Alan Hansen
"Faðir minn fylgdi mér til Liverpool þegar ég flutti þangað og fyrstu nóttina mína þar var ég gráti næst. En ég var heppinn að nýju samherjarnir mínir tóku mjög vel á móti mér. Phil Thompson og Terry McDermott sögðust reiðubúnir að hjálpa mér með hvað sem er. Fyrsta hálfa árið sat ég út í horni og sagði ekki stakt orð en svo fór ég úr skel minni og tók þátt í búningsherbergjarígnum. Ég var ánægður að sjá að stríðnin í leikmönnum var engu síður barnaleg en hjá Partick Thistle. Það voru að vísu ekki allir leikmenn sem gátu tekið stríðninni og var Ian Rush þar sér á báti. Graeme Souness og Kenny Dalglish voru alltaf að stríða honum á hvernig hann greiddi hárið sitt alveg aftur. Þeir töldu að hann væri að reyna að líkjast Omar Sharif og byrjuðu að kalla hann "Omar" upp frá því. Hann sat við hliðina á mér í búningsklefanum og það var greinilegt að hann átti erfitt með að taka þessu en hann vandist þessu svo eins og aðrir."
Allan minn tíma hjá Liverpool þá var enginn leikmaður sem varð oftar fyrir barðinu á hrekkjabrögðum ýmis konar en Steve Nicol. Það var alveg sama hversu oft hann var plataður hann féll alltaf fyrir því. Hann var þó mjög fyndinn náungi sjálfur og gat því hlegið að vitleysunni jafn mikið og við. Einu sinni þegar Steve var nýbúinn að skrifa undir samning við Puma um að nota skóna þeirra þá skildum við eftir skilaboð um að hann ætti að hitta forsvarsmenn fyrirtækisins á bensínstöð sem var um 30 kílómetrum frá Liverpool og það á sunnudagsmorgni. Daginn eftir þá hitti hann mig og sagði: "Ég var nú ekki það heimskur að falla fyrir þessu". Þremur vikum síðar þá viðurkenndi hann fyrir mér eftir hann var búinn að fá sér nokkra bjóra að hann hafði í raun og veru farið og beðið á bensínstöðinni í tvo tíma og hefði líka verið með eiginkonuna með sér!!
Steve Nicol: "Við vorum á hótelherbergi í Ísrael og Alan bað mig um að halla mér út um gluggann og kalla á vegfarendur hvort þeir vissu hvað klukkan væri. Ég gerði það en áður en ég vissi höfðu hann og Kenny gripið í lappirnar á mér og þarna var ég dinglandi á haus út úm hótelglugga í Ísrael. Hann var líka meistari í símahrekkjum. Hann sannfærði Alan Kennedy einu sinni um að fara í Chester-dýragarðinn til að tala við Herra C. Lion (sæljón)."
Það veltu allir vöngum yfir því hver tæki við af Kenny Dalglish þegar hann hætti störfum. Tveim vikum eftir afsögn Dalglish boðaði Alan Hansen til leikmannafundar á Anfield. Danski miðjusnillingurinn Jan Molby minnist þessara tímamóta í sögu klúbbsins. "Nafn Roy Evans var nefnt til sögunnar en við töldum að hans tími væri ekki kominn. John Toshack, Steve Heighway og Phil Thompson voru einnig nefndir á nafn og einnig "Jocky" [Hansen], stórvinur Kenny, samlandi hans og maður sem hafði allt á hreinu. Við héldum að hann væri kannski rétti maðurinn í starfið og hann tók við því reyndar þó að það væri aðeins í örstuttan tíma. Við sátum inn í búningsklefanum þegar Jocky labbaði inn og ávarpaði okkur: "Góðan daginn félagar. Ég er nýi framkvæmdastjórinn ykkar. Ég hef tekið við tilboði stjórnarinnar og ég ætla að gera nokkrar veigamiklar breytingar."
Við sátum þarna þöglir sem gröfin og hlustuðum á hvernig málum yrði háttað undir stjórn Hansen. "Ég veit hvaða bar í Wirral þið stundið og þið fáið ekki lengur að fara þangað. Þið sem búið í Southport, ég veit hvert þið farið að drekka og sá staður er út úr myndinni líka. Drykkja ykkar er farin úr böndunum og nú er nóg komið. Steve Nicol! 'þú mátt aldrei fara á krá aftur'." Nokkrir leikmannanna litu á hvorn annan steinhissa. Var honum full alvara? "Ég ætla að breyta æfingunum. Ég mun velja nýjan fyrirliða og mun koma á nokkrum ákveðnum félagsreglum. Við munum ávallt hittast á sunnudögum og horfa á laugardagsleikinn á myndbandi. Við munum eyða mun meiri tíma saman." Þegar hann yfirgaf herbergið þá tók hann í hendurnar á Ronnie [Moran] og Roy [Evans] og þeir óskuðu honum til hamingju. Þegar hann var farinn varð allt vitlaust. Steve Nicol var ekki sáttur: "Hvað þykist hann vera? Hann er búinn að vera hérna í fjölda ára og nú ætlar hann að breyta öllum reglunum. Eina reglan sem er í gildi hjá þessu félagi er að þú breytir engu!" Við furðuðum okkur hvað mest á banni hans við drykkju á sunnudögum en hann hafði nú verið þokkalega duglegur við það sjálfur þegar hann var leikmaður. Skrítið hvaða breytingum menn taka þegar þeir verða framkvæmdastjórar. Á meðan á öllu þessu gekk stóð Jocky fyrir utan búningsklefann og hlustaði á okkur. Eftir 2-3 mínútur stakk hann hausnum inn um dyragættina: 'allt í plati!' ".