Michael Owen

Michael Owen 9 ára gamall og virkilega spenntur að hitta hinn unga og efnilega Gary Speed!

Terry Owen rifjar upp æsku sonar síns: "Ég tók hann með að gamni til að leika sér með öðrum krökkum í fótbolta. Hann var 5 ára gamall. Flestir krakkarnir rétt gátu sparkað í boltann með tánni en Michael var að setja boltann utanfótar í markhornið. Maður gat haldið að hann væri þrem til fjórum árum eldri en hann var. Það var stórmerkilegt. Ég man þegar ég horfði á hann út um eldhúsgluggann leika listir sínar. Alveg frá blautu barnsbeini vissi ég að hann yrði sérstakur. Helsti kostur hans er hversu fljótur hann er á fyrstu metrunum og hversu snöggur hann er að hugsa í þeirri stöðu. Hann hefur skorað hundruðir marka. Það er honum eðlislægt að skora mörk." Átta ára gamall var Owen valinn til að leika með U-11 ára liði Deesidehéraðs. Níu ára gamall var hann orðinn fyrirliði. Tíu ára gamall sló hann 20 ára gamalt met Ian Rush hjá Deesideliðinu með því að skora 97 mörk á einu keppnistímabili en metið bætti hann um hvorki meira né minna en 25 mörk!

Owen í leik u-15 ára landsliðsins gegn Brasilíu 11. mars 1995

Owen var nú orðinn unglingur og skoraði ótrúlegt mark er hann lék fyrir enska u-15 ára landsliðið gegn Skotum. "Ég á örugglega aldrei eftir að skora betra mark á ferlinum. Þetta er uppáhaldsmarkið mitt. Við tókum miðju og ég hljóp bara í áttina að markinu þeirra. Mig langaði alltaf bara að snúa tilbaka út af því að ég vissi ekkert hvað ég væri að gera. Þeir reyndu hver á fætur öðrum að taka boltann af mér og allt í einu sá ég að það var möguleiki fyrir mig að skora sem ég og gerði." "Okkur gekk allt í haginn", rifjar John Owens upp en hann var þá þjálfari U-15 liðsins. "Við vorum 1-0 yfir og réðum gangi leiksins en allt í einu jöfnuðu þeir leikinn upp úr engu. Michael tók boltann af varnarmönnum sínum og hljóp að miðjuhringnum. Maður gat séð að hann var mjög argur út í þá fyrir að hafa gefið Skotunum þetta mark. Hann bað hinn framherjann að gefa strax á sig eftir að þeir tóku miðju. Michael braust upp allan völlinn og skoraði sigurmarkið. Vandamálið er að áhorfendur SKY sáu hann einungis fara framhjá síðustu þrem - fjórum mönnunum en í raun og veru lék hann á allt liðið þeirra." Þetta tímabil skoraði Owen 12 af 20 mörkum liðsins og sló þar með met Nick Barmby. Owens var heillaður af hæfileikum piltsins: "Það voru einnig gæði markanna sem leiddu greinilega í ljós að þarna var strákur með sérstaka hæfileika á ferð. Hann setti boltann í netið af miklu öryggi og útsjónarsemi. Hann eyðir ekki miklum tíma fyrir framan varnarmennina. Hann þýtur í áttina á þeim og tekur þá stefnu sem hann veit að varnarmaðurinn mun eiga í mestu erfiðleikum með, og þegar hann sér markið þá er hann mjög beinskeyttur. Hann mun ekki eiga í neinum erfiðleikum. Það er hætt við að of mikið verði lagt á ungar herðar hans en honum líkar sviðsljósið. Hann er gáfum gæddur, með mikið sjálfstraust en án þess þó að vera hrokafullur."

Michael Owen sýndi að þess var ekki langt að bíða að hann yrði tilbúinn fyrir aðalliðið. Tímabilið 1995-1996 lék hann með unglingaliði félagsins í bikarkeppninni þó að hann væri ennþá í Lilleshall, úrvalsskóla enska knattspyrnusambandsins. Flestir leikmennirnir voru um 18 ára gamlir en Owen var einungis 16 ára gamall. Hann skoraði þrennu gegn handhöfum bikarsins Man Utd, í átta liða úrslitunum og kom sigurmarkið á 92. mín. Liverpool komst í úrslit bikarsins með því að leggja Crystal Palace að velli. Liverpool vann fyrri leikinn 4-2 og Owen skoraði aðra þrennu en í seinni leiknum voru þeir 3-0 undir eftir 50 mínútna leik. Jamie Cassidy náði að minnka muninn áður en venjulegum leiktíma lauk, staðan samanlagt 5-5. Leikurinn fór því í framlengingu þar sem Owen fór á kostum og skoraði tvö mörk.

Liverpool mætti West Ham í úrslitum heima og að heiman. West Ham hafði ekki tapað í síðustu 24 leikjum og fóru þar Rio Ferdinand og Frank Lampard fremstir í flokki. Fyrri leikur liðanna fór fram 30. mars á heimavelli West Ham, Upton Park. Owen spilaði ekki með vegna þess að hann var upptekinn við að skora bæði mörk enska landsliðsins gegn Tyrkjum í Evrópukeppni U-16 ára landsliða í Austurríki. Hann hafði þar með skorað 28 mörk í 20 leikjum með ensku U-15 og U-16 ára landsliðunum sem er enn eitt metið. Leikmenn Liverpool létu fjarveru hans ekkert á sig fá og fremstur meðal jafningja fór Jon Newby, sem skoraði fyrra mark Liverpool og Larmour, sem kom inná sem varamaður í seinni hálfleik, bætti seinna markinu við.

meistari með unglingaliðinu

Lið Liverpool í seinni leiknum á Anfield 17. maí var skipað: Naylor í marki, Vörn: Prior, Brazier, Jamie Carragher og Gareth Roberts. Miðja: Stuart Quinn, Mike Quinn, David Thompson og Jamie Cassidy. Framlína: Jon Newby og Owen. Liverpool gafst ekki upp þrátt fyrir að lenda undir snemma í leiknum, Owen jafnaði leikinn með sínu 11. marki í 5 bikarleikjum og Stuart Quinn skoraði síðan sigurmarkið. Liverpool vann því bikarinn í fyrsta skipti í sögu félagsins. Þetta hafði mikla þýðingu fyrir félagið enda eftirsóttasti titill sem unglingaliði getur hlotnast í Englandi vegna þess að unglingaliðsdeildirnar eru héraðsbundnar og þetta er eina keppnin þar sem öll liðin geta mæst.

Michael Owen hélt upp á 17 ára afmælið sitt með því að skrifa undir atvinnumannasamning við Liverpool og vinna sér sæti í aðalliðshópi Liverpool. "Það var stór stund þegar Evans afhenti mér skyrtuna mína með nafni mínu og númeri á [nr.18]. Það kom mér mjög á óvart þar sem ég bjóst ekki við því að það myndi gerast svo snemma á ferli mínum. Steve Heighway þjálfari unglingaliðsins sagði Owen vera tilbúinn. "Ef Evans kæmi til mín núna og spyrði mig hvort Owen væri reiðubúinn, þá myndi ég hiklaust svara því játandi. Michael Owen hræðist ekkert. Ég hef engar áhyggjur af stráknum." Owen hafði engar áhyggjur heldur og hélt sínu striki. Hann lék með enska U-18 ára landsliðinu gegn því norður-írska og skoraði öll mörk enskra í 4-0 sigri. Hann gerði það ekki endasleppt á þessu tímabili og skoraði 5 af 7 mörkum A-liðs Liverpool gegn Crewe. Einn ónefndur unglingaliðsþjálfari hjá Liverpool lét þá hafa eftir sér: "Gefið honum tvö ár í viðbót og hann verður betri en Robbie Fowler!!."

TIL BAKA