Ian Rush

Næstu tvær leiktíðir voru erfiðar. Liverpool gekk ekki vel undir stjórn Souness. Þann 18. október 1992 sló Ian markamet félagsins sem Roger Hunt átti. Ian skoraði í 2:2 jafntefli gegn Manchester United á Old Trafford og þar með varð 287. mark hans fyrir Liverpool staðreynd. Graeme lét sig hafa það að setja Ian nokkrum sinnum á varamannabekkinn en þangað hafði hann aldrei verið settur nema vegna meiðsla eftir að hann vann sér fyrst fast sæti í liði Liverpool. En Ian svaraði jafnan með mörkum þegar hann kom aftur við sögu. Graeme vildi þó halda Ian og gerði hann að fyrirliða haustið 1993 til marks um traust sitt á kappanum. Haustið 1993 kom nýr sóknarfélagi til sögunnar þegar Robbie Fowler vann sér sæti í liðinu. Þeir ungi og gamli náðu strax vel saman og skoruðu grimmt. Robbie sagði síðar um læriföður sinn: "Ég þoldi hann ekki þegar ég var strákur og hélt með Everton. Hann raðaði inn mörkum gegn Everton og það furðulega var að hann hélt líka með Everton þegar hann var strákur. Frá því ég hóf að leika með Liverpool hefur hann reynst mér sérlega vel. Fyrir leiki sagði hann mér allt um styrk- og veikleika varna mótherja okkar. Þegar út á völl var komið og leikurinn hófst hélt hann áfram að segja mér til". Graeme sagði af sér í lok janúar 1994 og Roy Evans tók við.

Á fyrstu heilu leiktíð Roy Evans með Liverpool vann Liverpool deildarbikarinn í fimmta skipti. Ian var duglegur að skora á leiðinni í úrslitin. Hann skoraði bæði mörk Liverpool í 2:1 sigri á Stoke á Anfield og í 16 liða úrslitum lék Liverpool á útivelli gegn Blackburn. Ian skoraði þrennu í sínum 600. leik og Liverpool vann 1:3. Þetta var 13. þrennan hans fyrir Liverpool og sú síðasta en aðrir hafa ekki skorað oftar þrennu fyrir félagið. Í 8 liða úrslitum vann Liverpool 1:0 sigur gegn Arsenal á Anfield. Eftir að hafa slegið Crystal Palace út í undanúrslitum mætti Liverpool Bolton Wanderes í úrslitum. Steve McManaman skoraði bæði mörk Liverpool í 2:1 sigri. Enginn var stoltari en Ian Rush sem tók við bikarnum í leikslok sem fyrirliði. Hann vann þar með deildarbikarinn í fimmta sinn og hafði verið í öllum sigurliðum Liverpool í keppninni og hefur enginn unnið oftar til verðlauna í þeirri keppni.

Sumarið 1995 keypti Liverpool Stan Collymore fyrir metfé. Ian var á 34. aldursári og fyrir leiktíðina var talið líklegt að hann hætti hjá Liverpool að henni lokinni. Ian byrjaði þó sem fyrirliði liðsins og lék fram eftir hausti en þá meiddist hann. Robbie og Stan léku eftir það í sókninni og náðu vel saman og skoruðu mikið. Um áramótin var Ian kallaður á fund Elisabetar Bretadrottningar. Í höll drottningar afhenti hún honum MBE orðuna við hátíðlega athöfn. Ian hafði nú náð sér af meiðslunum en komst einfaldlega ekki í liðið. Hann var á varamannabekknum en kom oft inná í leikjum og gerði þá jafnan usla enda varnarmenn enn smeykir við goðsögnina. Þann 6. janúar 1996 lék Liverpool í 3. umferð F.A. bikarsins gegn Rochdale á Anfield Road. Liverpool vann 6:0. Ian kom inná og skoraði eitt mark við gífurlegan fögnuð. Markið var hans 42. í F.A. bikarnum. Hann sló þar með met Denis Law og varð markahæsti maður keppninnar á öldinni. Þann 27. apríl kvaddi Ian Rush sinn heittelskaða heimavöll Anfield Road. Hann kom inná í 1:0 sigri gegn Middlesbrough en tókst ekki að skora. Eftir leikinn ætlaði allt um koll að keyra þegar áhangendur Liverpool jafnt og Middlesbrough hylltu snillinginn. Ian gekk um völlinn í síðasta sinn sem leikmaður Liverpool og að lokum fór hann að The Kop og henti keppnistreyju sinni til áhorfenda: "Ég gekk hægt um völlinn og lét hugann reika tilbaka. Frábærir leikir, mörk og eftirminnilegir sigrar komu upp í huga minn. Ekki síður stórkostlegir leikmenn eins og Kenny Dalglish, Graeme Souness, Alan Hansen og Bruce Grobbelaar brjálæðingurinn í markinu. Ég sá þetta allt fyrir mér. Ég vildi njóta stundarinnar sem lengst og helst vildi ég ekki fara út af vellinum."

Síðasti deildarleikur Ian var á útivelli gegn Manchester City. Ian kvaddi með marki í 2:2 jafntefli með 345 marki sínu fyrir Liverpool. Þann 11. maí lék Liverpool í úrslitum F.A. bikarsins gegn Manchester United. Sá leikur reyndist kveðjuleikur Ian fyrir Liverpool. Ian kom inná sem varamaður í síðari hálfleik en því miður gat hann ekki bætt við Wembleymörkin sín og leikurinn tapaðist 1:0. Nokkrum dögum síðar tilkynnti Ian að ætlaði að leika með Leeds á næstu leiktíð.

TIL BAKA