Alan Hansen

Titlar:
8 deildarmeistaratitlar 79-80-82-83-84-86-88-90
4 deildarbikarar 81-82-83-84
3 Evrópumeistaratitlar 78-81-84
2 FA Cup 86-89

Fæddur: 13. júní 1955
Fyrsti leikur: 24. september 1977 - hættur: Haustið 1990
Fjöldi leikja: 620
26 landsleikir fyrir Skota 

 "Þann 21. september 1977, tók Bob Paisley mig afsíðis á æfingu og spurði hvort að ég væri tilbúinn að leika fyrir aðalliðið. Ég játti því."

Þannig hófst ferill Alan "Jocky" Hansen, sem ásamt Phil Neal, er sigursælasti leikmaður sem klæðst hefur treyju Liverpool sé miðað við fjölda titla.

 "Foreldrar mínir geyma allt sem viðkemur ferli mínum og í eigu þeirra er meðal annars bréf sem ég fékk frá Liverpool Football Club eftir að ég hafði eytt um vikutíma til reynslu hjá félaginu árið 1971. Undir það skrifaði Geoff Twentyman sem var aðalútsendari liðsins: "Það var ákveðið eftir reynslutíma þinn hjá Liverpool að þú værir ekki í þeim klassa sem félagið leitar eftir." Þetta var ekki skoðun Geoff sem hafði aldrei séð til mín heldur skoðun þjálfaranna hjá félaginu sem höfðu fylgst með þeim leikjum sem ég tók þátt í. Þess má geta að Geoff varð aðalhvatamaðurinn að því að fá mig til Liverpool sex árum síðar. Ég er þó ekki að setja út á dómgreind þeirra sem töldu mig ekki nógu góðan fyrir félagið.

Þar til ég var 14 ára gamall þá var ég frekar þybbinn og lágvaxinn en þá breyttist vöxtur minn allrækilega. Ég varð miklu hávaxnari og alltof mjór. Allir sem fylgdust með mér hafa áreiðanlega haldið að ég væri ekki nógu sterkbyggður. Líkamsburðir mínir gætu ef til vill útskýrt af hverju ég kom aldrei til greina í skosku unglingalandsliðin. Fyrsta daginn sem ég var til reynslu hjá Liverpool þá var ég gjörsamlega búinn að vera. Við kepptum við annað lið sem var svo gróft í tæklingum að eini kosturinn sem þjálfarar Liverpool hefðu getað séð við mig var að ég væri efnilegur grindahlaupari."

Alan Hansen lék ýmsar stöður í upphafi ferils síns hjá Partick Thistle en líkaði einna best að leika sem afturliggjandi framherji: "Áhorfendurnir höfðu gaman af því að sjá mig þeysast fram völlinn og leika á mótherjana. Þegar stungið var upp á því að ég léki sem miðvörður þá var ég ekki sáttur við þá ákvörðun. Miðvörður verður að geta tæklað og ég var vonlaus í tæklingum."

Hæfileikar Hansen í miðvarðarstöðunni vöktu þó það mikla athygli í Skotlandi að Evrópumeistarar Liverpool ákváðu að kaupa hann.

 "3. maí 1977 hringdi formaður Partick Thistle, Scot Symon, í mig og spurði: "Viltu ennþá fara frá félaginu?", sem ég svaraði játandi og spurði því næst: "Viltu skrifa undir hjá Liverpool?" Flestir leikmenn myndu verða óðir og uppvægir að ganga til liðs við Liverpool en alveg fram á síðustu stundu vonaði ég að eitthvað kæmi uppá sem yrði til þess að ég yrði um kyrrt í Skotlandi. Ég man að ég hugsaði að það væri frábært að segja öllum vinum mínum heima frá þessu en stóra vandamálið var að þetta krefðist þess að ég færi til Liverpool og léki fyrir félagið!

Mér fannst þetta vera of stórt skref fyrir mig. Þegar stóra stundin rann upp þá fór ég og Scot Symon í lest til Lime-Street lestarstöðvarinnar þar sem Bob Paisley tók á móti okkur. Þegar við vorum á leiðinni í bílnum til Anfield þá barst golf í tal og Scot tók fram að ég væri mjög góður kylfingur með tvo í forgjöf. Bob var ekki hrifinn: "Við erum ekki hrifnir af golfi hér hjá Liverpool, leikmennirnir verða of þreyttir í fótunum." Frábært, hugsaði ég, "strax kominn með mínusstig og ekki enn búinn að skrifa undir." Samningaviðræðurnar tóku bara um 10 mínútur og nú átti bara eftir að ganga frá 100.000 punda greiðslunni. Scot hélt að Liverpool ætlaði að greiða í afborgunum og gapti þegar Peter Robinson snéri sér að John Smith og bað hann um að fylla tékka fyrir allri upphæðinni. Hann gerði upp kaupin eins og hann væri að skreppa til kaupmannsins á horninu að kaupa mjólk. Það sem ég man helst eftir í lestinni á leiðinni heim var að Scot var alltaf að taka ávísunina úr vasanum og stara á hana. Ég man líka eftir að ég hugsaði í einfeldni minni um að hvort að þessi 150 punda vikulaun myndu líka eiga við sumarmánuðina. Partick greiddi lægri laun yfir sumarið og mér datt það ekki í hug er ég var staddur í Liverpool, sem betur fer, að spyrja hvort að ég þyrfti að sætta mig við lægri laun í 2-3 mánuði á ári!!"

Greinarhöfundur rakst á eftirfarandi blaðagrein sem birtist í Shoot! þegar Alan Hansen skrifaði undir hjá Liverpool. Það er sérstaklega gaman að lesa hana með tilliti til þess hvernig Hansen er nú minnst í annálum Liverpool:

Liverpool gerir sjaldan mistök í leikmannakaupum. Fólk sagði: 'hvaða Kevin?', þegar Kevin Keegan var keyptur frá Scunthorpe fyrir smáaura. Ray Clemence var ekki þekkt nafn þegar hann kom til Anfield fyrir svipað fé frá sama félagi. Nú hefur Liverpool farið út á markaðinn og keypt óþekkt nafn á ný og í þetta skiptið er það Alan Hansen sem kostaði 100.000 pund frá Partick Thistle. Hansen er steyptur í sama mót og Emlyn Hughes, Phil Thompson og Tommy Smith. Hinn hæfileikaríki Hansen er gæddur þeirri gáfu að geta sótt af krafti fram völlinn, myndað sóknir og klárað þær.

Hann áttar sig á að hann er ekki líklegur til að ganga beint inn í liðið: "Þetta er frábært skref fram á við á ferli mínum. Þetta er besta liðið í boltanum og þeir hafa sýnt og sannað það undanfarin ár. Það verður undarleg tilfinning að blanda geði við þessa frægu leikmenn. Ég var einn af stjörnunum hjá Partick af því að ég var landsliðsmaður. En nú er ég kominn á upphafsreit á ný og átta mig á að nú fyrir alvöru byrja ég að læra að spila fótbolta. Liverpool mun sjálfsagt láta mig leika með varaliðinu fyrst um sinn og sjá hvað í mig er spunnið."

100.000 pund mun örugglega vera álitin lítilvæg upphæð þegar Skotinn hefur náð toppnum. Bolton reyndi að bjóða 80.000 pund í hann rétt áður en leikmannamarkaðnum var lokað í mars en framkvæmdastjóri Partick, Bertie Auld, afþakkaði gott boð. Southampton og Newcastle voru líka sögð hafa áhuga en það var ekki nokkur leið að Hansen yrði leyft að yfirgefa Partick fyrir minna en 100.000 pund. Það virtist á tímabili sem hvert einasta félag á Bretlandseyjunum væri á höttunum eftir Hansen og hafði það truflandi áhrif á feril þessa 21 árs stráks þannig að Auld sagði þeim sem áhuga höfðu að setja peningana á borðið ellegar draga sig í hlé. Þetta kom ró á málin og Hansen gat einbeitt sér að ferli sínum hjá Partick Thistle á ný. Liverpool hafði fylgst grannt með honum og samþykkti þá upphæð sem Auld setti upp.

Hansen segist frekar vilja spila í vörn en á miðjunni en Liverpool mun sjálfsagt vilja nýtt hann í sem flestum stöðum ef því er að skipta. Hansen veit þó alveg hvernig á að skora mörk eins og Rangers komst að í 4-3 tapi þeirra gegn Partick í deildinni á síðasta tímabili. Hinn ungi Hansen gaf markverðinum Stewart Kennedy engan möguleika á að verja þrumuskot sitt sem jafnaði leikinn í 3-3. Þegar nær dróg leikslokum þá fékk Partick víti sem unglingurinn setti af öryggi í netið eins og þrautreyndur atvinnumaður. Bolton dáðist líka að stráknum þegar þeir kepptu við Partick í breska bikarnum. Hann var frábær í vörn þeirra í fyrri leiknum og skoraði svo sigurmarkið í seinni leiknum á heimavelli sínum Firhill.

Hansen bíður erfitt verkefni að reyna að komast í vörn Liverpool en þegar hann hefur vikið einhverjum þeirra fjögurra út úr liðinu þá gefst áhorfendum á Anfield færi á að sjá einn efnilegasta leikmann Skotlands sýna hvað í sér býr.

En Hansen hræðist ekki neitt: "Ég hlakka til að leika með Liverpool og mun ekki bregðast félaginu."

Það er ólíklegt að það fari svo.

TIL BAKA