að ekki hefði verið pláss fyrir tvo stjóra hjá Liverpool FC. Thompson gangrýndi þjálfunaraðferðir Souness og leikmannakaup hans og sölur. Gagnrýni sem sagan sýnir að átti fyllilega rétt á sér. Þetta var hið versta mál og félagið borgaði Phil háar skaðabætur gegn því að láta málið kyrrt liggja.
Að kvöldi 11. nóvember 1998 var Phil að skipta um föt og fara í innanhússfótbolta með nokkrum fyrrum félögum sínum í Liverpool liðinu. Farsíminn hans hringdi og í símanum var Peter Robinson. Hann bað Phil að mæta á fund með stjórnarmönnum Liverpool. Á fundinum var honum boðið starfið fyrrnefnda. Svarið gat aldrei orðið annað en já. Á blaðamannafundinum daginn eftir voru flestir hálfdaufir í dálkinn en Phil var hinn brattasti. Hann ræddi um að reyna að miðla af reynslu sinni, metnaði og áhuga. Hann hefði fengið draumastarf upp í hendurnar og hann mundi gera sitt allra besta fyrir gamla félagið sitt. Phil var kominn heim á Anfield Road. Gerard bað Peter Robinson að benda sér á aðstoðarmann með Liverpool hjarta. Fáir hafa stærra Liverpool hjarta en Tommo.
Ákvörðun Liverpool að ráða Phil aftur til félagsins kom nokkuð á óvart. Alan Hansen sagði að vinur sinn hefði hringt í sig og beðið sig að giska á hver væri nýi aðstoðarmaður Houllier. "Ég varð að giska ansi oft þangað til ég gafst upp. Þegar hann sagði mér að Thompson hafði verið ráðinn kom það mér í opna skjöldu." En Hansen bætti við að hann væri ánægður með ráðninguna.
Thompson er náttúrulega Liverpoolmaður út og inn og það virðist einkum vera sá eiginleiki sem Houllier sækist eftir. Hann vill innleiða nýjustu þjálfunaraðferðir af meginlandinu og breyta hugsunarhætti leikmanna en hann vill ekki fylla liðið af eintómum "útlendingum". Hann vill ekki tapa niður því baráttuþreki sem hefur einkennt breska leikmenn í gegnum árin. Sambland af meginlandsáhrifum sem Houllier stendur fyrir og bresku seiglunni sem Thompson stendur fyrir telur Houllier heppilegustu blönduna fyrir Liverpool Football Club.
Bob Paisley gaf honum þessa umsögn: "Ég tel að betri atvinnumaður en Phil finnist varla. Helsti styrkur hans var leikskilningurinn. Hann skildi leikinn betur en flestir aðrir strax ungur að árum. Hann var ekki mikill á velli en hann átti sérlega góðar sendingar og gaf sig allan í hvern einasta leik. Hann er einn af þeim allra bestu."