Michael Owen
Owen missti af fjórum fyrstu leikjum 1999-2000 tímabilsins. Honum brá fyrst fyrir er hann kom inná á síðustu mínútunum gegn Arsenal er Liverpool vann 2-0 og lék um hálftíma gegn Man Utd í 2-3 tapleiknum. Hann byrjaði loks inná gegn Hull í deildarbikarnum og lék sínar fyrstu 90 mínútur gegn Leicester. Leikurinn fór 2-2 og Owen skoraði bæði mörkin. Næstu leikir voru erfiðir fyrir Liverpool og Owen sem skorti talsvert upp á leikæfingu. Besti leikur Owen á tímabilinu kom gegn Newcastle 26. desember. Færin sem fóru öfugu megin við stöngina fyrir nokkrum vikum rötuðu nú rétta leið í markhornin og var ánægjulegt að sjá "boy wonder" ná sér á strik á nýju. Owen skoraði gegn Wimbledon í næsta leik og var þar með búinn að skora 4 mörk í síðustu 3 leikjum.
22. janúar var hann tekinn snemma útaf gegn Middlesboro er meiðslin gerðu enn vart við sig. Hann hvíldi nú í einn og hálfan mánuð og kom aftur inn í liðið sem varamaður gegn Man Utd. Hann fékk gott færi til þess að gera út um leikinn og stimpla sig inn með eftirminnilegum hætti en hann var ryðgaður eftir fjarveruna og hitti ekki markið Púllurum til mikillar skapraunar. Hann var aftur varamaður gegn Sunderland en fékk að spreyta sig í byrjunarliðinu gegn Aston Villa og Derby. Hann skoraði gegn Derby og hlakkaði nú til viðureignarinnar gegn Newcastle sem hafði orðið illilega fyrir barðinu á Owen í síðustu þrem leikjum liðanna þar sem Owen hafði skorað alls sjö mörk. En Houllier tók þá ákvörðun að hvíla hann og hlífa honum við frekari meiðslum með því að dreifa álaginu. "Michael skilur afstöðu mína, þetta er hluti af endurhæfingu hans. Við viljum ekki flýta okkur um of með því að láta hann leika of marga leiki, útskýrði Houllier." Owen viðurkenndi að hafa orðið fúll en áttaði sig á því að Houllier bar hag sinn fyrir brjósti og vissi hvað hann væri að gera. Owen kom öflugur inn í næsta leik gegn Coventry og skoraði tvö mörk: "Það er framkvæmdastjórans að ákveða hvort að ég geti leikið alla leikina sem eftir eru á tímabilinu en hann fær borgað fyrir að taka slíkar ákvarðanir. Sú staðreynd að ég stóð mig vel gegn Coventry bendir til þess að það var rétt ákvörðun hjá honum að láta mig ekki spila síðasta leik."
Michael viðurkenndi að vera enn hræddur við meiðsli og það efaðist enginn um það miðað við frammistöðu hans í síðustu 5 leikjum tímabilsins: "Ég væri að ljúga ef mér væri ekki hugsað til líkamsástands míns fyrir hvern leik. Stundum nægir mér ef ég kemst í gegnum leikinn heill á húfi því að það þarf enginn að segja mér að liðböndin hafa ekki fyllilega jafnað sig eftir meiðslin. Þar til að ég hef leikið 10–20 leiki án þess að hljóta skaða af þá er þetta vandamál til staðar. Ég er að skora eitt og eitt mark en leik ekki eins vel og ég gerði. Ég talaði við stjórann og hann sagði að jafnvel Pele þyrfti tíma til þess að jafna sig. Hann sagðist ætla að styðja mig að fullu og það hefur hann gert."
Evrópukeppni landsliða nálgaðist óðfluga. England lék sína síðustu undirbúningsleiki og var Owen með gegn Brössum á Wembley 27. maí. Leikurinn fór 1-1 en Owen skoraði mark Englands á 39. mínútu af stuttu færi eftir að varnarmenn Brasilíu gleymdu stráknum í nokkrar sekúndur og var þeim umsvifalaust refsað. Owen var óumdeilanlega besti leikmaður Englendinga í leiknum og þekkti maður nú betur hin "gamla og góða" Owen sem skaut varnarmönnum skelk í bringu.
Þátttaka Englendinga í EM 2000 var engin frægðarför. Kevin Keegan virtist hafa ótæmandi þolinmæði gagnvart Alan Shearer en Owen fékk að finna fyrir svipu meistarans og var fórnað þegar breyta átti um leikaðferð til þess að vinna bug á andstæðingnum. Owen náði sér ekki á strik gegn Portúgal og kom raunar ekki á óvart þegar hann var tekinn útaf í hálfleik fyrir Heskey. Það var hins vegar fáránlegt þegar honum var skipt útaf gegn Þýskalandi og Rúmeníu. En heppnin var ekki beint með honum í þessari keppni og var honum refsað fyrir hversu snöggur hann var upp úr blokkunum. Línuverðirnir höfðu hreinlega ekki við honum og dæmdu hann rangstæðan. Eitt dæmi þessa var um miðjan fyrri hálfleik gegn Þjóðverjum. Babbel gerði hann réttstæðan er Owen tímasetti hlaup sitt fullkomlega, var sloppinn einn í gegn og fyrsta markið í loftinu. En línuvörðurinn kom í veg fyrir það. Owen var hættulegastur Englendinga í leiknum og átti frábæran skalla sem Kahn varði glæsilega í stöngina en allt kom fyrir ekki, Keegan kallaði hann útaf. Owen fékk aftur að kenna á línuverðinum í leiknum gegn Rúmeníu en í seinna tilvikinu í þessum leik var línuvörðurinn með á nótunum. Owen var réttstæður, náði boltanum á undan markverði Rúmeníu og skoraði. Keegan var hins vegar ekki með á nótunum frekar en fyrri daginn og tók hann útaf á 66. mínútu. Englendingar klúðruðu leiknum og allt búið spil. Hæfileikar Owen fengu ekki að njóta sín til fulls í EM og verður hann bara að bíða næstu heimsmeistarakeppni til þess að minna umheiminn á Michael Owen. Hann er ungur enn og tíminn honum hliðhollur.