| Sf. Gutt

Jamie kátur með langþráðan sigur

Liverpool vann Arsenal á útivelli í fyrsta sinn á þessari öld á laugardaginn. Jamie Carragher fannst sigurinn enn sætari vegna þess hversu langþráður hann var og hann vissi vel hversu langt var síðan Liverpool vann Skytturnar síðast úti. Hann var spurður eftir leik hvort sigurinn væri sætari eftir svona langa bið. 

,,Ég hugsa það. Ég vissi af þessari staðreynd. Ég held að það hafi verið tíu eða ellefu ár frá því við unnum hérna síðast og Highbury er líka meðtalinn á þessum tíma."
 
,,Þetta er vegna þess að þeir hafa haft frábært lið hérna lengi. Það er erfitt að koma hingað en ég held að við höfum verðskuldað sigur í dag. Reyndar voru nokkrir meiddir hjá þeim og svo meiddust menn í leiknum og það gerði þeim erfitt fyrir. Við vildum færa okkur það í nyt."

Liverpool var með eitt stig eftir fyrstu tvo leikina á síðasta keppnistímabili en nú eru komin fjögur stig í hús. Jamie er ánægður með betri byrjun en síðast og segir sigurinn kannski vera skilaboð um að betri tíð sé framundan.

,,Þetta var stórleikur og mikilvægur sigur. Ég veit hvernig við byrjuðum á síðasta keppnistímabili. Við vorum nærri því að ná góðum úrslitum á móti Arsenal en svo töpuðum við á útivelli gegn Manchester City. Allt í einu var staðan sú að við vorum með eitt stig af sex og það var ekki gott."
 
,,Ég er svo sem ekki viss um hvað þessi sigur þýðir en kannski taka einhverjir eftir honum og hugsa með sér að þetta Liverpool lið geti látið að sér kveða á þessu keppnistímabili. Við þurfum að passa okkur og byggja á þessum úrslitum. Sigurinn hefur komið okkur í góða stöðu."

Jamie Carragher átti stórgóðan leik gegn Arsenal. Fyrirliðinn stóð vaktina í vörninni eins og sönnum fyrirliða sæmir í þessum 670. leik sínum með Liverpool.





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan