Saga Liverpool FC

1923 - 1929

Eftir tvo Englandsmeistaratitla í röð árin 1922 og 1923 var búist við að Liverpool héldi áfram að láta til sín taka í titlasöfnun á næstu leiktíðum. Það varð þó ekki og heil tuttugu og fjögur ár og ein heimsstyrjöld liðu áður en næsti stórtitill rataði til Anfield Road. Svo þótti okkur núlifandi stuðningsmönnum liðsins sex ár löng bið þegar titlar síðustu leiktíðar fóru að tínast inn. Hvað máttu stuðningmenn Liverpool segja á þeim árum sem fóru í hönd eftir 1923? Það var ekki einu sinni svo að liðið næði að blanda sér í baráttuna um enska meistaratitilinn svo nokkru næmi og gengi liðsins í F.A. bikarnum var ekki gott. En á þessum árum bar samt margt skemmtilegt til tíðinda og margir framúrskarandi leikmenn léku listir sínar á Anfield Road.

Fyrsta heila tímabil Matt McQueen með liðið, 1923/24, olli vonbrigðum og liðið endaði í tólfta sæti. Leikmönnum liðsins tókst aðeins að skora 49 mörk og í fimmtán leikjum tókst ekki að skora. Huddersfield Town tók við af Liverpool sem Englandsmeistarar og hélt titlinum næstu þrjú árin. Sumir töldu að forráðamenn Liverpool hefðu ekki gætt nógu vel að því að styrkja liðið á meðan vel gekk á meistaraárunum 1922 og 1923. Liðið var að kalla óbreytt þessar tvær leiktíðir.  Aldurinn færðist yfir leikmennina og önnur lið náðu Liverpool að styrk. Markakóngur Liverpool 1925 og 1926, Dick Forshaw, yfirgaf Liverpool óvænt og fór yfir Stanley Park til Everton. Burðarásarnir í vörn Liverpool; Ephraim Longworth og Don McKinlay hættu í lok þriðja áratugarins. Longworth var þá fertugur að aldri og hafði þá verið á Anfield í 18 ár frá árinu 1910. Hann er næstelsti leikmaður í sögunni til að leika fyrir Liverpool. Sá elsti var markvörðurinn Ted Doig sem var 41 árs og 165 daga gamall þegar hann lék sinn síðasta leik með Liverpool í apríl 1908.

Leiktíðina 1926/27 hafnaði Liverpool í níunda sæti en á þeirri næstu skall hurð nærri hælum og liðið endaði í sextánda sæti einu stigi fyrir ofan fall. Það sem verra var Everton varð meistari. Nýtt áhorfendamet var sett á Anfield Road þann 25. febrúar þegar 56.447 tróðu sér inn í Musterið til að sjá Liverpool leika gegn Everton. Jafntefli varð 3:3. Í sókninni hjá þeim Bláu var nú William Dean, oftast nefndur Dixie Dean, og skoraði hann 60 deildarmörk á leiktíðinni í 39 leikjum. Það er meira en næsta víst að þetta met verður aldrei slegið. Forráðamenn Liverpool voru ekki kátir enda var Dean úr borginni og Everton hafði nælt sér í þennan snilling frá Tranmere Rovers. Njósnarar Liverpool hafa eflaust klórað sér í höfðinu og velt fyrir sér hvernig Dixie slapp í gegnum net þeirra.

Matt McQueen lét af stöfum í febrúar þessa leiktíð vegna heilsuleysis sem mátti rekja til þess að hann missti annan fótinn í bílslysi. Matt hélt þó áfram að vera viðriðinn félagið til dauðadags í september 1944. George Patterson, ritari Liverpool, sem hafði tekið við liðinu til bráðabirgða eftir að Ashworth yfirgaf félagið, var boðin framkvæmdastjórastaðan og nú til langframa. George kom fyrst til Liverpool sem aðstoðarmaður Tom heitins Watson árið 1908. Áður en Matt hætti hafði hann fengið til liðs við Liverpool þann mann sem átti eftir að verða mestur markaskorari fram að þeim tíma hjá félaginu. Þessi magnaði leikmaður hét Gordon Hodgson og hann kom úr óvæntri átt.

Gordon Hogdson fæddist í Jóhannesarborg í Suður Afríku 16. apríl 1904. Árið 1925 var hann á Englandi í keppnisferð með knattspyrnuliði frá heimalandi sínu. Nokkrir úr liði hans vöktu athygli og hann og tveir félagar hans markvörðurinn Arthur Riley og James Gray gengu til liðs við Liverpool. Reyndar gengu átta leikmenn frá Suður Afríku til liðs við Liverpool á árunum 1925 til 1936. Liverpool hafði góð sambönd við þarlenda og flestir þessir leikmenn reyndust mun betri en landi þeirra Sean Dundee sem er síðasti leikmaðurinn frá þessu ágæta landi til að koma við sögu hjá Liverpool. Hodgson hóf að leika með Liverpool keppnistímabilið 1925/26 og hann lék með félaginu þangað til í janúar 1936. Gordon var stór, sterkur og mjög fljótur sóknarmaður. Á þessum tíu sparktíðum með Liverpool varð hann sjö sinnum markakóngur liðsins í deildinni. Á árunum 1928 til 1935 var það aðeins Jimmy Smith sem rauf einokun hans árið 1930 með því að skora flest mörk fyrir félagið á þeirri leiktíð. Besta tímabil hans var 1930/31 en þá skoraði hann 36 deildarmörk í 40 leikjum sem var félagsmet. Roger Hunt sló metið leiktíðina 1961/62 þegar hann skoraði 41 mark en það var í 2. deild. Metið sem Gordon setti stendur enn sem flest deildarmörk á einni leiktíð í efstu deild. Í heild lék Gordon 378 leiki og skoraði 240 mörk. Af þeim mörkum skoraði hann 232 mörk í deildinni sem var félagsmet þangað til Roger Hunt sló það rúmum þrjátíu árum síðar. Liverpool var ekki með mjög sterkt lið á þessum árum og afrek Gordons því mjög mikið. Í sterkara liði hefði Gordon eflaust skorað mun fleiri mörk. Hann lék aðeins þrjá landsleiki fyrir England og skoraði eitt mark. Enn þann dag í dag er Gordon þriðji markahæsti leikmaður Liverpool í sögu félagsins ef allar keppnir eru taldar. Aðeins Ian Rush og Roger Hunt hafa skorað fleiri mörk en hann.

Vorið 1928 var hafist handa við tímamótaverk. Reyndar mætti segja að tólfti leikmaðurinn í liði Liverpool hafi verið skapaður. Þessi liðsmaður hefur dugað betur en flestir og má segja að hann lifi enn. Þak var reist yfir The Kop og steypt voru stæði fyrir áhorfendur. The Kop hafði hlotið nafn sitt árið 1901 þegar stæðin þar voru mótuð. En þessi framkvæmd reyndist mikið happaverk. Vegna hönnunar þaksins yfir áhorfendastæðunum varð hljómburðurinn gríðarlega magnaður og andrúmsloftið á Anfield varð fyrir vikið mun ógnvænlegra fyrir andstæðingana en nokkru sinni fyrr. Kopáhorfendastæðin og þakið yfir þeim voru svo að segja óbreytt til vorsins 1994 þegar þau viku fyrir stúku sem tekur 12.409 áhorfendur í sæti. Alls tóku þessi risastæði ein og sér allt að 28.000 áhorfendur. Í heild er talið að Anfield Road hafi á þessum tíma rúmað 70.000 áhorfendur. Að auki var siglutré eins fyrsta stálskipsins, Great Eastern, dregið af hestum frá höfninni og að Anfield Road þar sem þar var reist við The Kop og notað sem fánastöng. Þann 25. ágúst voru nýju áhorfendastæðin vígð þegar Bury kom í heimsókn. Fólki hafði verið ráðlagt að koma snemma á völlinn því búist var við miklu fjölmenni. Alls mættu 40.000 áhorfendur og voru þeir í hátíðarskapi. Höfðinginn John McKenna, fyrsti framkvæmdastjóri Liverpool, vígði hið glæsilega mannvirki. Klukkan tíu mínútur í þrjú gekk John ásamt fylgdarliði út á völlinn og breiddi út fána fyrir framan The Kop til merkis um að mannvirkið væri tekið í notkun. Liverpool byrjaði vel fyrir framan Kopstæðin. Billy Miller skoraði eftir fimmtíu sekúndur. Hann skoraði aftur seinna í leiknum og Albert Whitehurst bætti við marki og 3:0 sigur var í höfn. Eftir leikinn var haldið hóf hjá stjórnarmönnum Liverpool og gestum þeirra. Í hófinu kvað John McKenna sér hljóðs og hélt ræðu þar sem hann hvatti forráðamenn Liverpool til að koma félaginu í fremstu röð á nýjan leik. Margt af því sem John sagði gæti hafa verið sagt við svipað tækifæri nú á dögum. Hann sagði meðal annars: "Við getum ekki lifað í fortíðinni. En ég held að fortíðin eigi á komandi árum að að vera okkur hvatning til framfara." John hvatti að lokum stjórn Liverpool til þess að byggja upp sterkt lið sem hæfði hinu nýja og glæsilega mannvirki. Liverpool endaði leiktíðina 1928/29 í 5. sæti þrátt fyrir að leikmenn liðsins sendu boltann 90 sinnum í mark andstæðinga sinna.

TIL BAKA