| SSteinn

Hátíðarhöld á laugardaginn

Flestir sem eitthvað fylgjast með knattspyrnu ætti að vera kunnugt um að á laugardaginn fer fram stórleikur í boltanum. Þá mætast Liverpool og Arsenal í úrslitum FA bikarsins. Mikil spenna og eftirvænting er búin að byggjast jafnt og þétt upp, og ætti að ná hámarki á laugardaginn klukkan 14:00.

Til að gera daginn ennþá eftirminnilegri, þá hafa Liverpool-klúbburinn á Íslandi og Arsenal-klúbburinn á Íslandi, tekið höndum saman og ætla að trekkja upp stemmninguna fyrir leikinn. Í Reykjavík verður skipulögð dagskrá á vegum klúbbanna sem hefst klukkan 12:00 með knattspyrnuleik á milli klúbbanna. Leikurinn fer fram á litlum grasvelli sem staðsettur er á milli sundlaugarinnar í Laugardal og Laugardalsvallarins. Einnig er stefnt að því að einhverjar þrautir og keppnir verði fyrir yngri aðdáendur. Að leik loknum verður svo farið í eina allsherjar skrúðgöngu með tilheyrandi karnivalstemmningu, sem endar á bílaplaninu við verslunarmiðstöðina Glæsibæ. Við viljum hvetja alla sem vettlingi geta valdið, að taka fram trefla, húfur og treyjur og fjölmenna á staðinn. Þetta er tækifæri til að vinna fyrstu rimmu liðanna tveggja og vera fjölmennari en Arsenal aðdáendurnir. Eftir skrúðgönguna eiga allir að hafa tíma til að annað hvort koma sér heim til að horfa á leikinn, eða halda inn á Ölver þar sem stemmningin nær algjöru hámarki. Þar verða Púllarar og Arsenal menn með sitt hvorn salinn.

Við vitum að ekki eiga allir kost á því að taka þátt í hátíðarhöldunum í Reykjavík, og því viljum við endilega hvetja menn til að koma saman annars staðar á landinu. Á síðunni okkar "í beinni" kemur fram hvar Liverpool aðdáendur hittast víða um land til að horfa á leiki, og vitað er að Arsenal menn ætla sér að gera sér dagamun á mörgum þessara staða. Við viljum því enn og aftur hvetja menn til að gera þennan dag sem eftirminnilegastan hvar á landi sem menn eru staddir og koma saman og mynda ógleymanlega stemmningu.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan