Saga Liverpool FC

1930 - 1934

Heimskreppan gekk í garð um 1930 og það mátti segja að nokkurs konar kreppa ríkti á Anfield Road á þeim áratug sem var að hefjast. Arsenal var lið áratugarins og vann titilinn 1931 og þrjú ár í röð 1933, 1934, 1935 og svo enn einu sinni 1938. Að auki unnu Skytturnar F.A. bikarinn 1930 og 1936. Everton lét líka til sín taka með Dixie Dean í broddi fylkingar. Reyndar varð liðið í neðsta sæti deildarinnar og féll vorið 1930 en fór strax upp aftur og varð enskur meistari 1932 og bikarmeistari vorið eftir. Everton varð svo aftur enskur meistari 1939. En það gekk upp og niður hjá hinum rauðklæddu nágrönnum þeirra.

Forráðamenn Liverpool drógu upp seðlaveskið í janúar 1930 og keyptu skoska miðvörðinn Tom "Tiny" Bradshaw frá Bury fyrir átta þúsund sterlingspund. Þetta var á þeim tíma fjórða hæsta verð sem greitt hafði verið fyrir leikmann. Tom var jafnan kallaður "Naggur" en hann var allt annað en smávaxinn. Tom var stór og gríðarlega sterkur varnarmaður. Hann lék í hinum fræga landsleik er Skotar sigruðu Englendinga 5-1 á Wembley og var því einn af "Wembley-undradrengjunum" (Wembley Wizards) eins og þeir Skotar voru kallaðir sem tóku þátt í þessum frábæra leik. Skotar áttu marga góða leikmenn sem léku sömu stöðu og Bradshaw á þessum tíma og því reyndist þessi sögulegi leikur eini landsleikur hans á ferlinum. Bradshaw þjónaði félaginu dyggilega í 9 ár, lék alls 291 leik, og er minnst sem eins besta miðvarðar í sögu Liverpool.

Versta tap Liverpool á Anfield Road í sögunni átti sér stað í apríl 1930 þegar Sunderland vann 6:0. Liverpool hafnaði í tólfta sæti þetta vor. Skrautlegast var þó kannski tímabilið 1930/31 þegar liðið vann stórsigra og tapaði illa inn á milli. Frammistaða liðsins var alltof sveiflukennd ólíkt formi Gordon Hodgson sem skoraði, eins og fyrr sagði, hvorki fleiri né færri en 36 mörk. Hann skoraði alls fjórar þrennur og eina fernu á leiktíðinni. Gordon sló þar með markamet Sam Raybould frá 1903, sem skoraði þá 31 mark í deildinni. Liverpool endaði þrátt fyrir öll mörkin einungis í níunda sæti. Á næstu sparktíð hafnaði Liverpool í tíunda sæti. Eftirminnilegasti leikur leiktíðarinnar var líklega gegn Everton í 3. umferð F.A. bikarsins. Mikill áhugi var á leiknum og 57.000 áhorfendur mættu á Goodison Park. Everton stefndi í sigur í deildinni og Dixie Dean kom þeim Bláu yfir á fyrstu mínútu leiksins. Liverpool jafnaði fimm mínútum fyrir hálfleik og það var svo markakóngurinn Gordon Hodgson sem tryggði þeim Rauðu sigur fjórum mínútum fyrir leikslok. Í kjölfarið á þessum sigri átti Liverpool sína bestu rispu í bikarkeppninni á þessum áratug en féll út í átta liða úrslitum þegar Chelsea vann 2:0 á Anfield Road. Leiktíðin endaði með skelfingu. Á lokadegi hennar varð mettap staðreynd þegar Bolton vann Liverpool 8:1 á heimavelli sínum. Leiktíðina 1932/33 var tíunda sætið hlutskipti Liverpool og enn var það leikur gegn Everton sem stóð upp úr. Everton voru þá ríkjandi meistarar og komu í heimsókn á Anfield Road þann 11. febrúar. Sem fyrr var vel mætt á nágrannaslagina og 50.000 áhorfendur keyptu sig inn á Anfield. Meistararnir fengu að finna fyrir því og Liverpool vann 7:4 sigur í ótrúlegum leik. Harold Barton skoraði þrennu og aldrei hafa fleiri mörk verið skoruð í einum leik milli þessara fornu keppinauta.

Goðsögnin Elisha Scott, þá 39 ára að aldri, kvaddi vorið 1934 eftir 22 ára þjónustu og 467 leiki sem var leikjamet hjá Liverpool þangað til Billy Liddell sló það í nóvember 1957. Þetta er ótrúlegur leikjafjöldi því á þessum árum var aðeins keppt í deildarkeppninni og F.A. bikarnum. Deildarbikarinn og Evrópumótin komu löngu síðar til sögunnar. Elisha hélt hreinu í hélt hreinu í 126 leikjum af 467. Hann kom til Liverpool árið 1912 og lék alls átján leiktíðir með liðinu. Hann eins og fleiri missti úr fimm leiktíðir á meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir. Landsleikjaferill Elisha stóð frá 1920 til 1936 og hann var 42 ára þegar hann lék sinn síðasta landsleik. Hann var ekki mjög hávaxinn af markverði en hæðin kom ekki í veg fyrir að hann væri stórkostlegur markvörður. Dómgreind hans var góð og hann lét samherja sína heyra það ef hann taldi þörf á. Einum varnarmanna hans var alls ekki vel við við munnsöfnuð hans. James Jackson skammaði Scott ef svo bar undir í miðjum leik fyrir að blóta svona mikið. James stundaði nám, með knattspyrnuiðkun sinni, í guðfræði og vígðist síðar til prests hjá réttrúnaðarkirkjunni. Guð má vita hvað honum barst til eyrna þegar Scott mætti markamaskínunni Dixie Dean í Everton en hann og Scott voru svarnir óvinir á velli. Dixie fór jafnan mikinn gegn Liverpool og skoraði nítján mörk gegn þeim Rauðu í aðeins sautján leikjum. Elisha og Dixie voru báðir goðsagnir í lifandi lífi á Merseybökkum á þessum árum. Utan vallar kom þeim prýðilega saman og Dean mat mótherja sinn mikils: "Ég hef leikið gegn mörgum sterkum markvörðum í gegnum tíðina en Elisha var sá besti."

Aðdáun stuðningsmanna Liverpool var engu lík og á afmælisdegi Liverpool, 15. mars 1924 bar einstæðan atburð fyrir á Anfield Road. Blackburn Rovers var þá í heimsókn og endaði leikurinn markalaus. Í leiknum átti leikmaður gestanna bylmingslangskot að marki Liverpool sem Elisha varði meistaralega í horn. Einn stuðningsmaður Liverpool stökk þá inn á völlinn, hljóp að markverðinum frábæra og smellti kossi á kinnina á honum sem þakklæti fyrir tilþrifin. Andrúmsloftið á Anfield var þrungið spennu þann 2. maí 1936 er Scott kvaddi. Liverpool lagði Manchester City að velli 3:2. Elisha lék ekki þennan kveðjuleik sinn, eins og allir höfðu vonast eftir. Hann hafði þó leikið tíu leiki á leiktíðinni en á leiknum var hann sérstakur gestur stjórnar Liverpool og sat í heiðursstúkunni. En hann ávarpaði hina dyggu stuðningsmenn sína í leikslok og sögðu sjónarvottar síðar að fullorðnir karlmenn hefðu fellt ófá tár. Sama ár hafði boðið Everton 250 sterlingspund í kappann. Þetta tilboð spurðist út og lesendabréfum frá æstum aðdáendum Liverpool rigndi til staðarblaðanna í borginni. Vegna viðbragða stuðningsmanna Liverpool varð ekkert af kaupunum. Elisha hélt á heimaslóðir og tók við hjá Belfast Celtic sem spilandi framkvæmdastjóri. Arthur Riley sem kom frá Suður Afríku með Gordon Hodgson á sínum tíma tók nú alfarið við markvarðarstöðunni. Hann þótti góður markvörður og lék alls 338 leiki með félaginu fram að stríðinu er hann var orðinn 35 ára.

Nýtt áhorfendamet var sett á Anfield Road á leiktíðinni. Nágrannaliðin Liverpool og Tranmere Rovers drógust saman í 4. umferð F.A. bikarins. Þá höfðu liðin aldrei leikið áður saman í opinberri keppni. Tranmere drógst á heimavelli en samkomulag varð um að spila á Anfield Road. Hvorki fleiri né færri en 61.036 áhorfendur tróðu sér inn á Anfield þann 27. janúar 1934 og borguðu 4.007 sterlingspund í aðgangseyri.  Enn er þetta næstmesti áhorfendafjöldi á Anfield Road. Norður-Írinn með enska nafnið Sam English kom Liverpool yfir á 17. mínútu en sex mínútum síðar jafnaði Everton. Hægri kantmaðurinn Berry Nieuwenhuys kom Liverpool yfir á 33. mínútu og Sam gulltryggði sigurinn fimm mínútum fyrir leikslok. Eitt eftirminnilegasta atvikið í leiknum var þegar, vinstri kantmaðurinn og pípulagningamaðurinn, Alf Hanson lenti í hörðu samstuði við einn leikmanna Rovers og skutlaðist út á meðal áhorfenda á The Kop. Það þurfti hálfpartinn að grafa hann upp úr mannhafinu. Þeir Berry og Alf voru, á þessum árum, mjög góðir á sitt hvorum kantinum og lögðu upp mörg mörk fyrir Gordon Hodgson. Sam English, sem skoraði tvö mörk í þessum leik, var frábær leikmaður sem var keyptur frá Glasgow Rangers fyrir tímabilið. Hann hafði slegið félagsmet Rangers leiktíðina áður er hann skoraði 44 mörk en sorglegt atvik í leik Glasgow-risanna hvíldi sem skuggi yfir ferli hans. Samstuð English við markvörð Celtic og skoska landsliðsins, John Thomson, varð þess valdandi að Thomson lést af völdum höfuðáverkanna. Skoskir knattspyrnuáhangendur kenndu English um þetta hræðilega slys og hann sá sér ekki aðra leið færa en að flýja suður yfir landamærin. English skoraði 21 mark í 31 leik fyrsta tímabil sitt fyrir Liverpool en aðeins 6 mörk í 19 leikjum það næsta sem reyndist lokatímabil hans hjá Liverpool. English þurfti að flýja á ný vegna þess að honum var ekki unnt að einbeita sér að knattspyrnunni vegna áhangenda sem ofsóttu hann enn útaf atvikinu í Skotlandi.

Versti dagur þessarar slæmu leiktíðar var Nýársdagur 1934. Liverpool tapaði þá 9:2, sem var jöfnun á mettapi, fyrir Newcastle á útivelli. Það ótrúlegasta við þennan leik var það að staðan var 2:2 í hálfleik. Ef til vill hefur nýársgleðin farið að segja til sín í síðari hálfleik. Liverpool endaði í átjánda sæti og sýnt var að ef breytingar yrðu ekki á gengi liðsins þá myndi fall í aðra deild ekki vera langt undan. Reynt var að bregðast við á árinu 1934 með því að styrkja vörn liðsins með kaupum á báðum bakvörðum enska landsliðsins. Í mars var vinstri bakvörðurinn Ernie Blenkinsop keyptur frá Sheffield Wednesday og í desember kom hægri bakvörðurinn Tom Cooper frá Derby. Tom hafði verið fyrirliði Derby og enska landsliðsins og gegndi þeirri stöðu um tíma hjá Liverpool en hvorugur lék landsleiki eftir að þeir komu til Liverpool. Nýr kafli í sjálfstæði Liverpool var líka skrifaður í orðsins fyllstu merkingu þetta ár. Félagið hóf þá að gefa út sína eigin leikskrá sem lengst af bar nafnið Anfield Review. Áður hafði félagið gefið úr sameiginlega leikskrá með Everton.

TIL BAKA