Joe Fagan
Það var ljóst að erfitt yrði eins og jafnan þegar allt gengur upp að fylgja þessu afreki eftir og ekki bætti úr skák að fyrirliðinn Graeme Souness var búinn að yfirgefa Anfield fyrir Sampdoria og skildi eftir sig stórt skarð. Joe Fagan tók fram budduna og Paul Walsh var keyptur frá Luton á 750.000 pund og Jan Molby frá Ajax á 225.000 pund. Fagan styrkti liðið síðar á tímabilinu með varnarmönnunum Jim Beglin frá Shamrock Rovers og Gary Gillespie frá Coventry og loks miðjumanninum Kevin McDonald frá Leicester. Enginn þeirra leikmanna sem Fagan keypti á tímabilinu vann sér fast sæti í liðinu og var því þáttur þeirra ekki veigamikill en John Wark sem Fagan keypti í mars 1984 endaði sem markahæsti leikmaður Liverpool á leiktíðinni. Liverpool byrjaði tímabilið alls ekki vel og 27. október var liðið í 20. sæti af 22 (2 sigrar - 5 jafntefli - 4 töp) en sjálfsagt var meginástæðan sú að Ian Rush var meiddur og greinilegt að Liverpool mátti illa við því að vera án Rush og Souness tveggja lykilmanna liðsins síðastliðin tímabil. Þann 1. desember var liðið komið í 10. sæti og lá leiðin upp á við þar til öðru sætinu var náð en nágrannarnir Everton unnu titillinn með yfirburðum.
Evrópumeistararnir komust aftur í úrslit keppninnar og hafði Fagan ákveðið að þetta yrði sinn síðasti leikur við stjórnvölinn. En fótboltabullur rústuðu úrslitaleiknum á Heyselleikvanginum. Þegar Fagan kom aftur til Liverpool frá Brussel og steig út úr flugvélinni, brast hann í grát og hallaði sér að Roy Evans. Glæstum ferli hans hjá Liverpool var lokið en ekki á þeim nótum sem hann hafði hugsað sér heldur á einum versta degi í sögu félagsins. Þegar Fagan var ráðinn sem framkvæmdastjóri sagði hann stjórnarmönnum Liverpool að hann vildi starfið bara í tvö tímabil: "Ég vildi gefa þeim nægan tíma til þess að finna eftirmann. Þetta er ekki 8 klukkustunda vinnutími, þetta er allan sólarhringinn og maður á engrar undankomu auðið frá starfinu. Maður getur ekki látið þrýstinginn hverfa sem maður er undir þegar maður vaknar á morgnana. Ég hef fylgst með Harry Catterick, Bill Shankly og Bob Paisley lifa með þessari pressu".
Pressan á framkvæmdastjórann var gríðarleg, gegndarlausi þorsti í meiri velgengni, stanslaust í sviðsljósinu, kaupa og selja leikmenn, taka ákvarðanir, Liverpool var gríðarlegt bákn sem erfitt var að hafa stjórn á og Fagan fékk sinn skerf. Mark Lawrenson tók eftir því að starfið tók sinn toll: "Hann virtist gamall maður en hann hafði ætíð verið nokkur unglegur í útliti og anda. Hann naut ekki starfsins lengur á öðru ári sínu með liðið. Joe átti í erfiðleikum sem hófust löngu áður en harmleikurinn á Heysel átti sér stað".
Joe Fagan gat samt litið sáttur tilbaka á feril sinn hjá Liverpool: "Ég mun ætíð telja mig hafa notið ákveðinna forréttinda að hafa verið framkvæmdastjóri Liverpool. Þeir hræðilegu atburðir sem áttu sér stað daginn er ég hætti störfum varpa ekki skugga á þá staðreynd því að ég minnist svo margra gleðistunda sem fótboltinn og mín langa dvöl hjá Liverpool hefur veitt mér".
Tommy Smith minnist þjálfara síns hjá Liverpool: "Joe Fagan á mikið lof skilið fyrir vinnu sína í þágu Liverpool Football Club. Hann átti mikinn þátt í að móta feril minn hjá Liverpool. Ég var búinn að vera tvö ár hjá félaginu þegar ég skrifaði undir atvinnumannasamning 5. apríl 1962. Ég fékk fyrst að kynnast sterkri skapgerð hans þegar ég var staddur inn í búningsherbergi Liverpool á Anfield. Ég var þar ásamt nokkrum strákum sem áttu eftir að brjóta sér leið í atvinnumennsku og þurftu því enn að sinna skylduverkum sínum á Anfield. Ég var á leiðinni til Bill Shankly að skrifa undir samninginn þegar þeir báðu mig um að hjálpa sér að taka til í búningsherberginu. Ég harðneitaði því enda orðinn atvinnnumaður. Ég tók ekki eftir því að Joe Fagan var rétt fyrir utan dyragættina og heyrði til mín. Ég var á leið út úr búningsherberginu þegar ég sá að Fagan stóð allt í einu í vegi fyrir mér. Hann þurfti ekki mörg orð til að láta tilfinningar sínar í ljós, það var nóg að sjá svip hans. Ég labbaði álútur út og skrifaði undir samninginn. Ég gat hins vegar ekki þurrkað svipbrigðin á Joe úr huga mér. Ég flýtti mér til búningsherbergisins og sópaði gólfið. Joe var inni í herberginu og kinkaði kolli til mín og ég brosti til hans. Ég hafði lært mína fyrstu lexíu hjá Joe án þess að orð hafði verið mælt af vörum."
"Það er enginn einstaklingur mikilvægari en annar hjá félaginu. Leikmenn voru keyptir til félagsins á stórfé og höfðu kannski 50 landsleiki að baki en viðkomandi var aldrei leyft að komast upp með einhver látalæti. Ef einhver hagaði sér þannig þá voru Joe Fagan og Bob Paisley ekki seinir á sér að skamma þig. Joe var heiðarlegur og ekkert virtist skjóta honum skelk í bringu. Hann brotnaði niður eftir Heysel-slysið. Hann gat ekki skilið hvernig svona gat átt sér stað á knattspyrnuvelli. Joe var boðið mikið fé til að tjá sig í blöðum um atburðina á Heysel-leikvangnum en hann harðneitaði að ræða við fjölmiðla. Það sýnir öðru fremur hversu mikið hann tók þennan atburð nærri sér. Enn og aftur lét hann tilfinningar sínar glöggt í ljós án þess að segja aukatekið orð."
"Joe var mikill húmoristi. Þegar ég sé leikmenn nú til dags hálfáhugalausa úti á vellinum með annað augað á boltanum og hitt á ávísanaheftinu þá hugsa ég til þess þegar árvökul augu Shankly, Paisley og Fagan í varamannskýlinu sáu til þess að enginn hafði efni á að gefa tommu eftir. Ég man eftir einum leik gegn spænsku áhugamannaliði á Spáni út á Benidorm í sumarleyfinu okkar. Fullt að áhorfendum voru mættir til að sjá hið fræga lið Liverpool en lengst framan af þá gekk ekkert upp hjá okkur. Við vorum ekki með hugann við leikinn og ég gat séð útundan mér að Joe var orðinn reiðari og reiðari á hliðarlínunni. Hans rökhyggja var sú að þú gafst allt í hvern einasta leik sama hverjir andstæðingarnir voru. Eftir 20 mínútna leik þá kallaði til mín: "Komdu slagsmálum af stað, Smithy." "Hvað sagðirðu Joe?". "Leystu þetta upp í slagsmál", endurtók Joe. Ég skildi skilaboðin og þegar boltinn kom næst í námunda við framherja þeirra þá óð ég í hann. Spánverjarnir öskruðu og skömmuðust og áhorfendur tóku við sér. En við tókum líka við okkur. Blóði var farið að ólga og Joe var búinn að ná fram ætlun sinni. Við völtuðum yfir þá. Joe var brosandi. Enn einu sinni hafði ég lært lexíu hjá Joe."
"Ég leit á hann sem föður. Joe vildi halda einkalífi sínu útaf fyrir sig og var ekki hrifinn af því að blaðamenn væru að sniglast í kringum hann eða fjölskyldu sína. Fyrrverandi leikmenn Liverpool hittust eigi alls fyrir löngu til að heiðra Joe og þangað mætti hann. Hann var jafnmikil goðsögn í lifanda lífi eins og leikmennirnir en hógværð hans var einstök."
Kenny Dalglish tók við af Joe Fagan sem framkvæmdastjóri Liverpool sumarið 1985. Kenny segir svo um Joe: "Joe lagði gríðarmikið af mörkum til velgengni Liverpool. Hann vann þrjá titla á fyrstu leiktíð sinni sem framkvæmdastjóri. Ég hef þá skoðun að hann hafi aldrei fengið þá viðurkenningu sem hann átti skilið fyrir það afrek. Að vinna Þrennuna var gríðarlegt afrek. Enski meistaratitillinn, Evrópubikar meistaraliða og Deildarbikarinn. Hvað þarf meira að segja. Joe var hlédrægur fjölskyldumaður. Hann sóttist aldrei eftir athygli og reyndar sagði hann einu sinni að hann hefði alveg viljað vera laus við að verða framkvæmdastjóri Liverpool. Hann tók starfið að sér vegna þess að það var vilji félagsins. Hann var allt öðruvísi en þeir Bill Shankly og Bob Paisley en áhrif hans voru mikil. Hann var hjá Liverpool þegar Bill kom til starfa og verður ætíð mikilvægur hluti af glæstri sögu Liverpool."
Ron Yeats fyrrum fyrirliði Liverpool: "Joe var indæll maður sem mun ætíð eiga víst sæti í sögu Liverpool fyrir hæfni sína sem afburða þjálfari og sá framkvæmdastjóri sem fyrstur vann Þrennu. Það afrekaði hann á sinni fyrstu leiktíð eftir að hafa tekið við af Bob Paisley. Joe var afburða fagmaður. Þegar þeir Bob og Bill voru búnir að lesa yfir okkur kom Joe og hughreysti okkur með því að veita okkur sjálfstraust að nýju. Jafnframt hélt hann okkur á jörðinni ef á þurfti að halda. Joe var samt ákveðinn og það braut enginn gegn vilja hans. Samt var hann hæglátur og jarðbundinn. Joe var mjög hreinskiptinn maður. Hann vann gríðarlega mikið og mikilvægt starf á bak við tjöldin."
Roy Evans lýsti honum fullkomlega: Ég vil ekki að neinn mistúlki þetta en ég hef aldrei séð einn einasta einstakling, meðtaldir Bill Shankly og Bob Paisley, ávinna sér eins mikla virðingu bæði innan félagsins og utan þess."