| Sf. Gutt

Stan Collymore í Sjónvarpinu!

Í kvöld verður hægt að berja Stan Collymore, fyrrum leikmann Liverpool, augum í Sjónvarpinu. Stan verður ekki í búningi Liverpool eða annarra þeirra liða sem hann lék með á skrautlegum knattspyrnuferli sínum heldur bregður honum fyrir í einni bíómynda kvöldsins.

Stan lék með Liverpool frá 1995 til 1997. Hann var keyptur frá Nottingham Forest fyrir metfé og stóð sig í raun nokkuð vel hjá Liverpool. En skapgerðarbrestir settu strik í reikninginn. Hann fór mikið einförum og flutti til dæmis aldrei til Liverpool. En Stan var alltaf vinsæll hjá stuðningsmönnum Liverpool og í raun hefði hann getað átt farsælan feril með félaginu. Líklega hafði hann allt til að bera til að svo hefði getað orðið nema rétt hugarfar. Stan lék 81 leik með Liverpool og skoraði 35 mörk. Hann lék tvo landsleiki með enska landsliðinu. Stan var seldur til Aston Villa en það var uppáhaldsliðið hans í æsku. Hann dvaldi ekki lengi þar frekar en hjá öðrum félögum sem hann spilaði með. Stan kvaddi Liverpool með heldur köldum kveðjum og fékk kaldar kveðjur á móti þegar hann sneri aftur til Liverpool með Aston Villa. Hann er einn fárra fyrrum leikmanna Liverpool sem hefur þurft að þola slíkar móttökur. Síðar rétti hann fram sáttahönd og hann hefur alltaf talað hlýlega um Liverpool og stuðningsmenn liðsins. Eitt sinn sagði hann að hann ætti þá ósk að geta náð sáttum við stuðningsmenn Liverpool því þeir hefðu alltaf reynst sér vel.

Eftir að Stan hætti knattspyrnuiðkun hefur lítið bólað á honum. Hann lagði þó leiklist fyrir sig um tíma og fékk hlutverk í framhaldi hinnar umtöluðu myndar Basic Instinct. Sú mynd hlaut helst frægð á sínum tíma fyrir uppstillingar Sharon Stone og var hún að sjálfsögðu fengin í framhaldið! Annar kafli þeirrar myndar hefur nú löngu runnið sitt skeið í kvikmyndahúsum og verður sýndur í Ríkissjónvarpinu í kvöld. Stan lék sem sagt hlutverk í þessari mynd og heitir sá sem hann leikur Kevin Franks. Basic Instict 2 hefst í Ríkissjónvarpinu klukkan 22:50 í kvöld. Stan var snjall knattspyrnumaður þó aldrei næði hann að uppfylla hæfileika sína. Ekkert skal fullyrt um leikarahæfileika hans. Sjón er sögu ríkari!

 

 

 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan