Michael Owen
Rétt eins og tímabilið á undan setti Owen mark í fyrsta leik nú gegn Southampton. Gerard Houllier sem var kominn við hlið Roy Evans fagnaði 2-1 sigri. Liverpool gerði síðan 0-0 jafntefli gegn Arsenal en svo minnti Owen heldur betur á sig í leik gegn Newcastle. Nýr stjóri Newcastle Ruud Gullit var hylltur fyrir leikinn en 18 ára strákur sá um leikinn sjálfan og kvað Gullit gamla í kútinn. Glenn Hoddle var hrifinn: "Owen var ótrúlegur í dag. Hann hefði getað skorað fimm mörk í fyrri hálfleik. Hann klárar færin sín ótrúlega vel. Hann er besti framherjinn á Englandi í augnablikinu." Andreas Andersson, sænski framherjinn hjá Newcastle fylgdist með Owen af bekknum: "Hann er efnilegasti framherji í heiminum. Hann nýtti færin sín frábærlega og þriðja markið var eitt það besta sem ég hef séð." Glæsileg þrenna var í höfn og það var öllum ljóst að þarna var snillingur á ferð.
Owen var valinn leikmaður ágústmánaðar í úrvalsdeildinni en skoraði einungis 1 mark í næstu 8 leikjum. Houllier og Evans fannst hann vera þreyttur enda hafði hann fengið lítið frí frá knattspyrnuiðkun. Hann var hvíldur er Liverpool gerði markalaust jafntefli við Valencia á Anfield. Hann var ekki ánægður með þá ráðstöfun og tók það út á Forest í næsta leik. Hann linnti ekki látum fyrr en hann hafði skorað fjögur mörk.
Liverpoolklúbburinn á Íslandi hafði valið Owen leikmann tímabilsins 1997-98 og mætti því á leik Liverpool - Blackburn 29. nóvember með verðlaun honum til heiðurs. Þetta var fjórði leikur Liverpool síðan Houllier tók einn við stjórninni. Liverpool bar sigurorð af fallkandidötum Blackburn 2-0 og skoraði Owen annað markið á 33. mínútu. Liverpool tapaði næstu þrem leikjum en 19. desember gat liðið loks fagnað sigri í jólamánuðinum er Sheff Wed var lagt af velli 2-0. Owen var kominn í gang og skoraði 10 mörk í 15 leikjum. Hann var því upplitsdjarfur er Liverpool mætti Leeds 12. apríl.
Owen hafði leikið 81 af síðustu 85 leikjum Liverpool og hafði enga hvíld fengið síðastliðin þrjú sumur. Hann lék með u-18 ára landsliðinu í Frakklandi 1996, á HM unglinga í Malasíu 1997 og síðan á HM í Frakklandi 1998. Owen greip um vinstra lærið á 25. mínútu leiksins og var tekinn útaf. Meiðslin voru alvarleg og sýnt að tímabilinu hjá honum væri lokið. Owen reyndi að halda haus: "Líkami þinn getur ekki haldið endalaust áfram og þetta voru skýr skilaboð." Michael Owen hlaut samt aftur Gullskóinn ásamt fleiri köppum sem markahæsti leikmaður úrvalsdeildar 1999 þrátt fyrir að hafa misst af síðustu 7 leikjunum.