Ian Rush

Ian átti í erfiðleikum í fyrstu og greinilegt að hann var ekki í fljúgandi formi sem mátti að hluta til rekja til veikinda sem hann þurfti við að glíma á Ítalíu og sjálfstraustið var ekki upp á marga fiska. Það var ekki fyrr en í janúar sem menn fóru að sjá til gamla góða Rush þegar hann skoraði í 3 leikjum í röð en varð þá fyrir því óhappi að meiðast og hnéuppskurður þýddi að hann var frá í tvo mánuði. Hann var varamaður í síðustu leikjum tímabilsins en innáskipting hans í úrslitaleiknum gegn Everton í bikarkeppninni skipti heldur betur sköpum. Ian kom inná seint í síðari hálfleik fyrir John Aldridge og fór á kostum. Þá var Liverpool með forystu eftir að John Aldridge skoraði á fyrstu mínútum leiksins. Stuart McCall jafnaði leikinn en Ian kom Liverpool yfir með fallegu marki eftir að hafa snúið sér við í teignum og þrumað í markið. Hann sló jafnframt markamet Dixie Dean út í hafsauga. Everton var búinn að fá nóg af kappanum í gegnum árin en það var ekki allt búið enn. Everton lét sér ekki segjast og Stuart jafnaði aftur á lokamínútunni. Framlenging var staðreynd en Ian var ekki hættur og bætti öðru marki við og tryggði Liverpool sigur 3:2 með hárnákvæmum skalla neðst í bláhornið. Landar hans og vinir þeir Neville Southall og Kevin Ratcliffe trúðu ekki að martröðin væri byrjuð aftur. Ian varð þar með fyrstur manna til að skora tvisvar tvö mörk í úrslitaleik F.A. bikarsins. John Aldridge gat ekki annað en dáðst að kollega sínum: "Hann var einfaldlega frábær, þú getur aldrei afskrifað þennan mann. Hann hefur snúið til baka og svarað gagnrýnisröddum með tveimur frábærum mörkum."

 Ian var í byrjunarliðinu í stað John Aldridge í byrjun næsta tímabils en mörkin létu aðeins á sér standa til að byrja með: "Gagnrýnisraddir segja að ég sé undir pressu þar sem ég hef ekki skorað í fyrstu þrem leikjunum á keppnistímabilinu. Ég hef verið mjög ánægður með form mitt hingað til og verð betri með hverjum leik. Mikilvægast af öllu er að liðið leikur vel. Auðvitað vildi ég hafa skorað nokkur mörk en ég hef ekki verulegar áhyggjur af þessu ástandi. Mörkin munu koma þegar fram líða stundir. Sú staðreynd að Kenny Dalglish hefur valið mig ævinlega í byrjunarliðið hlýtur að segja eitthvað um hvernig ég hef verið að leika. Hefði hann látið mig á bekkinn og Aldridge byrjað inná þá hefði ég haft áhyggjur. Ef þú skorar ekki hrúgu af mörkum í upphafi tímabils þá halda allir því fram að þú sért ekki sá leikmaður sem þú varst einu sinni. En ég set jafnan markið hátt og ég get fullvissað alla um að ég er betri alhliða leikmaður en ég var áður en ég fór til Ítalíu. Um leið og mörkin fara að flæða inn þá mun mér líða betur en á meðan liðinu vegnar vel skiptir það ekki máli." Svo mörg voru þau orð og hann fylgdi orðum sínum svo sannarlega á eftir er hann skoraði 6 mörk í næstu 5 leikjum. John Aldridge fékk ekki tækifæri sem var vissulega umdeild ákvörðun þar eð hann hafði verið markahæsti leikmaður síðustu tvö tímabil en traust Dalglish á félaga sínum var 110%. John hrökklaðist á braut til Real Sociedad á Spáni þar sem hann raðaði inn mörkum. Ian brást ekki traustinu og lauk tímabilinu markahæstur með 26 mörk og endurheimti deildarmeistaratitillinn en óvænt 3-4 tap gegn Crystal Palace í undanúrslitum bikarsins kom í veg fyrir tvennuna þetta árið.

Roger Hunt hin gamla markamaskína var ekki í nokkrum vafa um að Rush var jafngóður leikmaður og hann var fyrir dvöl hans á Ítalíu: "Það tók hann smátíma að ná áttum en nú er hann eins beittur og áður. Hann er sá besti í boltanum í dag og markafjöldi hans segir sína sögu. Boltinn er hraðari nú en hann var um mína daga og varnirnar þéttari. Hann hefði örugglega skorað fleiri mörk hefði hann verið að spila þegar ég var upp á mitt besta og því afrek hans meira en mitt en raun ber vitni."

Ian gaf ekkert eftir í markaskorun en næsta tímabil rann út í sandinn eftir að Kenny Dalglish sagði af sér í febrúar 1991. Graeme Souness tók við en annað sætið á eftir Arsenal varð staðreynd í deildinni. Ian meiddist snemma á næstu leiktíð og hann eins og margir lykilmenn Liverpool misstu mikið úr. En Liverpool komst í úrslit F.A bikarsins vorið 1992 á aldarafmæli félagsins. Ian var loksins búinn að ná sér eftir meiðsli og lék í úrslitunum gegn Sunderland. Stuttu fyrir úrslitaleikinn tókst honum loks að skora gegn Manchester United. Liverpool vann 2:0 á Anfield og United missti af titlinum til Leeds. Í úrslitaleiknum skoraði Michael Thomas glæsimark í upphafi síðari hálfleiks og Ian gulltryggði sigurinn með marki eftir snarpa sókn. Þar setti kappinn met með sínu fimmta marki í úrslitaleik F.A. bikarsins.

TIL BAKA