| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Kenny Dalglish gegn Roy Hodgson eða Liverpool gegn West Bromwich Albion? Þegar liðin mættust síðast reyndu fjölmiðlamenn að etja þeim saman enda tók Kenny við af Roy þegar þörf var á breytingum hjá Liverpool. Ekki tókst að egna þá vinina því þeir bera virðingu fyrir hvorum öðrum og ekki féll styggðaryrði milli þeirra fyrir eða eftir leik.

Bæði Kenny og Roy hafa átt góðu gengi að fagna í sínum nýju störfum. Kenny veit ekkert betra en að fara á fætur og stýra liðinu sínu og stuðningsmenn Liverpool vita ekkert betra en að fara á fætur og vita að Kenny stjórnar liðinu þeirra. Roy tók við West Bromwich Albion sem var í vanda statt í neðri hluta deildarinnar. Hann stýrði liðinu í örugga höfn í vor og því vegnar vel. Það sem var sagt besta mál fyrir alla að Kenny og Roy fengju ný störf.    

                                                             

                                                                          
                                                            West Bromwich Albion v Liverpool

Ég held að það gæti verið komið að Liverpool að fara á The Hawthorns og vinna. Ég veit að Baggies unnu þegar liðin léku undir lok síðustu leiktíðar og það voru frábær úrslit fyrir Roy Hodgson stjóra West Brom eftir að hann var látinn víkja frá Liverpool fyrr á leiktíðinni. En Liverpool hefur tekið miklum framförum frá því þá og það eru enn framfarir á þeim bænum. Liðshópur þeirra Rauðu er miklu breiðari og nú er hægt að breyta liðinu til að prófa eitt og annað. Slíkt er mikilvægt. Roy lætur lið West Brom leika mjög skipulega og það er erfitt að brjóta það á bak aftur en ég held að svo verði núna.

Kenny Dalglish framkvæmdastjóri Liverpool kvartaði eftir jafnteflið við Norwich að Luis Suarez fengi litla vernd hjá dómurum. Ég held á hinn bóginn að Luis þurfi að fara varlega í því hvernig hann hagar sér. Hann minnir mig svolítið á Didier Drogba fyrst eftir að hann kom til Chelsea. Hann lét sig þá detta við hvert tækifæri en liðsfélagar hans tóku hann í gegn með þetta og ég vona að leikmenn Liverpool geri líka það sama við Luis.

Spá: 1:2.

                                                                                   Til minnis!
 
- Liverpool mætir W.B.A. í annað sinn eftir að Kenny Dalglish tók við stjórn Liverpool af Roy Hodgson.

- W.B.A. vann 2:1 þegar Roy og Kenny tókust á undir síðasta vor.

- Mörkin tvö voru þau fyrstu í tíu leikjum sem W.B.A. skoraði gegn Liverpool.

- W.B.A hefur ekki tapað í síðustu fjórum leikjum.

- Kenny Dalglish mætir breskum framkvæmdastjóra sjötta leikinn í röð.
 
- Liverpool hefur ekki tapað í síðustu sex leikjum.

- Níu sinnum hafa leikmenn Liverpool skotið í tréverk andstæðinga sinna á sparktíðinni

- Jose Reina hefur aðeins haldið tvisvar hreinu í tólf leikjum á leiktíðinni.

- Luis Suarez hefur skorað flest mörk Liverpool manna eða sjö.

Hér má sjá leikmenn Liverpool undirbúa sig fyrir leikinn í dag. 

                                                                                       Síðast!






Þegar þessi lið mættust undir vorið var mikið gert úr því að þarna leiddu saman hesta sína Roy Hodgson og Kenny Dalglish arftaki hans. Vel fór á með þeim fyrir leik enda eru þeir búnir að vera vinir lengi. Svo fór að W.B.A. vann 2:1 með tveimur vítaspyrnum Chris Brunt eftir að Martin Skrtel kom Liverpool yfir. Roy var kannski kátur innst inni með þau málalok þótt hann léti á litlu bera.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan