Ian Rush

Laugardaginn 6. maí 2000 í Þróttaraheimilinu gafst Arngrími Baldurssyni og Sigursteini Brynjólfssyni tækifæri á að ræða við markamaskínuna Ian Rush, markahæsta leikmann í sögu Liverpool. Hann tók vel á móti okkur og fannst mikið til koma hversu margir væru í klúbbnum okkar miðað við höfðatölu. Allir hafa ætíð borið honum vel söguna og það er augljóst hvers vegna. Rush er hið mesta ljúfmenni og skemmtilegur karakter. David Griffiths þáverandi tæknilegur stjóri knattspyrnudeildar Þróttar á miklar þakkir skildar fyrir en hann sá til þess að við fengjum mun rýmri tíma og meira næði með goðinu en aðrir fjölmiðlar enda sagðist hann Púllari sjálfur og vildi mest fyrir okkur gera. Við settumst hjá Rush og hófum viðtalið.

 

AB: Þegar þú varst leikmaður Chester hvernig varðstu fyrst var við áhuga Liverpool á þér?
Þeir komu að máli við Allan Oakes framkvæmdastjóra Chester í febrúar-mars 1980 og vildu fá mig til að skrifa undir samning en ég neitaði að fara því að á þeim tíma fannst mér ég ekki vera nógu góður leikmaður til þess að leika fyrir slíkan stórklúbb. Í apríl bauð Bob Paisley mér til Anfield og ég sá að félagið hafði upp á svo mikið að bjóða að ég gat ekki sleppt þessu tækifæri. Ég skrifaði undir hjá Liverpool í apríl 1980. Ég vissi að ef ég myndi ekki standa mig vel hjá Liverpool þá gæti ég alltaf komið aftur til Chester. Ég ákvað að láta slag standa og eftir 3-4 mánuði sá ég að ég var alveg nógu góður leikmaður fyrir Liverpool. Ég byrjaði að leika með varaliðinu og það voru fjölmargir leikmenn í varaliðinu sem höfðu fengið tækifæri með aðalliðinu og mér fannst að ég væri jafngóður og þeir og ég var því fullviss um að ég gæti fest mig í sessi í aðalliðinu ef ég fengi tækifæri til þess.

AB: Ég las að Bob Paisley kallaði þig á sinn fund því að það gekk hvorki né rak hjá þér og þú varst pikkfastur í varaliðinu…
Já það er rétt… Ég gaf sjálfum mér tvö ár til þess að komast í aðalliðið. Ég lék raunar síðustu 7 leikina á mína fyrsta tímabili í framlínunni í aðalliðinu er Steve Heighway og David Johnson voru meiddir. Mér fannst ég standa mig vel en vandamálið var að ég skoraði ekki eitt einasta mark. Í byrjun næsta tímabils var ég kominn aftur í varaliðið. Heighway og Johnson voru aftur komnir á fullt skrið og ég fór á fund Bob Paisley og sagði honum að ég vildi yfirgefa félagið vegna þess að mér fannst ég eiga skilið sæti í byrjunarliðinu. Paisley sagði : "Já, þú mátt fara en ástæðan fyrir því að þú ert ekki í liðinu er sú að þú ert ekki nógu eigingjarn og þú verður að vera eigingjarn ef þú ætlar að skora mörk. Hann sagði síðan að ég mætti fara á sölulista. Þegar ég var á leiðinni út af skrifstofunni, sagði ég honum að ég ætlaði sko að sýna honum hvernig ætti að skora mörk. Ég skoraði 7-8 mörk fyrir varaliðið á skömmum tíma og vildi síðan svo heppilega til fyrir mig að David Johnson meiddist og Bob Paisley gaf mér tækifæri í aðalliðinu. Ég skoraði tvö mörk í bikarnum gegn Exeter og síðan tvö gegn Leeds. [AB: þú skoraðir mark gegn Oulu Pallousera í Evrópukeppninni] Já, alveg rétt. Það var fyrsta mark mitt fyrir félagið. Ég kom inná sem varamaður. Paisley reyndist svo aldrei hafa sett mig á sölulistann. Eitt dæmi um hversu snjall framkvæmdastjóri Bob Paisley var. Hann kunni að ná því besta út úr leikmönnum sínum. Leikmenn fóru með vandamál sín til Bob Paisley og þegar þeir komu frá skrifstofunni hans voru leikmennirnir í 90% tilvika hæstánægðir. Þegar hinir spurðu hvað hefði gerst, var lítið um svör því að hann var snillingur í að svara aldrei þeim spurningum sem leikmennirnir höfðu fram að færa, en samt sem áður halda leikmönnunum ánægðum og gott betur.

AB: Var Bob Paisley hörkutól?
Hann var ekki hörkutól. Hann vissi meira um boltann en nokkur annar sem ég veit um. Jafnvel á æfingum þegar hann virtist ekki vera að fylgjast með, spurði hann af hverju þú brenndir af þessu færi og af hverju varstu að slaka á þarna þegar þú áttir að vera á fullu. Hann nálgaðist leikmennina á hvern sinn hátt og hafði ríka tilfinningu fyrir hvernig hann gat náð best til þeirra.

Ssteinn: Ég tók eftir að Ronnie Moran kemur 3-4 sinnum í hverri viku á æfingar en skipti sér ekki mikið af því sem er að gerast…
Ég hélt að það yrði erfitt fyrir Ronnie Moran að pakka saman og hætta. Liverpool Football Club er líf hans og honum myndi örugglega leiðast ef hann væri ekki á staðnum í einhverri mynd. Ronnie líkar að fara þangað en hefur líka vit á því að skipta sér ekki um of af því sem er að gerast því að aðstæður eru allt aðrar nú en þegar hann var þar. Houllier gerir hlutina á sinn hátt og á hátt sem er frábrugðinn aðferðum Ronnie Moran. En það er ennþá mikil virðing borinn fyrir Ronnie Moran og sömuleiðis ber Ronnie Moran mikla virðingu fyrir Liverpool. Ég mun reyndar taka fram skóna að nýju til þess að leika í ágóðaleiknum hans gegn Celtic.

AB: Það er orðrómur í gangi um að þú munir leika einn leik fyrir Þrótt í sumar. Er eitthvað hæft í því?
Ég fór til Ástralíu með knattspyrnuskólann minn og lék tvo leiki þar [AB: skorarirðu?] Já reyndar skoraði ég eitt mark. Vera mín hér á Íslandi er fyrir alla á Íslandi en ekki bara fyrir eitt lið og ég sé sjálfan mig ekki leika fyrir lið á Íslandi [hlátur].

Ssteinn: Hvað finnst þér um veru Roy Evans hjá Liverpool sem framkvæmdastjóra?
Mér fannst hann frekar óheppinn. Hann hefði getað verið áfram hjá félaginu en hann gerði það sem var best fyrir Liverpool Football Club. Tímarnir eru breyttir núna og þetta gekk ekki upp hjá honum. Það væri kannski rangt að segja að það gekk ekki upp hjá honum þvi að liðið komst í Evrópukeppnina á hverju keppnistímabili sem Roy Evans var stjóri.

Ssteinn: Fólk í Liverpool talar um að Roy Evans var frábær þjálfari en ekki góður sem framkvæmdastjóri….
Það fór vel á með honum og leikmönnunum. Hann var kannski of góður við þá. Þegar þú ert framkvæmdastjóri verður þú stundum að vera harður í horn að taka. Ef þú spyrð Roy Evans segir hann að honum fannst hann sjálfur harður í horn að taka en kannski ekki eins harður og hann átti að vera. Hann hefur lært af því núna en nú er það kannski orðið of seint. Ég er í stöðugu sambandi við Roy Evans og mér finnst hann hafa góða þekkingu á boltanum og hugmyndir hans mjög góðar. Ég held að ef hann hefði verið harðari af sér er hann og Houllier voru báðir stjórar þá hefði það fyrirkomulag gengið upp."

AB: Hver er ástæðan fyrir því að það sé ekki búið að ráða hann sem framkvæmdastjóra hjá einhverju öðru liði?
Ég veit ekki, kannski heldur fólk að hann sé ennþá of linur. Þú verður að vera harður af þér til að gegna starfi framkvæmdastjóra. Það eru annaðhvort þú eða þeir. Ef þú ert við stjórn verður þú að segja leikmönnunum til verka. Lið eru ef til vill viljug til að ráða hann sem aðstoðarmann en framkvæmdastjórarnir eru kannski hræddir við að fá hann sem aðstoðarmann sinn vegna þess að þeir halda að hann sé á eftir starfi þeirra þar eð hann hefur þegar verið stjóri hjá stórliði en Roy Evans er ekki þannig persónuleiki, heldur reynir hann að hjálpa því félagi sem hann er hjá á sem bestan mögulegan hátt.

Ssteinn: Hefurðu sjálfur hugleitt að gerast framkvæmdastjóri?
Mér hefur verið boðin störf hjá liðum í ensku deildarkeppninni en mér finnst að ég sé ekki tilbúinn enn að takast á við framkvæmdastjórastöðu. Ég er að þjálfa krakka núna og það gefur mér reynslu sem myndi nýtast mér síðar sem framkvæmdastjóri. Kannski verð ég stjóri einhvers staðar eftir 6 mánuði eða eftir 6 ár, ég veit það ekki. Ef þjálfunaraðferðir mínar virka á krakkana og ég sé þá taka framförum þá veit ég að ég er á réttri braut. Þangað til mun ég vera á fullu með markaskoraraskólann minn. Ég hef hannað þessar þjálfunaraðferðir og þær virðast virka núna. Félög hafa haft áhuga á því sem ég er að gera en áður fyrr héldu þau kannski að ég hefði ekki áhuga á að vera þjálfari. Er félögin sjá að hlutirnir eru að ganga upp hjá þér þá leita þau til þín. Ég hef skuldbundið mig í eitt ár í viðbót til þess að sinna þessum skóla. Ég verð að finna rétta liðið á réttum tíma. Fyrir ári síðan hefði ég kannski tekið hvaða starfi sem er sem hefið rekið á fjörur mínar. Ég átti reyndar eitt ár eftir hjá Wrexham en sagði upp þar til að einbeita mér að því sem ég er að sinna núna.

AB: Kannski er þá möguleiki á að þú verðir ef ekki framkvæmdastjóri, þá þjálfari hjá Liverpool einn góðan veðurdag?
Houllier er að gera frábæra hluti og það myndi enginn slá hendinni á móti því að fá að taka þátt í uppbyggingunni á Anfield. Ég myndi þó ekki segja að það væri takmark mitt. Mitt takmark er að kenna krökkunum. Þetta er forgangsatriði hjá mér en ef þetta tækifæri kemur upp síðar þá er það hið besta mál, ef ekki þá það.

TIL BAKA