| Sf. Gutt

Fimm stjörnu stórsýning!

Leikmenn Liverpool settu sannkallaða stórsýningu á svið í London í kvöld þegar Rauði herinn burstaði Fulham 5:2. Hver einasti leikmaður Liverpool átti stórleik og Maxi Rodriguez eignaðist annan boltann á skömmum tíma.

Kenny Dalglish sendi sömu menn til leiks og í síðasta leik. Þeir biðu ekki boðanna og mark var komið áður en við var litið. Lucas Leiva sendi laglega sendingu fram vinstri kantinn. Luis Suarez lék inn í vítateiginn og sendi fyrir markið. Varnarmaður Fulham komst fyrir en stýrði boltanum að eigin marki. Markmaðurinn Mark Schwarzer komst fyrir en honum tókst ekki vel til því hann sendi boltann út í teiginn beint á Maxi Rodriguez sem skoraði af öryggi. Aðeins 32 sekúndur voru liðnar!

Á 5. mínútu átti Jay Spearing gott skot utan vítateigs sem fór beint á Mark í markinu. Hann kom hins vegar engum vörnum við tveimur mínútum seinna. Lucas sendi boltann fram hægri kantinn á Glen Johnson sem tók strikið inn í vítateiginn. Hann lyfti boltanum yfir á fjærstöngina þar sem Maxi var mættur til að skora af stuttu en þröngu færi. Honum varð ekki skotaskuld í að skora enda liggur allt inni hjá honum um þessar mundir. 

Eftir stundarfjórðung vildu leikmenn Liverpool fá víti eftir að Brede Hangeland stuggaði greinilega við Luis sem féll við. Dómarinn dæmdi ekkert en hefði hann dæmt víti hefði Norðmaðurinn fokið af velli. En heimamenn sluppu ekki við að fá á sig mark mínútu seinna. Boltinn gekk manna á milli til hægri á Dirk. Hann reyndi að komast áleiðis en varnarmaður komst fyrir. Boltinn hrökk til Glen sem sendi strax á Dirk. Hollendingurinn reyndi skot við hægra vítateigshornið. Það var ekkert sérlega vel heppnað en Mark missti boltann á óskiljanlegan hátt í markið. Allt gekk upp hjá Dirk sem þarna skoraði í fimmta leiknum í röð! Stuðningsmenn Liverpool voru í sjöunda himni og vel það. 

Á 23. mínútu slapp hinn óstöðvandi Luis inn í vítateig vinstra megin. Hann var kominn einn á móti Mark en þrumaði boltanum í innkast hinu megin á vellinum! Færið var nánast vonlaust og Luis hefði átt að gefa á einhvern en það höfðu ekki margir áhyggjur af því. Á 34. mínútu náðu heimamenn loksins af ógna af einhverju viti. Clint Dempsey átti þá skot eftir horn en Glen bjargaði á marklínu. Líklega voru stuðningsmenn Fulham þeirri stund fegnastir þegar leikhlé hófst en það hafði verið sannkölluð ánægja, fyrir stuðningsmenn Liverpool, að horfa á strákana hans Kenny sem voru alveg frábærir.
 
Það var viðbúið að leikmenn Fulham reyndu að minnka skaðann í síðari hálfleik. Þeir mættu ákveðnir til leiks og létu vel finna fyrir sér. Það kom því ekki endilega á óvart að Fulham skyldi skora á 57. mínútu. Moussa Dembele fékk þá boltann í vítateignum eftir gott spil og laumaði honum neðst í vinstra hornið án þess að Jose Reina kæmi nokkrum vörnum við. 

Reyndar var alltaf hætta á að Fulham kæmist frekar inn í leikinn með því að skora aftur en á 70. mínútu gerði Liverpool út um leikinn. John Flanagan braut sókn Fulham á bak aftur með því að komast inn í sendingu við miðjuna. Hann kom boltanum fram á Maxi sem hugðist ryðjast áfram en varnarmaður komst fyrir. Maxi fékk þó boltann aftur, lék upp að vítateignum og lét þrumuskot ríða af sem söng í markinu. Glæsilegt mark og stuðningsmenn Liverpool fyrir aftan markið fögnuðu geysilega enda full ástæða til.

Enn jókst fögnuður þeirra fimm mínútum seinna. Varamaðurinn Jonjo Shelvey sendi frábæra sendingu fram á Luis sem stakk sér inn á vítateiginn. Þar lék hann á Mark í markinu og sendi boltann með tilþrifum í autt markið. Stórglæsilega afgreitt og Luis átt svo sannarlega skilið að skora. Þremur mínútum seinna var Úrúgvæinn enn á ferðinni. Hann slapp þá enn einu sinni frá vörninni en skot hans fór langt yfir. 

Bæði lið sóttu fram á síðustu mínútu og það átti eitt mark eftir að koma í viðbót þegar fjórar mínútur voru eftir. Martin Skrtel skallaði þá frá marki en boltinn fór beint á Steve Sidwell sem skoraði með glæsilegu skoti upp í vinstra hornið. Enn komu fleiri færi á mörkum. Mínútu fyrir leikslok tók Luis snögga aukaspyrnu rétt utan vítateigs á Jonjo sem átti gott skot sem Mark varði vel í horn. Eftir hornið átti Jay skot sem stefndi í markið en varnarmaður náði að bjarga við marklínuna. 

Enn var hætta við mark Fulham þegar komið var fram í viðbótartíma. Luis braust þá inn í vítateiginn hægra megin og sendi fyrir markið á Dirk en varnarmaður bjargaði á línu með hendi. Ekki var dæmt víti eins og leikmenn Liverpool fóru fram á en Dirk hefði reyndar átt að skora því færið var upplagt. Það skipti kannski ekki máli og stuðningsmenn Liverpool gátu fagnað stórsigri og það það gerðu þeir með söng lengi eftir leik. Sigrinum var ekki bara fagnað sem slíkum heldur líka því hvernig liðið lék.

Þetta var bara eins og í gamla daga! Allir leikmenn Liverpool voru á ferðinni allan leikinn. Boltinn gekk manna á milli og reynt var að sækja við hvert tækifæri. Leikgleði skein úr hverju andliti og stuðningsmenn Liverpool léku við hvern sinn fingur í stúkunni. Á hliðarlínunni var svo Kenny Dalglish. Þetta er bara eins og í gamla daga!

Fulham: Schwarzer, Salcido, Hangeland, Baird, Hughes, Sidwell, Murphy, Dempsey, Davies (Zamora 46. mín.), Eiður Smári Guðjohnsen (Johnson 67. mín.) og Dembele (Kakuta 76. mín.). Ónotaðir varamenn: Stockdale, Senderos, Etuhu og Greening.

Mörk Fulham: Moussa Dembele (57. mín.) og Steve Sidwell (86. mín.).

Gul spjöld: Danny Murphy, Clint Dempsey, Carlos Salcido, Steve Sidwell og Chris Baird.
 
Liverpool: Reina, Johnson, Carragher, Skrtel, Flanagan, Meireles (Shelvey 48. mín.), Rodriguez (Cole 82. mín.), Leiva, Spearing, Suarez og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Gulacsi, Kyrgiakos, Wilson, Robinson og Poulsen.

Mörk Liverpool: Maxi Rodriguez (1., 7. og 70. mín.), Dirk Kuyt (16. mín.) og Luis Suarez (75. mín.).

Gul spjöld: Jose Reina og Martin Skrtel.
 
Áhorfendur á Craven Cottage: 25.693.
 
Maður leiksins: Luis Suarez. Enn einn stórleikurinn hjá Luis. Hann var óþreytandi við að ógna heimamönnum og gerði það frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Varnarmenn Fulham réðu nákvæmlega ekkert við hann og hann skoraði fallegt mark sem stórleikur hans verðskuldaði.

Kenny Dalglish: Þetta var frábær leikur. Það segir sér sjálft að við byrjuðum af krafti enda skoruðum við tvö mörk snemma í leiknum. Knattspyrnan, hreyfing manna og hversu vel þeir unnu kom í veg fyrir að Fulham kæmist í gang. Hvernig leikmennirnir unnu sína vinnu og hvernig þeir æfa er fagi þeirra til sóma. 

 


                                                                          Fróðleikur

- Jamie Carragher lék sinn 666. leik með Liverpool.

- Hann er þar með orðinn annar leikjahæsti leikmaður Liverpool á eftir Ian Callaghan.

- Maxi Rodriguez skoraði sína aðra þrennu í þremur leikjum og hann er búinn að skora í þremur leikjum í röð.
 
- Maxi er nú búinn að skora tíu mörk á keppnistímabilinu og er næst markahæstur á eftir Dirk Kuyt.

- Dirk skoraði í fimmta leiknum í röð.

- Markið var hans fimmtánda á sparktíðinni.

- Luis Suarez skoraði fjórða mark sitt í búningi Liverpool.

- Liverpool er nú í fimmta sæti deildarinnar. 

- Liverpool hefur skorað þrettán mörk í síðustu þremur leikjum.

- Raul Meireles lék sinn 40. leik með Liverpool. Hann hefur skorað fimm mörk í þeim leikjum.
 
- Joe Cole skoraði 30. leik sinn með Liverpool. Hann hefur skorað þrjú mörk.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér má horfa á viðtal við Kenny Dalglish.

Hér má horfa á viðtal við Jamie Carragher.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan