Bill Shankly
Tímabilið 1961-62 var Shankly búinn að setja sinn stimpil á liðið. Shankly keypti framherjann Ian St John frá Motherwell og hinn risavaxna miðvörð Ron Yeats frá Dundee og boltinn fór loks að rúlla. Shankly hafði haft augastað á þeim lengi vel en stjórn Liverpool var ekki á þeim buxunum að gefa honum nægilegt fjármagn til kaupana. Þegar nýr fjársterkur aðili kom inn í stjórnina var öllum hindrunum rutt úr vegi. Shankly sór þess dýran eið við stjórn félagsins að ef þeir myndu kaupa þá myndu þeir færa félaginu 2. deildartitillinn og hið langþráða 1. deildarsæti. St. John sló strax í gegn hjá Liverpool er hann skoraði þrennu gegn Everton eftir aðeins vikudvöl á Anfield. Þessi framganga olli miklum titringi í Liverpool: "Hver yrðu viðbrögð þín ef Kristur kæmi til Liverpool?" var ritað á krítartöflu utan við kirkju þar í borg alls óskylt tilvísunum í fótbolta en það stóð ekki lengi á svari frá aðdáendum Liverpool: "Setja St. John í stöðu vinstri innherja og Krist á kantinn". Meðaltal áhorfenda á Anfield hækkaði úr 29.000 í 39.000 og Liverpool tapaði ekki á heimavelli þetta tímabil en það hafði ekki gerst í 55 ár. Liðið vann 2. deildina með glæsibrag. Hunt skoraði 41 mark í deildinni og stendur það met enn óhaggað. Sú mikla vinna sem Shankly hafði lagt að mörkum bak við tjöldin var nú að skila sér. Liverpool var komið aftur á meðal þeirra bestu og gerði sér að góðu 8. sætið fyrsta tímabilið. Hunt og St. John voru iðnir við kolann sem fyrr og skoruðu alls 43 mörk. Liverpool hafði ætíð skort sterkan vinstri innherja síðan Liddell var og hét en Peter Thompson reyndist happadrjúg kaup frá Preston og púsluspil Shankly gekk upp.
Árið 1964 varð fyrsta Englandsmeistaralið Shankly að veruleika: Tommy Lawrence, Ronnie Moran, Gerry Byrne, Ron Yeats, Willie Stevenson - Gordon Milne, Jimmy Melia/Alf Arrowsmith, Ian Callaghan, Peter Thompson - Ian St John og Roger Hunt. Shankly hafði tekist á tæpum fimm árum að gera lið sem sat sem fastast í 2. deild að Englandsmeisturum.
Liðið var nú komið í Evrópukeppnina í fyrsta sinn og alveg tilvalið að fyrstu andstæðingar þeirra reyndust vera K.R. frá litla Íslandi. Liðið komst alla leið í undanúrslit en beið lægri hlut fyrir Inter Milan eftir að hafa lagt þá að velli 3-1 á Anfield. Dómarinn þótti sýna fremur dularfulla dómgæslu og ljóst var einhver hefði kippt í spotta sem urðu þess valdandi að framganga Liverpool í Evrópu var ekki lengri að þessu sinni. Liverpool fór alla leið í bikarkeppninni og lagði Leeds að velli í úrslitunum. Liverpool lék í rauðum skyrtum en í stað hvítra buxna, eins og venja þeirra var að spila í, voru þeir í rauðum buxum og frá þeirri stundu lék Liverpool í alrauðum búning. Liverpool náði einungis sjöunda sæti í deildinni og fengu á sig 73 mörk og Shankly lagði áherslu á fyrir næsta tímabil að þétta varnarleikinn. Það gekk eftir og þurftu liðsmenn Liverpool aðeins að hirða boltann 34 sinnum úr netinu hjá sér, 39 mörk færri en árið áður, ekki slæmur árangur það. Meðaláhorfendafjöldi á Anfield var kominn upp í 50.000 og meistaratitillinn kominn aftur heim. Liverpoolliðið virkaði þreytulegt á næsta tímabili eftir alla velgengnina á undanförnum árum. Emlyn Hughes var keyptur og Ray Clemence kom um hálfu ári síðar en allt kom fyrir ekki. Margir burðarásanna í liðinu voru ekki eins sterkir og áður og Shankly þurfti að taka erfiðar ákvarðanir. Hann gat einnig kennt sjálfum sér um að hafa ekki endurnýjað liðið jafnt og þétt. Gordon Milne og Willie Stevenson fengu bestu þakkir fyrir vel unnin störf en nú væri tími til kominn að leiðir skildu. Keppnistímabilið 67/68 reyndist frekar misheppnað, 68/69 lenti Liverpool í 2. sæti, en 69/70 var ekkert til að hrópa fyrir og stjörnurnar í meistaraliði Shanks Roger Hunt, Ian St John og Ron Yeats voru búnar að vera. Steve Heighway og John Toschack komu inn í liðið og stuðningsmenn þóttust sjá snöggtum batamerki á leik liðsins. Liðið komst í undanúrslit UEFA Cup og í úrslit F.A. Cup en tapaði þar fyrir Arsenal sem vann tvennuna, deild og bikar tímabilið 70/71.
Í maí 1971 gerði Shanks ein mikilvægustu kaup sín fyrr og síðar þegar hann greiddi 33.000 pund til Scounthorpe fyrir strák að nafni Kevin Keegan. Kappinn sá lék á miðjunni en Ronnie Moran og Bill Shankly sáu fljótt að að hann var ekki í réttri stöðu og færðu hann í framlínuna. Toshack og Keegan náðu vel saman frammi tímabilið 71/72 og Liverpool átti séns á titlinum fram á síðasta leikdag. Derby hafði lokið leikjum sínum með 58 stig en Leeds var með 56 stig og Liverpool með 55 stig og betra markahlutfall en Derby. Leeds tapaði en Liverpool tókst ekki að skora gegn Arsenal og leikmenn Derby fögnuðu titlinum er þeir voru staddir á bar í Mallorca! Leikmenn Liverpool voru óstöðvandi á næsta tímabili. Liðið fór í efsta sæti 24. september og hélt því sæti allt til loka tímabilsins. Liðið fagnaði svo glæsilegum sigri gegn Mönchengladbach í úrslitaleik Evrópukeppni félagsliða. Shankly var loks valinn framkvæmdastjóri ársins í fyrsta skipti en þótti með ólíkindum að honum hafði ekki verið veitt sú virðulega viðurkenning fyrr. Tímabilið 73/74 ógnaði Liverpool aldrei Leeds að neinu ráði í efsta sætinu og annað sætið hlutskipti félagsins. Úrslitaleikurinn í F.A. Cup verður lengi í minnum hafður og ekki síst aðdragandi leiksins. Kevin Keegan segir frá: "Daginn fyrir úrslitaleikinn sátu allir leikmennirnir saman á hótelinu og horfðu á viðtal við Shanks og Joe Harvey framkvæmdastjóra Newcastle í beinni útsendingu í breska ríkissjónvarpinu. Shankly var mjög öruggur með sig en Joe sem kom nú oftast vel út í sjónvarpinu virtist í uppnámi. Þegar Shankly hélt að viðtalið væri búið sneri hann sér að sessunaut sínum og sagði: "Guð minn góður. Sjáðu, Joe er ein taugahrúga. Hann er þegar búinn að tapa". Orð Shankly heyrðust greinilega í útsendingunni og við trylltumst af hlátri". En þetta voru orð að sönnu og Liverpool rústaði Newcastle 3-0 og höfðu aðrir eins yfirburðir ekki sést á Wembley í háa herrans tíð.