Robbie Fowler
Fowler meiddist í æfingaleik gegn norsku úrvalsliði er hann og risinn Jostein Flo lentu í árekstri og varð það til þess að hann missti af fyrstu fimm deildarleikjunum. Owen og Fowler léku loks saman í fyrsta skipti í framlínunni gegn Aston Villa 22. september á Anfield. Fowler gaf tóninn með marki úr vítaspyrnu en McManaman stal senunni með glæsilegu einleiksmarki áþekku marki hans gegn Celtic í Evrópukeppninni 6 dögum áður. West Ham var lagt af velli 2-1 á Upton Park og Fowler skoraði eitt sitt glæsilegasta mark á ferlinum er hann klippti boltann stórkostlega í netið. Markalaust jafntefli gegn Celtic á Anfield þýddi að liðið komst áfram með fleiri mörkum skoruðum á útivelli þar eð fyrri leikurinn fór 2-2 í Glasgow. Owen var látinn hvíla í fyrsta skipti á tímabilinu gegn Chelsea eftir að hann hafði ekki skorað í síðustu 4 leikjum. Stjarna Patrik Berger skein skært er hann skoraði þrennu og Fowler bætti því fjórða við. En við tók enn eitt tapið gegn Everton og niðurlægjandi 3-0 tap í Frakklandi gegn Strasbourg. Fowler skoraði tvö mörk í 4-0 sigri gegn Derby og mark eftir aðeins 48 sekúndur gegn Bolton 1. nóvember en aftur komu skapbrestir Fowler í ljós og hann var rekinn útaf í seinni hálfleik. 2-0 sigur á Strasbourg þar sem Fowler skoraði annað markið nægði ekki og liðið féll úr Evrópukeppninni.
Knattspyrnuspekúlantar efuðust um hlutverk Fowler í HM um sumarið en orð Glenn Hoddle sem hann lét falla 14. nóvember fyrir vináttuleik gegn Kamerún yljuðu honum um hjartaræturnar: "Robbie býr yfir þeim mikla hæfileika að koma boltanum í netið. Ef þú ætlar að vinna heimsmeistaratitillinn þarftu fæddan markaskorara sem getur skorað 5-6 mörk í úrslitakeppninni eins og Rossi '82 og Maradona '86. Ég veit að Alan Shearer er fær um það þar sem hann gerði það í EM '96 en það er mikilvægt fyrir okkur að hann sé í toppformi. En ef hann er ekki til staðar verðum við að hafa einhvern í bakhöndinni sem gæti valdið þessu erfiða hlutverki. Fowler hefur sex sinnum verið kallaður inn í hópinn og byrjað inná tvisvar og skoraði sitt fyrsta mark gegn Mexíkó. Við eigum einungis eftir að leika sex leiki þangað til HM hefst og ef leikmaður fær tækifæri þá verður hann að grípa það." Fowler átti svo stórleik gegn Kamerún og skoraði mark, sitt annað eftir þrjá leiki í byrjunarliðinu.
Fowler var hins vegar nú kominn í þriggja leikja bann. Fowler var ekki eins beittur og áður og var fús að viðurkenna það: "Vegna þess hve vel ég hef staðið mig áður þá finnst fólki að ég eigi alltaf að vera í toppformi. Mér leyfist ekki að eiga slæman kafla en það kemur fyrir alla leikmenn. Ég er búinn að missa nærri því þrjá mánuði af tímabilinu og er enn markahæsti leikmaður liðsins. Það er ekki slæmur árangur og ég er ánægður með markafjöldann en ekki frammistöðu mína í heild. Ég verð bara að leggja hart að mér en ég er viss að mörkin fari að streyma inn og ég byrji að leika vel að nýju."
Annan í jólum skoraði Fowler tvö mörk á 4 mínútum gegn Leeds í 3-1 sigri og síðan var Newcastle lagt af velli og 4 sigur Liverpool í röð staðreynd. Fowler skoraði 2 mörk í 7 leikjum í janúarmánuði og komu bæði mörkin í Coca Cola bikarnum gegn Newcastle í átta liða úrslitunum og í fyrri leiknum gegn Middlesbrough í undanúrslitum. En Boro vann seinni leikinn 2-0 og þar með var síðasta vonin um að vinna titil á þessu tímabili úti. En á 85. mínútu í leik gegn Everton 23. febrúar reið áfallið yfir. Fowler og Thomas Myhre markvörður Everton lentu í samstuði. Slitin liðbönd var niðurstaðan eftir rannsókn og 10 mánuðir framundan utan vallar. Enska landsliðið var á leið til heimsmeistarakeppninnar í Frakklandi án Robbie Fowler og Liverpool án markamaskínunnar fram að jólum.
Fowler hafði aldrei upplifað annað eins tímabil: "Að gagnrýna mann á opinberum vettvangi hjálpar þér ekki. Það kemur niður á sjálfstraustinu. Sumir geta tekist á við það, aðrir hafa látið bugast. Frægðin teygir anga sína langt fyrir utan knattaspyrnuvöllinn og inn í einkalíf mitt. Staðreynd, sem mér í hreinskilni sagt, er meinilla við. Ég fæ mjög góð laun sem ég hef enga ástæðu til að kvarta yfir en einkalíf mitt ætti að vera mitt einkamál ekki almennings. Þegar ég var yngri var þetta ekki eins slæmt en nú hefur þetta farið út yfir öll mörk velsæmis. Ég hagaði mér stundum kjánalega hérna áður fyrr en ég er manneskja og ekkert frábrugðinn öðrum. Eini munurinn er sá að um leið og eitthvað bjátar á er hitt og þetta grafið upp úr fortíð minni og skellt á síður dagblaðanna. "Hann gerði þetta... hann gerði hitt....." Ef eitthvað er verra en það þá eru það kjaftasögurnar sem maður heyrir. Í augnablikinu á ég að vera í kafi í eiturlyfjaneyslu! Ég á bágt með að trúa því hvað fólk getur sagt um mig. Allir leikmenn fara í lyfjapróf vikulega hjá Liverpool og því vonlaust að halda uppi slíkum lifnaðarháttum án þess að klúbburinn komist að því, þrátt fyrir það berast klúbbnum fjölda bréfa þar sem því er haldið fram að það séð mig taka eiturlyf. Jafnvel leigubílstjórarnir í Liverpool breiða út þetta kjaftæði. Ég hef aldrei snert á eiturlyfjum á ævi minni en ég var þrátt fyrir það kallaður "dóphaus" á götum úti. Þetta er án efa erfiðasti kafli ferils míns. Þetta kom niður á mér andlega en maður reyndi bara að gleyma raunveruleikanum en í raun og veru varð maður að taka einn dag í einu, svo niðurdrepandi var þetta.
Einn vinur minn var í leigubíl um daginn og leigubílstjórinn sagði við hann að Fowler væri á kókaíni. Vinur minn svaraði honum fullum hálsi, sagðist vera vinur minn og að þetta væri bara kjaftæði. Leigubílstjórinn svaraði þá "já, þetta eru bara kjaftasögur, maður", en samt er hann að fullyrða við vin minn að ég væri á eiturlyfjum þrátt fyrir að hann viti kannski betur. Þú myndir ekki trúa sumum bréfunum sem ég fæ í pósti, sérstaklega eftir að það breiddist út að ég vildi 50.000 pund í vikulaun. Fólk borgar peninga til að horfa á þig spila og byrjar að gagnrýna þig af því að það heldur að það hafi rétt á því. Ég er ekki sammála þessu viðhorfi. Fólkið á að standa að baki þér ekki vinna gegn þér. Fólk gleymir því að ég er ung og ómótuð manneskja og viðhorf þeirra bitnar á mér. Ég er metnaðarfullur og vill vinna til verðlauna. Ég er stoltur af því sem ég hef afrekað á stuttum ferli mínum en þau verðlaun sem ég hef unnið til hafa flest verið einstaklingsverðlaun. Ég vil vera hluti af sterku liði. Ég á einungis medalíur fyrir sigur í Coca Cola Cup og fyrir tap í úrslitaleik FA Cup. Ég vil deildarmeistaratitil og Evróputitil og þá get ég loks litið til baka og verið ánægður með knattspyrnuferil minn. Ég er einungis 22 ára gamall og það er almennt litið svo á að leikmenn nái hápunkti ferils síns 27 ára gamlir. Ég á nóg eftir inni ennþá."