Alan Hansen

Alan Hansen var fastamaður í liði Liverpool tímabilið 1989-90 sem fagnaði meistaratitli. Hann var enn mikilvægur leikmaður í liði Liverpool sem endurspeglaðist í því að hann varð í öðru sæti í vali blaðamanna á leikmanni ársins. Honum var boðinn nýr tveggja ára samningur sem hann skrifaði undir um vorið. Álagið á fætur hans var farið þó að segja til sín og sérstaklega var verkurinn í hnjánum að ágerast. Hansen þurfti að taka mikilvæga ákvörðun, ef hann vildi ganga óhaltur þar sem eftir var ævi sinnar þá yrði hann að hætta knattspyrnuiðkun. Hansen vildi forðast að leggja of mikið álag á sig og lék aðeins með varaliðinu fyrstu mánuði 1990-91 tímabilsins. En þrátt fyrir að hann óskaði einskis frekar en að geta leikið með aðalliðinu á ný þá þurfti hann að hugsa til framtíðar.

Árið 1990 var brátt að kveðja og honum fannst einnig tími til kominn að kveðja leikmannaferil sinn með Liverpool með 620 leiki að baki. "Ég sagði stjórnarformanni félagsins, Peter Robinson, frá þessu og hann lagði þá til að ég myndi prófa að þjálfa hjá félaginu. Hann myndi gefa mér þrjá mánuði og ef mér líkaði það þá gæti ég orðið hluti af þjálfaraliðinu til frambúðar. Eftir u.þ.b. tvo mánuði þá fannst mér ég ekki enn passa í þetta hlutverk. Ég þurfti að halda vissri fjarlægð á milli mín og leikmannanna og ég saknaði rígsins í búningsherbergjunum. Ég fór aftur á fund með Peter Robinson og sagðist vilja hætta hjá félaginu fyrir fullt og allt og þá kom hann mér á óvart. Þeir voru einungis skuldbundnir til að greiða mér sex mánaða laun en í stað þess greiddu þeir mér eftirstöðvar samningsins."

Bob Paisley keypti Hansen til Liverpool: "Alan Hansen hafði magnað vald á knettinum og tók hann öllum varnarmönnum fram sem ég hef séð á knattspyrnuvellinum. Hann var tignarlegur á velli og bjó yfir þeim sjaldgæfa eiginleika að vera frábær bæði í vörn og sókn. Flestir miðverðir láta sér nægja að vinna boltann og gefa hann síðan eins fljótt og þeir geta á miðvallarleikmennina eða framherjanna. En Alan vann boltann og tók hann með sér upp völlinn til þess að skapa usla í vörn andstæðinganna. Alan er einnig mjög þolinmóður leikmaður sem er frábær eiginleiki hjá knattspyrnumanni. Hve oft höfum við séð andstæðinga Liverpool pakka í vörn og reyna að tefja leikinn til þess að ná jafntefli á Anfield. Því lengur sem leikurinn er í gangi án þess að mark komi, því óþolinmóðari verða leikmennirnir og áhorfendurnir og því meiri freisting til þess að kýla boltann inn í vítateig andstæðinganna í þeirri veiku von að það gefi eitthvað af sér. Alan var algjörlega ónæmur fyrir þessum látum. Alan var sallarólegur að leita að rétta tækifærinu til þess að gera út um leikinn."

Kenny Dalglish: "Alan var ekkert í sérstöku uppáhaldi hjá mér þegar hann lék í Skotlandi. Þegar Celtic mætti Partick Thistle þá lét hann finna vel fyrir sér og ég hafði ávallt marbletti eftir viðureignir mínar við hann. Ég held að síðasti leikur hans með Partick Thistle hafi einmitt verið gegn Celtic og hann fékk gula spjaldið fyrir að brjóta á "þú getur reynt að giska á hverjum". Hann var nú ekki mikill vexti en það lék enginn vafi á að hann var hæfileikaríkur. Hann var góður í alls kyns íþróttum en knattspyrnuhæfileikar hans voru það miklir að það hefði verið synd ef hann hefði einbeitt sér að annarri íþrótt. Ég var enn hjá Celtic þegar hann flutti suður og ég man eftir að það voru nokkrir sem furðuðu sig á ákvörðun Liverpool að eyða 100.000 pundum í hann. Alan hefur borgað þessa upphæð margfalt tilbaka."

TIL BAKA