Robbie Fowler

Robbie hlakkaði til nýrrar leiktíðar: "En nú verð ég að sanna að þetta hafi ekki verið byrjendaheppni hjá mér. Ég hef trú á að liðið sé komið á rétta braut. Ef liðið leikur vel og við höfum smáheppni með okkur er engin ástæða til annars en að ætla að við verðum með í baráttunni um þá bikara sem í boði eru."  Aðspurður um hvort að hann hafi sett sér ákveðið takmark varðandi hversu mörg mörk hann ætlaði að skora á þessu tímabili, var Robbie hógværðin uppmáluð: "Það hef ég ekki gert en ég yrði ánægður með tíu mörk. Eftir gott gengi á síðustu leiktíð vil ég auðvitað skora fleiri mörk. Ég mundi hins vegar vera ánægður með tíu mörk því að þetta er einungis annað keppnistímabilið mitt í aðalliðinu."
Fowler hóf tímabilið af krafti og skoraði 5 mörk í fyrstu 3 leikjunum og var því ekki lengi að ná helmingnum af yfirlýstu takmarki sínu fyrir allt keppnistímabilið. Hann skoraði m.a. einstæða þrennu gegn Arsenal en það tók hann einungis 4 mínútur og 32 sekúndur að skora þrennuna og er það ennþá met í úrvalsdeildinni. Fowler var verðlaunaður fyrir frammistöðuna með nýjum samningi til 4 ára sem tryggði honum eina milljón punda í vasann en fyrir einu ári var hann einungis með 500 pund í vikulaun. Mark gegn Southampton fylgdi í kjölfarið en hann skoraði ekki í næstu 4 deildarleikjum. En Fowler datt þá heldur betur í stuð og skoraði 15 mörk í næstu 16 deildarleikjum og var þegar tveir dagar voru liðnir af nýja árinu kominn með 20 deildarmörk.
Robbie Fowler kunni vel að meta kosti þess að leika við hlið goðsagnarinnar Ian Rush: "Ian hefur gengið mér í föðurstað á vellinum síðan ég hóf feril minn hjá Liverpool. Hann hefur gífurlega reynslu og þekkir boltann út og inn. Hann veit allt um hvern einasta varnarmann og það hefur gert gæfumuninn fyrir mig. Hann er alltaf að hvetja mig inná vellinum og ég hef orðið betri leikmaður fyrir vikið. En ég er heppinn. Ég er að læra af þeim bestu og ef þú getur ekki lært af Ian, hverjum geturðu þá lært af?" Fowler vonaðist eftir titlum á þessari leiktíð og honum varð að ósk sinni þó að það hafi ekki verið sá stóri. Fowler átti stóran þátt í því að ryðja Crystal Palace úr vegi sem síðustu hindrun Liverpool á leiðinni til Wembley. Liðin léku heima og að heiman í undanúrslitum Coca Cola-bikarsins og unnust báðir leikirnir 1-0 og skoraði Fowler sigurmarkið í báðum leikjunum. Fowler hlakkaði til að leika á Wembley í fyrsta skiptið: "Ég hef aldrei verið taugaóstyrkur fyrir leik en ég er viss um að þegar ég mun labba út á völlinn og heyra hávaðann í áhorfendafjöldanum þá muni hárin rísa. Ian skoraði í fyrsta úrslitaleik sínum á Wembley og það væri frábært að endurtaka þann leik. En þrátt fyrir að Bolton sé í næstu deild fyrir neðan þá er ekki ólíklegt að þeir komist í úrvalsdeildina á næsta ári. Þeir eru með gott lið en Liverpool var alltaf að leika í Evrópukeppnunum og ég vil sem fyrst leika á þeim vettvangi. Að leika á Wembley verður hápunkturinn á góðu tímabili hjá mér." Fowler varð að ósk sinni og Liverpool tryggði sér sæti í Evrópukeppni félagsliða með því að leggja Bolton af velli 2-1. Besti vinur Fowler, Steve McManaman fór á kostum og skoraði bæði mörk Liverpool. Fowler fékk ánægjulega afmælisgjöf á tuttugasta afmælisdegi sínum er hann var valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar. Hann var jafnframt eini leikmaður Liverpool sem lék alla leiki liðsins á leiktíðinni og var opinberlega búinn að taka við markakóngstitli Liverpool af Ian Rush og gott betur. Hann skoraði 25 deildarmörk í 42 leikjum og alls 31 mark (2 í FA Cup og 4 í Coca Cola Cup) og varð þar með fyrsti leikmaður Liverpool í sex ár til að skora fleiri en 30 mörk á tímabili.

TIL BAKA