Joe Fagan
Joe fæddist í Liverpool þann 12. mars 1921. Eftir að hann hóf að leika knattspyrnu reyndi hann fyrir sér hjá Liverpool en George Kay framkvæmdastjóri liðsins taldi hann ekki nógu góðan. Joe komst loks að hjá Manchester City og hóf að leika með þeim eftir seinni heimsstyrjöldina. City var þá í annari deild en Joe varð 2. deildarmeistari með félaginu 1947. Joe var harðskeyttur varnarmaður sem gaf ekki neitt eftir. Leikferli hans meðal þeirra bestu lauk eftir fótbrot og 1951 yfirgaf hann City. Hann lék næst sem spilandi framkvæmdastjóri hjá utandeildarliðinu Nelson. Ferlinum lauk svo með nokkrum leikjum hjá Bradford Park Avenue. Árið 1953 hóf Joe að þjálfa hjá Rochdale og þar var hann næstu fimm árin.
Árið 1958 fékk Joe loks starf á Anfield Road. Þar var starfsvettvangur hans næstu 27 árin. Joe var fyrst þjálfari varaliðsins og var í því starfi þegar Bill Shankly kom til félagsins í desember 1959. Bill var mjög ánægður með Joe og lagði áherslu á að hann yrði áfram hjá félaginu. Bill kannaðist við Joe frá fornu fari af góðu einu og þegar Bill var framkvæmdastjóri hjá Grimsby reyndi hann að kaupa Joe sem þá var ennþá leikmaður til liðsins. Joe varð einn af skóherbergisdrengjunum (Boot Room Boys) og átti frama vísan þar sökum hæfileika sinna. Árið 1966 var Joe gerður að þjálfara aðalliðsins og varð þar með hægri hönd Bill Shankly. Um tíma þjálfaði Joe son sinn Chris hjá félaginu. Hann var varnarmaður eins og pabbi en lék einungis einn leik með aðalliðinu vorið 1971 í 2:2 jafntefli gegn gamla félagi pabba á Maine Road. Það var svo árið 1979 sem Joe var enn hækkaður í tign og var gerður að aðstoðarframkvæmdastjóra.
Árið 1983 tók Fagan við af Bob Paisley þegar meistarinn settist í helgan stein og allt gekk gjörsamlega upp fyrir nýja framkvæmdastjórann á fyrra tímabilinu sínu. Liverpool vann titilinn þriðja árið í röð og jafnaði afrek Huddersfield frá þriðja áratugnum og Arsenal frá fjórða áratugnum. Everton var lagt af velli í deildarbikarnum í annarri tilraun eftir að fyrri leikurinn hafði endað markalaus. Deildarbikarinn vannst þar með fjórða árið í röð. Stærsta stund á stuttum framkvæmdastjóraferli Fagan beið handan við hornið. Úrslitaleikur við AS Roma í Evrópukeppni Meistaraliða á þeirra eigin heimavelli. Undirbúningur fyrir leikinn var stuttur og laggóður, Souness fyrirliði tekur upp þráðinn: "Við fengum okkur hádegisverð og þegar honum var lokið bað Fagan þjónana að víkja augnablik úr salnum og sagði síðan: "Leikurinn í kvöld… þetta er augljóslega gott lið. Þeir voru meistarar á síðasta tímabili og eru nú komnir í úrslitaleikinn… en þeir eru ekki jafngóðir og við!". Fagan tók sjálfsagt þar blað úr bók Shankly með tilliti til hvatningarræðu fyrir leik að hafa ekki of miklar áhyggjur af andstæðingunum heldur láta þá hafa áhyggjur af okkur. En svo mörg voru þau orð og Evrópumeistaratitillinn vannst í fjórða sinn eftir hörkuspennandi vítaspyrnukeppni. Joe var kosinn framkvæmdastjóri ársins og allt í lukkunnar velstandi. Hann ritaði jafnframt nafn sitt í sögubækur er hann varð fyrsti framkvæmdastjóri á Englandi til að vinna þrjá stórtitla á sömu leiktíðinni og þarft að minna á það núna þegar sífellt er verið að tala um árangur Alex Ferguson. Það má sjálfsagt segja sem svo að Fagan hafi erft liðið og velgengni þess frá Paisley en ekki skal taka frá honum þann árangur sem liðið gat státað af.