| Sf. Gutt

Lokaspretturinn hefst annað kvöld!

Lokaspretturinn hjá Liverpool um Englandsmeistaratitilinn hefst annað kvöld þegar Everton kemur í heimsókn yfir Stanley Park. Óhætt er að segja að mikilvægi leiksins á Anfield Road sé vart hægt að færa í orð!

Arne Slot, framkvæmdastjóri Liverpool, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag. Á fundinum var farið yfir stöðu mála hvað meiðsli varðar. Fram kom að Alisson Becker sem fékk þungt höfuðhögg í landsleik með Brasilíu þurfi að fara í gegnum sérstakt próf áður en hann fær grænt ljós til að spila leikinn. 

Conor Bradley hefur verið meiddur síðustu vikur. Hann er farinn að æfa og ekki er útilokað að hann verði í liðshópi Liverpool annað kvöld. 

Ryan Gravenberch fór heim úr herbúðum hollenska landsliðsins og lék ekkert með landsliðinu vegna meiðsla. Arne sagði að hann væri í lagi og ætti að geta tekið þátt í leiknum við Everton.

Trent Alexander-Arnold er meiddur og verður frá eitthvað fram í mánuðinn eins og áður hefur komið fram. Joe Gomez er auðvitað líka úr leik. Hann er þó eitthvað farinn að braggast og það fyrr en reiknað var með. 

Arsenal vann Fulham 2:1 fyrr í kvöld. Liverpool leiðir því deildina núna með níu stigum en á leikinn annað kvöld til góða. Það er því augljóst mál að Liverpool verður að vinna Everton á Anfield til að halda Skyttunum í hæfilegri fjarlægð!

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan