Phil Thompson
Phil Thompson var tekinn í viðtal í desember 2000 í leikskrá Liverpool.
Þú hefur tekið við nafnbótinni Herra Liverpool eftir brottför Ronnie Moran. Hvernig er að vera búinn að vera svona lengi hjá þessu félagi?
Það er ótrúlegt. Fólk veit hvernig ég er. Ef ég sýni ákefð og baráttuhug utan vallar þá er ég einungis að endurspegla hvernig 42.000 áhorfendum líður á Anfield. Ég þoli ekki að tapa. Ég vil að leikmennirnir klæðist treyjunni með stolti, leggi sig 100% fram og vinni sama hvað það kostar. Það er alltof langt síðan við nutum velgengni hér á Anfield og ég vil vera hluti af því. Ef fólk segir að ég sé hinn ungi Ronnie Moran þá tel ég það vera eins mikið hrós eins og nokkrum þjálfara hetur hlotnast. Ég hef leikið undir stjórn Ron Greenwood, Don Revie, Bobby Robson, Shanks og Bob Paisley en ef það væri ein manneskja sem ég vildi líkjast þá væri það Ronnie. Þegar ég var leikmaður þá hugsuðum við, "er ekkert sem gleður þennan mann? Ég man til dæmis þegar við vorum að fá gullmedalíurnar okkar afhentar fyrir sigur í deildinni og það eina sem hann gat sagt var.. "þetta er einskis virði núna, það er næsta tímabil sem skiptir máli núna. Ég vona að ég sé enn eins baráttuglaður og ég var. Stundum gleymi ég mér í hita leiksins en ég er fullkomnunarsinni og er pirraður þegar hlutirnir ganga ekki upp.
Fer það í taugarnar á þér að fólk segir að eina sem þú gerir sé að öskra og láta öllum illum látum án þess að þú virðist hafa nokkurn taktískan skilning á fótbolta?
Auðvitað. Þgar ég var leikmaður var sterkasta hlið mín að lesa leikinn, skilja hann og skipuleggja okkar leik. Ég var ekki einhver hauslaus kjúklingur sem hljóp um allt og sparkaði í fólk. Ég veit fullkomlega hvað ég er að gera. Þegar ég var hér áður þá var ég stjóri varaliðsins og ég held að ég hafi kennt ungu leikmönnunum ýmislegt og margir þeirra hafa notið velgengni ýmist hér eða annars staðar. Ég held enn sambandi við marga þessara stráka. Það sýnir að ég náði til þeirra. Sumir halda að þegar ég gagnrýni einhvern leikmann að ég sé knúinn áfram til að gera það vegna einhverrar illgirni en ef ég vissi hvað í viðkomandi bjó þá setti ég pressu á hann til að hann nýtti hæfileika sína til fullnustu. Það er ákveðinn einstaklingur sem gagnrýndi mig og sagði að eina sem ég gerði væri að öskra og blóta en það er fjarri sannleikanum. Það var illgjarnt að segja það. Ef ég vissi ekki um hvað ég væri að tala þá myndi ég ekki standa upp og öskra og öskra og gera mig að algjöru fífli. Ég öskra gjarnan en bara til að láta leikmenninnna vita að ég fylgist með þeim og til að hvetja þá áfram. Gérard veit hvernig ég er og skilur mig alveg. Ég útskýrði það fyrir honum alveg frá byrjun. Við erum ólíkir að því leiti, hann er öllu yfirvegaðri. Þetta virkar mjög vel að hafa þessar andstæður.
En það er þá einnig rangt að bregða því ljósi á Houllier að hann þurfi þig til að halda uppi aga? Hann leynir á sér….
Hann er sterkur persónuleiki og harður í horn að taka. Ef þarf að tuska einhvern leikmann til þá er varla til strangari karakter en Gérard Houllier. Hann er svipaður og Joe Fagan. Hann lítur út fyrir að vera rólegur náungi á yfirborðinu en þú skalt ekki voga þér að gera eitthvað á hlut hans.
Þú átt hrós skilið fyrir hvernig þú náðir að endurskipuleggja vörnina á síðasta tímabili. Það vandamál hafði angrað okkur í gegnum árin.
Við höfum staðið okkur mjög vel. Síðasta ár tókst okkur vel upp en það þurfti að leggja mikla vinnu að baki. Ég verð að hrósa Patrice sem er frábær þjálfari. Hann og Sammy Lee vinna frábærlega saman. Við vinnum með markvörðinn, bakverðina, miðvörðinn og varnartengiliðinn sem eina heild. Á síðasta tímabili tókst okkur mjög vel upp. Á þessu tímabili hefur allt í einu allt farið úr skorðum. Við erum oft að gera einhver byrjendamistök. Við verðum að einbeita okkur í 90 mínútur og við höfum ekki ennþá gert það.
Þegar þú yfirgafst Liverpool 1992 hélstu þá að þú myndir nokkurn tíma snúa tilbaka?
Ég vonaðist alltaf til þess að koma hingað aftur. Eftir sex ára fjarveru þá ertu náttúrulega orðinn vondaufur og búinn að skipuleggja líf þitt í kringum aðra hluti. Ég naut þess tíma sem ég var ekki hjá félaginu. Ég vann mikið fyrir fjölmiðla, The Echo, Radio City og Sky TV. Það kom mér mjög á óvart þegar ég var beðinn um að koma aftur en það kom skemmtilega á óvart.
Hvað sagði Gérard Houllier við þig þegar þú komst aftur til félagsins?
Við settumst niður og ræddum skoðanir okkar á fótbolta. Ég var hrifinn af hversu heitt hann þráði að Liverpool myndi njóta velgengni. Hann hafði dvalið hérna áður þannig að hann þekkti borgina. Við vissum að þetta yrði erfitt í byrjun. Við enduðum í sjöunda sæti fyrsta árið en við vorum í 12. sæti þegar allt small saman og fólk vill gleyma því að hlutirnir hefðu getað verið mun verri. Sjöunda sætið er ekki nógu góður árangur fyrir þetta félag en við erum í framför og bættum deildarstöðu okkar á síðasta tímabili.
Á meðan leik stendur þá er greinilegt að þú ert svekktur að geta ekki stjórnað liðinu inná vellinum...
Já, ég er áhyggjufullur aðdáandi sem og áhyggjufullur fyrrverandi leikmaður. Ég vil hlaupa inn á völlinn. Það er svo taugatrekkjandi að vera á hliðarlínunni. Leikmenn sem þurfa að dvelja á bekknum eru sömu skoðunar. Þegar Michael Owen og Vladimir Smicer sitja við hliðina á mér á bekknum þá segja þeir mér að þeir séu að springa. Það er ekkert betra en að vera inná, í baráttunni miðri og hafa bein áhrif á leikinn. Ég á frábærar minningar frá leikmannaferli mínum og það er engin tilfinning sem jafnast á við að leika fótolta. Ég fæ ennþá gæsahúð þegar ég labba í gegnum Shanklyhliðið. Þegar ég heyri að einhver leikmaður komist ekki á æfingu útaf hinu eða þessu þá get ég ekki botnað í því. Það er ekkert heilsusamlegra og betra en að mæta á æfingar og fjöldi fólks nýtur ekki þeirra forréttinda.
Hvað finnst þér um að vera svo í hávegum hafður meðal Liverpoolaðdáenda eins og raun ber vitni?
Ég þekki marga aðdáendur persónulega. Ég hef þekkt suma hverja í fjöldamörg ár, þessa hörðustu sem hafa fundið upp nýja stuðningssöngva og leitt hópinn. Þeir voru ávallt við hlið okkar þegar vel gekk og eru hér enn. Fyrir mörgum árum síðan þá stjórnaði ég utandeildarliði í Kirkby og það var mjög góður undirbúningur fyrir þetta starf. Ég lék fyrir Liverpool á laugardegi og daginn eftir var ég þarna á vellinum með strákunum drulluskítugur og allir skelltu sér á barinn á eftir. Ég gaf mig allan í þetta og ef þú gerir það þá geturðu borið höfuðið hátt í Liverpoolborg.
Svo fylgir skemmtileg saga í kaupbæti sem lýsir karakternum Phil Thompson betur en nokkuð annað:
"Við unnum deildarbikarinn árið 1981 á Villa Park en ég gleymdi bikarnum inn í rútunni. Peter Robinson hringdi í mig nokkrum dögum síðar og sagði að sem fyirliði þá bæri ég ábyrgð á bikarnum og hefði ekki átt að skilja hann eftir þarna. Tveim mánuðum eftir þegar við vorum að fara heiðurshring í Liverpoolborg með Evrópubikarinn, þá varð mér litið yfir handriðið á rútinni og sá þar hóp vina minna og ég öskraði á þá að hitta mig á The Falcon á eftir sem er bar í Kirkby. Þegar við vorum búnir að keyra hringinn þá greip ég Evrópubikarinn og smellti honum ofan í stóra rauða flauelspokann sem þeir gefa þér til að geyma hann í, fleygði honum í skottið á bílnum mínum og brenndi af stað til Kirkby. Ég labbaði inn um dyrnar á Falcon með bikarinn í höndunum og vinir mínir gátu ekki trúað sínum eigin augum. Þeir færðu nokkrar flöskur til hliðar sem voru fyrir aftan barinn og settu bikarinn þar til sýnis. Allt í einu sá ég að það var kominn löng biðröð í að nota símann. Allir voru að hringja í vini sína og segja þeim að drífa sig niður á The Falcon, "Evrópubikarinn er á barnum".. Þetta var frábært kvöld og ég sagði að ég skyldi koma aftur með bikarinn morguninn eftir til þess að allir gætu tekið myndir af börnunum sínum með bikarnum. Næsta morgun er Peter Robinson í símanum: "Thommo hvar er Evrópubikarinn? Ég svara ..að hann sé við hliðina á mér í rúminu. "Já já" segir hann, "ég er reyndar með heimspressuna hérna sem er að bíða eftir því að taka myndir af honum." Ég sagði honum að ég kæmi eftir klukkutíma, skellti mér síðan niður á The Falcon, kom þangað kl. 11 og þar voru allir mættir með börnin sín. Allir tóku myndir af börnunum við hlið bikarsins og settu sumir þau minnstu ofan í bikarinn, hann var það stór. Ég er enn að hitta fólk í dag sem á mynd af sér sem barn með bikarnum og eiga þau sín eigin börn núna. Þetta var frábær dagur!"
Arngrímur Baldursson þýddi viðtalið sem birtist í leikskrá Liverpool 26.10.00