Robbie Fowler

Rush var nú á braut og Fowler því kominn í fyrsta skipti með númer 9 í stað númer 23 á bakið. Fowler átti við þreytandi bakmeiðsli í upphafi tímabils og var ekki upp á sitt besta. Hann skoraði einungis 2 mörk í fyrstu 7 leikjunum. Collymore var ekki heldur á skotskónum en nýr leikmaður var mættur á Anfield sem lék við hvern sinn fingur og dró úr áhyggjum Evans yfir formi Collymore og Fowler. Patrik Berger hafði komið inná helgina áður sem varamaður fyrir Collymore og skorað tvö mörk gegn Leicester. Berger og Fowler léku í fyrsta skipti saman í byrjunarliðinu gegn Chelsea og árangurinn lét ekki á sér standa. Fowler skoraði eitt og Berger tvö í 5-1 sigri. Fowler gat ekki leikið gegn West Ham og Man Utd og Berger fékk tækifæri á að spreyta sig við hliðina á Collymore.  Stan skoraði annað mark Liverpool í 2-1 sigri á West Ham en síðan tapaði Liverpool 0-1 gegn Man Utd. Fowler var orðinn stálsleginn og Evans vildi greinilega prófa áfram samvinnu hans og Berger og þurfti Collymore því að víkja. Derby fékk að kenna á Fowler og tvö mörk frá honum í upphafi síðari hálfleiks nægðu til sigurs. Skelfilegt 0-3 tap gegn Blackburn fylgdi í kjölfarið og ekki leið á löngu þar til Collymore hafði rutt Tékkanum úr vegi.

Robbie hélt upp á endurreisn Stan the Man með fjórum mörkum í leik gegn Middlesborough 17. desember. Annað mark Fowlers í leiknum var hundraðasta mark hans í treyju Liverpool. 100 mörk í 165 leikjum!! Ian Rush gerði hundraðasta mark sitt fyrir Liverpool í 166. leik sínum fyrir félagið, sem var met en nú var það naumlega slegið: "Robbie getur bætt markametið mitt hjá Liverpool. Ég hef líka trú á því að hann bæti met Roger Hunt sem er 245 deildarmörk fyrir Liverpool", sagði Rush er hann óskaði Fowler til hamingju með nýja metið. Steve McManaman sagði "enga ástæðu til að ætla annað en Fowler muni ryðja öllum hugsanlegum metum úr vegi í framtíðinni. Hann er ennþá ungur og er alltaf að bæta sig sem leikmaður. Hann átti það skilið að bæta metið hjá Rush því að hann er frábær leikmaður."
 
Collymore smitaðist af markagleði félaga síns og skoraði 7 mörk í næstu 9 deildarleikjum á meðan Fowler lét nægja sér 4. Sagt er að eldingu slái ekki tvisvar niður á sama stað en samt varð raunin sú gegn Newcastle á Anfield 10. mars. Annar 4-3 sigur staðreynd en nú var það Robbie Fowler sem skoraði sigurmarkið á síðustu stundu. Fowler átti erfitt með að sleppa úr fyrisögnum blaðanna í marsmánuði. Hann vakti athygli í leik gegn Arsenal fyrir að reyna að koma í veg fyrir að dómarinn dæmdi víti er leit út fyrir að Seaman hafði fellt hann í vítateignum en Fowler vissi betur og hristi hausinn og reyndi að telja dómaranum, Gerald Ashby, hughvarf en vítið var dæmt. Fowler brenndi af vítinu en McAteer fylgdi vel á eftir og skoraði sitt fyrsta mark fyrir Liverpool. Sepp Blatter formaður FIFA hrósaði Fowler fyrir heiðarleika sinn og sagði: "Þú getur verið stoltur af viðbrögðum þínum er vítið var dæmt. Viðbrögð sem þessi hjálpa til að viðhalda virðingu knattspyrnunnar." En hann var ekki lengi í náðinni hjá UEFA er sambandið sektaði hann aðeins tveimur dögum síðar fyrir að sýna hafnarverkamönnum í Liverpool sem höfðu misst störf sín, stuðning sinn í verki í leik gegn Brann í Noregi í Evrópukeppni bikarhafa. Er hann fagnaði seinna marki sínu í 3-0 sigri lyfti hann treyjunni sinni og kom þá í ljós bolur sem bar eftirfarandi áletrun: "Styðjið þá 500 hafnarverkamenn sem voru reknir." Reglur UEFA segja til um að pólitískur stuðningur sýndur í leikjum er með öllu bannaður og Robbie var sektaður um 100.000 kall.

29. mars skoraði Fowler svo sitt fyrsta mark fyrir landsliðið í 2-0 sigri á Mexíkóum. Viðburðarríkum mánuði var lokið en í apríl var Fowler enn kominn á forsíður blaðanna en nú fyrir að láta David Unsworth espa sig upp í nágrannaslagnum gegn Everton uns hann sprakk á limminu, slagsmál brutust út og báðir leikmenn fengu reisupassann. Fowler lék í 1-3 tapleik gegn Man Utd en missti síðan af 3 síðustu leikjunum á leiktíðinni vegna leikbannsins. Liverpool hafði aftur valdið vonbrigðum og 4. sætið hlutskipti liðsins. Robbie hafði "einungis" skorað 18 deildarmörk miðað við 25 og 28 árin áður en fjöldi marka hans í bikarkeppnunum og í Evrópukeppninni þýddi að markafjöldi hans fór samanlagt í 31 mark.

TIL BAKA