| Heimir Eyvindarson

Magnaðar lokamínútur á Emirates!

Arsenal og Liverpool skildu jöfn 1-1 eftir magnaðar lokamínútur á Emirates. Bæði mörkin komu í viðbótartíma.

Kenny Dalglish stillti upp óbreyttu liði frá sigurleiknum gegn Manchester City, sem þýddi að hinn ungi John Flanagan var í öðru sinni í byrjunarliði Liverpool. Þá var Jack Robinson á bekknum og eins fékk Raheem Sterling að fljóta með í leikmannahópnum þótt hann hafi reyndar ekki verið á leikskýrslu. Greinilegt að King Kenny hefur mikið álit á þessum ungu og efnilegu leikmönnum félagsins.

Leikurinn byrjaði afar fjörlega og bæði lið sóttu af krafti. Arsenal fékk fyrsta færi leiksins þegar Diaby skallaði framhjá eftir aukaspyrnu Nasri.

Fyrsta færi Liverpool kom mínútu síðar þegar Meireles sendi góðan bolta inn í teig á kollinn á Andy Carroll. Skalli Carroll var hinsvegar laus og olli Arsenal engum vandræðum.

Liðin skiptust á um að eiga hornspyrnur sem sköpðu ekki mikla hættu allt þar til á 16. mínútu að Koscielny skallaði boltann í þverslá okkar manna eftir misheppnað úthlaup Reina. Það skall hurð svo sannarlega nærri hælum.

Á 21. mínútu varð Fabio Aurelio að yfirgefa völlinn vegna meiðsla. Í hans stað kom hinn ungi Jack Robinson, en hann varð í lok síðustu leiktíðar yngsti leikmaðurinn til að spila með aðalliði Liverpool.

Á 25. mínútu skoraði Robin Van Persie fyrir Arsenal, en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

Fjórum mínútum síðar átti Suarez slæma sendingu til baka beint í fætur Van Persie sem sendi boltann beinustu leið inn fyrir á Fabregas. Sem betur fer tókst Spánverjanum ekki að nýta færið og okkar menn sluppu með skrekkinn.

Nokkrum mínútum síðar átti Suarez aftur klaufalega sendingu til baka en Van Persie náði ekki að gera sér mat úr því. Sjaldséð mistök hjá Úrugvæanum, sem hefur reyndar yfirleitt spilað betur en í þessum leik.

Þegar hér var komið sögu hafði Arsenal náð nokkuð góðum tökum á leiknum og var mun hættulegra liðið á vellnum. Vörn Liverpool stóðst þó áhlaup Arsenal manna með ágætum. Undir lok hálfleiksins mátti þó engu muna að Arsenal menn kæmust yfir þegar skot Eboue skaut af stuttu færi. Martin Skrtel náði að komast fyrir skotið og boltinn rúllaði fram hjá Reina og að marklínu okkar manna þar til Flanagan kom og hreinsaði.

Staðan 0-0 í hálfleik og varla hægt að segja annað en að Arsenal liðið hafi verið heldur beittara fyrri hálfleik.

Síðar hálfleikur byrjaði með sömu látum og hinn fyrri. Bæði lið reyndu að sækja og mikill kraftur var í leikmönnum beggja liða.

Á 49. mínútu átti Suarez ágætt skot að marki Arsenal en boltinn fór rétt fram hjá. Mínútu síðar var Carroll í mikilli baráttu inní teig Arsenal manna sem endaði með því að hann lá í valnum. Í endursýningu sást að hann lenti illa og virtist meiddur á ökkla. Eftir aðhlynningu ákvað hann að hrista hnjaskið af sér og halda áfram leik.

Á 55. mínútu átti Meireles ágætt skot frá vítateigshorni, en það fór fram hjá marki Arsenal.

Mínútu síðar fór um alla Liverpool aðdáendur sem fylgdust með leiknum. Jamie Carragher og John Flanagan skullu þá saman og Carragher lá hreyfingarlaus eftir. Sjúkraliðið geystist inn á völlinn og hlúði að Carra sem var steinrotaður á vellinum í nokkrar mínútur.

Carragher var borinn út af og í hans stað kom Grikkinn Kyrgiakos inn á völlinn. Sem betur fer bárust þær fregnir í lok leiksins að Carragher hefði ekki orðið meint af höfuðhögginu.

Skömmu eftir að Carragher fór út af afréð Dalglish að taka Carroll út af vegna meiðslanna sem hann hlaut skömmu áður. Í hans stað kom Jonjo Shelvey inn á. Liverpool búið með allar skiptingarnar og 20-30 mínútur eftir af leiknum.

Nokkurt jafnvægi var með liðunum á næstu mínútum. Arsenal var að vísu meira með boltann, en skapaði sér ekki fleiri færi en okkar menn, enda áttu ungu mennirnir í bakvarðarstöðunum í fullu tré við Walcott og Nasri. Walcott var reyndar skipt út af á 71. mínútu. Inn á í hans stað kom Rússinn Arshavin, sem oft hefur reynst okkar mönnum erfiður.

Á 76. mínútu átti Suarez gott skot að marki Arsenal en Szczesny varði vel.

Á 85. mínútu kom síðan langbesta færi leiksins. Þá komst Van Persie einn inn fyrir vörnina og átti ekkert eftir annað en að renna boltanum fram hjá Reina. Sem betur fór var Reina vandanum vaxinn og varði frábærlega. Boltinn barst út í teig fyrir fætur Robinson sem var hálf sofandi og hafði ekki rænu á að koma honum í burtu. Það nýtti Nicklas Bendtner, sem hafði nýlega komið inn á sem varamaður, sér og skaut að marki. Skot Danans var sem betur fer ekki gott og Reina varði auðveldlega.

Á 87. mínútu komst Suarez upp að markteigshorni Arsenal eftir góða sókn okkar manna. Í stað þess að renna boltanum út á Shelvey eða Kyrgiakos sem voru báðir í upplögðu færi ákvað Úrugvæinn að skjóta úr mjög þröngu færi. það heppnaðist ekki sem skyldi að þessu sinni og boltinn fór himinhátt yfir.  Má þar með eiginlega fullyrða að slakasti leikur Suarez í Liverpool treyju hafi verið þessi leikur.

Allt stefndi svo í markalaust jafntefli sem hefði verið það þriðja í röð hjá Arsenal mönnum á heimavelli.  En vegna meiðsla Carragher bætti dómarinn við átta mínútum.  Á 96. mínútu lék Cesc Fabregas inn í vítateig og þegar hann huggðist snúa sér að marki með boltann var hann felldur af Jay Spearing.  Vítaspyrna var réttilega dæmd og úr henni skoraði Van Persie.  Fögnuður heimamanna var gríðarlegur enda héldu flestir þarna að stigin þrjú væru í höfn og liðið nú komið nær Manchester United í titilbaráttunni.

Leikmenn Liverpool voru þó á öðru máli og strax eftir miðjuna skaut Dirk Kuyt að marki og þurfti Szczesny að vera vel vakandi til að verja skotið því það stefndi í markið.  Leikmenn Liverpool héldu áfram að pressa og fyrirgjöf barst inn í vítateig sem varnarmenn heimamanna náðu ekki að hreinsa almennilega frá marki.  Raul Meireles og Jonjo Shelvey léku saman fyrir utan vítateig og barst boltinn til Lucasar sem var felldur af Diaby rétt á vítateigslínunni, dómarinn gat því lítið annað gert en að dæma aukaspyrnu.  Þegar þarna var komið við sögu voru liðnar 100 mínútur af leiknum.  Aukaspyrnuna framkvæmdi Luis Suarez en varnarmenn Arsenal voru fyrir skotinu.  Boltinn barst vinstra megin í vítateiginn þar sem Eboue felldi Lucas mjög klaufalega.  Var því lítið annað að gera fyrir ágætan dómara leiksins en að dæma vítaspyrnu.

Á punktinn fór Dirk Kuyt og skoraði hann úr spyrnunni örugglega.  Var þetta síðasta spyrna leiksins og jafnteflinu á Emirates var gríðarlega vel fagnað.  Eitthvað kastaðist í kekki milli knattspyrnustjóra liðanna en Arsene Wenger átti í erfiðleikum með að sætta sig við að hafa misst unnin leik niður í jafntefli.

Arsenal:  Szczesny, Eboue, Djorou, Koscielny, Clichy, Diaby (Song 81. mín.), Wilshere (Bendtner 72. mín.), Fabregas, Nasri, Walcott (Arshavin 73. mín.) og Van Persie.  Ónotaðir varamenn:  Lehmann, Squillaci, Gibbs og Chamakh.

Mark Arsenal:  Robin Van Persie, víti, (90. + 7 mín.).

Gul spjöld:  Eboue og Van Persie.

Liverpool:
  Reina, Flanagan, Carragher (Kyrgiakos, 62. mín.), Skrtel, Aurelio (Robinson, 22. mín.), Spearing, Lucas, Meireles, Kuyt, Suarez og Carroll (Shelvey, 71. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Gulacsi, Cole, Rodriguez og Ngog.

Mark Liverpool:  Dirk Kuyt, víti, (90. + 12 mín.).

Gul spjöld: 
John Flanagan, Martin Skrtel, Jonjo Shelvey og Lucas Leiva.

Maður leiksins:  Að þessu sinni verður það Dirk Kuyt sem verður fyrir valinu.  Stáltaugar hans komu berlega í ljós þegar hann steig á vítapunktinn á 102. mínútu og skoraði örugglega.  Kuyt hefur tekið sjö vítaspyrnur á ferli sínum hjá Liverpool og skorað úr þeim öllum !

Kenny Dalglish:  ,,Ég held að það sé ekki til það lið sem getur sýnt sama baráttuanda og mitt lið sýndi hér í dag.  Að missa Fabio Aurelio snemma leiks og setja 17 ára varnarmann inn á, við misstum svo fyrirliða okkar og í hægri bakvarðastöðunni var 18 ára leikmaður, við misstum svo okkar aðal sóknarmann af velli og eftir átta mínútur í uppbótartíma fengum við á okkur víti.  Leikmennirnir vildu samt ekki sætta sig við tap og þeir náðu stigi útúr þessum leik.  Það er ekki hægt að hrósa þeim meira en það."

Fróðleikur:

- Liverpool hefur ekki unnið Arsenal í London í 10 ár.

- Síðasti sigur á Arsenal á þeirra heimavelli kom árið 2001 þegar Titi Camara skoraði eina mark leiksins á hinum sáluga leikvelli Highbury.

- Mark Dirk Kuyt kom á 102. mínútu leiksins, það er met í ensku úrvalsdeildinni.

- Hollendingurinn er nú orðinn markahæsti leikmaður liðsins í úrvalsdeildinni með 10 mörk.

- Jack Robinson spilaði sinn annan leik með aðalliði félagsins. Hann er yngsti leikmaðurinn í sögu Liverpool til að spila fyrir hönd félagsins.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan